Ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við veturinn.
Mörg þekkjum við vetrarblúsinn sem á það til að læðast að okkur á veturna. Hér eru nokkur ráð sem gera okkur betur í stakk búin til að takast á við hann, án þess að missa vitið!
Kveiktu ljósið um leið og vekjaraklukkan hringir. Að græja sig fyrir vinnudaginn í myrkri gerir þig bara þreyttari og myglulegri.
Klæddu þig vel og taktu þér smágöngutúr í hádeginu. Það kemur ekkert í staðinn fyrir sólarljós, nýttu það litla sem gefst! Fríska loftið gerir einnig kraftaverk.
Planaðu vinahitting strax eftir vinnu. Þér er enginn greiði gerður með að fara beint á Facebook eða að horfa á sjónvarpið uppi í sófa í fósturstellingunni. Hittu vini eða fjölskyldu allavega einu sinni í viku og virkjaðu hláturvöðvana.
Taktu D-vítamíntöflur, þær hafa góð áhrif á skapið. Á haustin og veturna fáum við ekki nóg af D-vítamíni frá sólinni og þurfum smáhjálp.
Skreyttu heimilið með fallegum púðum, nýju rúmteppi eða kertum. Splæstu jafnvel í bjartan lit á vegginn. Þegar það er grátt úti verður að vera bjart og upplífgandi inni!
Afskorin blóm lífga upp á heimilið – og skapið í leiðinni.
Farðu út að leika! Sleðaferðir, skíðaferðir eða aðrar fjölskylduferðir úti gera kraftaverk fyrir sálina.
Drekktu grænt te – það er hollt og getur hjálpað við að ráða bót á depurð sem oft fylgir vetrinum.
Við eigum það til að borða meira af ávöxtum á sumrin, enda úrvalið í hámarki. Haltu áfram að borða ávexti þegar hausta fer, ávextir eru náttúrlegt þunglyndislyf.
Farðu snemma að sofa og fáðu góðan nætursvefn.
Vertu meðvituð/meðvitaður um líðan þína og minntu sjálfa/n þig á að vetrarblúsinn er bara tímabundinn – að vera meðvituð skiptir miklu máli fyrir okkur. Gerðu þér grein fyrir tilfinningum þínum, ekki dæma þær eða reyna að fela þær. Reyndu að sjá allar jákvæðu hliðarnar á vetrinum!
Texti /Helga Kristjáns