Leiðin upp í Kýrskarð var auðgengin. Það var vor og mildur ilmur af græðlingum í loftinu. Ég var kominn til að kynna mér Hornstrandir. Fréttir um ísbirni á Skaga höfðu vakið ugg í brjósti margra. Á Hornströndum eru fjölmargar sagnir um ísbirni sem gengu á land og ógnuðu fólki. Engin staðfest dæmi voru þó um að dýrin hefðu orðið fólki að fjörtjóni. Ég hafði með mér leiðsögumann upp Kýrskarð sem er alfaraleið á milli Látravíkur og Hornvíkur. Ketill Halldórsson, skálavörður Ferðafélags Íslands, tók að sér að leiðbeina mér og ganga þennan spöl upp í skarðið.
Á leiðinni varð mér hugsað til ísbjarna. Hefði ég kannski átt að vera vopnaður? Ketill taldi hættuna vera hverfandi. Ég rifjaði upp atvik á Svaldbarða fyrir nokkrum áratugum þegar ísbjörn náði ungri stúlku á hlaupum og varð henni að bana. Þær höfðu verið tvær saman í grennd við Longyearbyen þegar grindhoraður ísbjörn kom hlaupandi að þeim. Báðar tóku á sprett en þær áttu aldrei möguleika, enda nær björninn allt að 40 kílómetra hraða. Það fór enda svo að sú sem var seinni að hlaupa lenti í klóm bjarnarins en hin slapp.
Norðan við Kýrskarð er Dögunarfell en sunnanvert er Axarfjall. Þar sem við komum í skarðið opnaðist dýrðleg sýn niður í Hornvík. Áætlun mín var að ganga niður í Hornvík og halda norður með víkinni og fara um Almenningsskarð til baka í Látravík, alls 10 kæilómetra leið. Eftir að hafa drukkið kaffi og borðað saman ástarpunga úr Geirabakaríi í Borgarnesi, kvöddumst við og Ketill hélt til baka. Leiðin niður í Hornvík er mun brattari og erfiðari yfirferðar. Smám saman læddist þokan að og skyggnið minnkaði. En stígarnir eru glöggir og auðratað niður. Mér varð hugsað til ísbjarnarins á Svalbarða þar sem ég fikraði mig áleiðis niður Kýrdal. Ég ákvað að hafa á mér allan vara en gerði mér grein fyrir að þetta var enn sem komið er aðeins í hausnum á mér. Ein lexían í flótta frá ísbirni er sú að tína af sér það sem hægt er og skilja eftir. Ef fólk er með nesti í bakpoka þykir snjallt að skilja það eftir svo björninn stoppi og möguleikar flóttamannsins yrðu meiri. Þá skiptir öllu að þú sýnist vera stór í návígi við ísbjörninn. Alls ekki leggjast niður og líta út eins og selur. Og þú þarft að vera hávær.
Þokan náði niður á jafnsléttu. Það var hrollur í mér þar sem gekk hröðum skrefum út víkina. Ég ákvað að fá í mig yl, stoppaði og tók upp prímusinn. Ég bograði við verk mitt og sneri undan norðanáttinni og suddanum sem smaug í gegnum goretex og ull. Ekkert heyrðist nema hvæsið í prímusnum. En skyndilega var kyrrðin rofin. Ég heyrði að baki mér más og þungan andardrátt sem færðist nær. Blóðið fraus í æðum mínum. Mín versta martröð var orðin að veruleika í Hornvík. Ég var um það bil að verða bráð ísbjarnar. Ég var sem lamaður. Hjartað barðist um í brjósti mér. Suðan kom upp og í sömu svifum náði ég að rjúfa kyrrstöðu mína og ég spratt á fætur, öskraði eins hátt og ég gat, um leið og ég tók hálfhring til að horfast í augu við óvininn. Prímusinn valt um koll og sjóðandi vatnið rann í svörðinn, engum til gagns. Þegar þessi tilþrif mín stóðu sem hæst heyrði ég neyðaróp úr barka konu. Þá skildi ég hvaðan þessi þungi andardráttur kom. Tvær lafmóðar, austurlenskar konur í útivistarklæðnaði stóðu og æptu á mig í hamslausri skelfingu. Ég reyndi afsakandi að segja eitthvað en þær tóku á sprett upp hlíðina.
Eitthvert magnaðasta og hrikalegasta svæði er að finna á Hornströndum. Að vetrinum lætur náttúran til sín taka og á stundum er þar sannkallað veðrarvíti. Við þær aðstæður börðust menn fyrir tilveru sinni. En svo kom sumarið með sinni blíðu og hamrar og fjöll tóku á sig allt annan og hlýlegri blæ. Stálgráminn vék fyrir litum sumarsins. Fólk hafði þá nóg að bíta og brenna. Fuglinn í bjarginu og fiskurinn í sjónum voru sannkallað bjargræði þeim sem hokruðu með nokkrar kindur og kannski kýr. En það hallaði smám saman undan byggð á Hornströndum og í Jökulfjörðum. Bæirnir lögðust í eyði, einn af öðrum. Loksins var aðeins Hornbjargsviti við Látravík í byggð. Þar voru vitaverðir með fjölskyldur sínar og gættu þess að sjófarendur sæju ljósin frá vitanum og næðu að komast örugglega fyrir Horn, um eitt hættulegasta hafsvæði heims. Hafísinn þröngvaði sér gjarnan að landi þannig að siglingaleiðin varð háskaleg eða jafnvel lokuð. Þá átti vitavörðurinn það til að fara upp á Axarfjall með VHF-talstöð og leiðbeina skipum sem voru að brjótast fyrir Horn. Svo slæddust ísbirnir með hafísnum, heimamönnum til hrellingar. Víst er að vistin í vitanum gat verið einmanaleg. Mánuðum saman á meðan vetur geysaði átti enginn leið þar um nema frá sjó. Mannlegir harmleikir áttu sér stað þarna á við endimörk byggðar á Íslandi. En svo voru það líka gleðistundirnar sem skyldu eftir sig dýrmætar minningar.
Seinustu ábúendur í Hornvík
Ég náði hugarró og setti aftur vatn í pottinn og kveikti undir. Hann var ljúfur kaffibollinn. Konurnar voru horfnar inn í þokuna. Ég kláraði að næra mig og og hélt aftur af stað norðureftir. Nokkru síðar sá ég tvær mannverur í fjarska. Þær tóku stóran sveig framhjá mér. Við mér blasti í gegnum þokuna, Frímannshús sem Frímann Stefánsson, vitavörður á Hornbjargsvita, hafði byggt. Dauði hans var mikil harmsaga.
Seinasta fólkið sem hafði vetursetu á Hornströndum, fyrir utan vitaverðina, bjó einmitt í Frímannshúsi. Það voru hjónin Hulda Eggertsdóttir frá Bolungarvík og Þorkell Sigmundsson. Þau bjuggu þar ein í eitt ár, 1951-52. Það var nokkrum árum eftir að allir fyrrverandi ábúendur í þessari afskekktu sveit höfðu flust á brott. Einu beinu tengsl ungu hjónanna við umheiminn voru í gegnum útvarpstæki, knúið rafhlöðum. Ekkert var rafmagnið og aðeins einn olíulampi á heimilinu til að lýsa upp á köldum og myrkum vetrarkvöldum. Kynding var frá eldavél sem var hituð upp með rekavið. Hulda var þunguð þennan vetur og fæddist þeim hjónum sonur um vorið.
Margt býr í þokunni
Ég gekk af stað áleiðis fram Innstadal, áleiðis að Almenningaskarði. Á vinstri hönd við mig reis sá tilkomumikli Kálfatindur, hæsti tindur Hornbjargs. Efsti hluti hans var enn hulinn þoku. Mér varð hugsað til örlaga Frímanns. Aðeins var tekið að rofa til í gegnum þokuna. Skyggnið var að nálgast kílómetra. Ég sá mannveru í fjarskanum. Ég hugsaði með mér hver þetta gæti verið. Hugsanlega var þetta Dóri skálavörður að taka á móti mér og tryggja að ég kæmist heill heim í vitann? Hann hafði sagt mér að stundum færi hann upp á fjall með þokulúður til að leiðbeina göngufólki úr villu Strandaþokunnar.
Ég hrökk upp af hugsunum mínum og greikkaði sporið. En það vakti undrun mína þegar ég nálgaðist að maðurinn var alltaf á sama stað. Það voru um 200 metra i hann þegar ég sá að hann var í kufli og með hettu sem dregin var yfir höfuðið. Þetta var ekki einleikið. „Fyrst ísbjörn og svo draugur,“ hugsaði ég með mér.
Ég hafði verið iðinn við að segja draugasögur undanfarna daga. Meðal annars sagði ég ferðafólki í Norðurfirði gjarnan söguna af bíldraugnum í Norðurfirði og húsdraugnum sem gjarnan tók sér far með honum um sveitina. Báðir höfðu verið staðfestir af starfsmönnum Neyðarlínunnar sem gistu á sögustaðnum. Þá var sagan um drauginn með iPhone 4 gjarnan á takteinum. Nú flaug í huga mér að svartklædda veran við skarðið væri hugsanlega draugur Ég hægði á göngunni og hélt hikandi áfram. Það voru í mér ónot þótt ég væri alla jafna ekkert sérstaklega draughræddur.
Þegar 50 metrar voru eftir í fyrirbærið bærði það loks á sér. Ég kveið því að sjá andlitið, höfuðkúpu með tveimur tómum augntóftum.
„Helló,” hvíslaði draugurinn og snéri sér að mér. Andlitið var góðlegt með augum og nefi. Miðaldra maður með kringlótt gleraugu og kíki hangandi um hálsinn. Mér var óskaplega létt. Hann útskýrði fyrr mér í lágum hljóðum að hann væri við refatalningu. Þarna væri óðal með 10 refum að minnsta kosti. HAnn hafpði staðið þarna í sömu sporum í 6 klukkustundir.
Við kvöddumst í lágum hljóðum og ég hélt áfram göngu minni heim í vita. Þokan var farin og veðurblíða með útsýni til allra átta tekin við. Ég gekk með brúnum. Refir og fuglar léku sér í blíðunni. Laupur utan í bjarginu og íbúarnir, nokkrir hrafnsungar biðu þess að fá mat í gogginn. Þetta svar sannkölluð veisla fyrir heila og hjarta.
Vitinn birtist mér í blíðunni. Í dag er hús vitavarðanna í Látravík ekki mannað nema að sumrinu. Ferðafélag Íslands rekur þar skála og heldur úti leiðsögn um svæðið. Halldór Hafdal Halldórsson tekur mér fagnandi. Það er ævintýri líkast að koma á þetta svæði. Refir skottast um í nágrenni við húsið, alls óhræddir við mannfólkið. Þeir eru enda alfriðaðir. Að kveldi dags er ljúft aðp kom a sér fyrir í koju á efri hæðinni í herbergi sem kennt er við rússneska borg í anda Óla komma, sem var seinasti vitavörðurinn á Hornbjargsvita. Ég sofna fljótt. Í draumum mínum birtist draugur á baki ísbjarnar.