Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Njáll Trausti sigraði þrátt fyrir andstöðu Þorsteins Más: Flugumferðarstjórinn sem varð þingmaður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í nýlegri grein Kjarnans kemur fram að í samræðum „skæruliðadeildar“ Samherja sé það undirstrikað að Þorsteinn Már Baldvinsson vilji ekki að Njáll Trausti Friðbertsson verði næsti oddviti Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi. Njáll Trausti, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, var eigi að síður valinn í efsta sæti lista flokksins í prófkjöri. Hann segir í samtali við Mannlíf að hann viti ekki hvað sé á bak við þetta og að þetta hafi ekki mikil áhrif á sig. Hann talar hér líka um áherslur sínar í stjórnmálunum, Akureyri, Varðberg og norðurslóðir.

„Ég veit ekki nákvæmlega hvað er á bak við þetta þannig að ég er ekki að fabúlera neitt. Þetta er ekkert að hafa mikil áhrif á mig. Ég held bara mínu striki,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, varðandi það að í nýlegri grein Kjarnans kemur fram að í samræðum „skæruliðadeildar“ Samherja sé það undirstrikað að Þorsteinn Már Baldvinsson vildi ekki að hann verði næsti oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. 

„Samherji er mikilvægt fyrirtæki fyrir norðan og ég hef alltaf verið jákvæður gagnvart þeim þannig að ég hef ekkert til að kommenta í sjálfu sér um það. Ég hef líka fundið fyrir góðum stuðningi frá starfsfólki Samherja þannig að það er ekki eins og allt fyrirtækið sé með þessa afstöðu“.

 

Í prófkjöri flokksins um síðastliðna helgi kom svo í ljós að Njáll Trausti muni leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Hann er spurður hverju hann vilji ná fram í stjórnmálum.

Flugumferðarstjóri á þing

- Auglýsing -

„Ég hef mikinn áhuga á mörgum málefnum sem styrkja samfélagið. Ég stofnaði á sínum tíma félagið Hjartað í Vatnsmýrinni ásamt félögum mínum en áhersla í þeim félagsskap er að verja stöðu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni.  Það er að verja stöðu þessa gríðarlega mikilvæga samgöngumannvirkis sem flugvöllurinn er. Hvort sem litið er til sjúkraflugsins, hlutverks vallarins sem varaflugvallar eða þess mikilvæga hlutverk sem hann gegnir í samgöngumálum landsmanna. Hér er um grundvallaröryggismál að ræða. Áður en ég fór á þing var ég í bæjarmálefnum á Akureyri; ég byrjaði að taka þátt í þeim af fullum krafti árið 2010. Þau er býsna mörg málefnin sem mér finnst skipta máli sem ég vil ná framgang í,“ segir Njáll sem settist á þing árið 2016 en hann starfaði við flugumferðarstjórn fyrir norðan í fjölda ára.

„Ég hef til dæmis áhuga á uppbyggingu Akureyrarflugvallar, uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og alþjóðaflugvallakerfi landsins. Þetta er bara þjóðaröryggismál. Það sama er að segja um raforkukerfi og fjarskipti. Ég hef einfaldlega áhuga á að byggja upp samfélagið og styrkja það og þar gegna samgöngumálin auðvitað mikilvægu hlutverki hvort sem er í lofti, láði eða legi. Öflug verðmætasköpun er forsenda fyrir því að hægt sé að byggja upp sterkt velferðarsamfélag og ég hef alltaf haft áhuga á að taka þátt í því verkefni. Mér finnst ég hafa mikið fram að færa sem tengist mörgum sviðum. Það eru margir boltar á lofti“.

 

- Auglýsing -

Njáll segist ekki dreyma um ráðherrastól. 

„Stuðningsmenn mínir tala mikið um samgönguráðuneytið en ég hef mikið rætt um samgöngumál hvort sem það er flugið eða vegir sem þarf að styrkja. Ég er líka áhugasamur um ferðamál og má geta þess að þegar ég var í viðskiptafræðinámi þá lagði ég áherslu á ferðaþjónustu í öllu því námi og lokaverkefnið tengist hagrænum áhrifum í ferðaþjónustu. Þetta var fyrir 17 árum þegar enginn var að pæla í þessu“.

 

NATO og norðurslóðir

Njáll Trausti er formaður Íslandsdeildar NATO-þingsins og er hann auk þess einn af varaformönnum vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins. Þá er hann varaformaður Utanríkismálanefndar. Njáll er formaður Varðbergs sem eru samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál. 

„Ég varð formaður Varðbergs í vetur þegar Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hætti sem formaður; hann var búinn að vera formaður í 10 ár. Það vantaði mann til að taka við og var leitað til mín þar sem vitað var að ég hafði kynnt mér þessi mál vel og var vel inni í þessum málum.“

Á gamalkunnum slóðum í flugumferðarturninum.

Njáll Trausti var í Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál 2017 og tók þátt í vinnu við gerð nýrrar norðurslóðastefnu fyrir Ísland. 

„Ég held að við eigum að gera okkur gild á norðurslóðum. Það búa bara um fjórar milljónir á þessum skilgreindu norðurslóðum og við erum um 10 prósent af þeim mannfjölda. Þannig að þetta skiptir okkur gríðarlegu máli. Það er margt að gerast í þessum heimshluta og áhuginn fer vaxandi í alþjóðastjórnmálunum á málefnum norðurslóða svo sem í tengslum við loftslagsmál, öryggis- og varnarmál og í sambandi við siglingaleiðirnar og ég hugsa að norðurslóðamál verði einn af meginþáttum í utanríkismálastefnu Íslands á næstu árum og áratugum. Áhugi á norðurslóðum hefur aukist mikið á undanförnum árum og ég finn það á NATO-þinginu hvað áherslurnar hafa beinst þangað“.

 

Þjónustan og skógurinn

Njáll ólst upp á Seltjarnarnesi, lék sér úti í Gróttu, og æfði fótbolta með KR þar til álagið var of mikið á hnén og hann hætti. Hann var lestrarhestur og segist 10 ára gamall hafi lesið blöðin í um tvo tíma á dag. Hann fylgdist með því sem var að gerast í þjóðfélaginu og úti í hinum stóra heimi. Svo hafði hann áhuga á ljósmyndun sem hann gerir enn.

Hann lærði flugumferðarstjórn og flutti til Akureyrar rúmlega tvítugur til að vinna þar í nokkur ár en hann þekkti Norðurland vel þar sem hann hafði verið í sveit á sumrin á æskuárunum hjá ættingjum fyrir norðan. Síðan eru liðin 30 ár og á Akureyri á hann konu, tvo syni og tíkina Bellu sem fer með húsbónda sínum í gönguferðir. 

Njáll Trausti nýtur þess að stunda útivist. Hér er hann með hundi sínum.

„Ég bý í Naustahverfi á Akureyri og þar er allt við hendina; stutt í alla þjónustu og ég er kominn út í skóg eftir stutta göngu. Ég áttaði mig á því eftir að ég flutti norður hversu geysilega fallegt umhverfið er. Það er annars almennt gott að búa á Íslandi og ég hef komist að því svo sem þegar ég var skiptinemi í Bandaríkjunum á sínum tíma og svo þegar maður hefur ferðast víða um heiminn. Við höfum það almennt mjög gott á Íslandi. Verkefnið hlýtur hins vegar alltaf að vera að gera enn betur. Um það snúast stjórnmálin“.

 

Seltirningur sem varð Akureyringur. Njáll er spurður samviskuspurningar. Hvað eru tröppurnar margar sem liggja upp að Akureyrarkirkju?

„Eru þær ekki 107? Ég held þær séu 107.“

Rétt svar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -