Neytandi vikunnar að þessu sinni er Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Hún bar sigur úr býtum í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í sínu kjördæmi og mun leiða listann í kosningum til Alþingis í haust. Guðrún er rúmlega fimmtug og starfar í fjölskyldufyrirtækinu Kjörís í Hveragerði. Samtals eiga hún og sambýlismaður hennar Hans Kristján Einarsson Hagerup gullsmiður sex börn. Þau eru þó oftast þrjú í heimili en yngsti fjölskyldumeðlimurinn stundar mikið íþróttir og borðar þar af leiðandi mikið. Guðrún segir að það fjölgi hratt við eldhúsborðið þegar öll börnin og tengdabörnin þeirra mæta. Þá eru þau alls 13.
Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði oghvar verslar hún helst?
„Við verslum helst í Bónus í Hveragerði enda eina verslunin hér í bænum. Við eyðum um 130 – 150 þúsund á mánuði í mat og rekstrarvörur heimilisins.“
Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi?
„Mesti sparnaðurinn hjá okkur felst í að passa upp á það að kaupa ekki mat fyrir ruslatunnuna. Við þolum ekki að henda mat. Það hefur fækkað aðeins í heimilishaldi og þá vill það henda að brauðið myglar og mjólkin súrnar því maður hefur verið að kaupa inn af gömlum vana.“
Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er ?
„Ég hef alltaf lagt fyrir. Ég er ein af þeim sem sakna skyldusparnaðar unglinga því þegar ég keypti mína fyrstu íbúð átti ég fyrir útborgun í formi skyldusparnaðar. Ég legg alltaf fyrir hluta launa, er með sparnaðarreikning sem millifærist inn á um hver mánaðarmót. Þessi reikningur er hugsaður til að mæta óvæntum útgjöldum eða stórum framkvæmdum á heimilinu.“
Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?
„Ég bjó í Þýskalandi um 5 ára skeið og þar lærði maður fljótt þýska sparsemi og að gera verðsamanburð. Þjóðverjar vita upp á hár hvar er hagstæðast að versla á hverjum tíma og þeir kaup þá mjólkina á einum stað og kjötið á einhverjum öðrum og svo er gengið á milli búða því annars fer sparnaður í óþarfa bensínkostnað. Svo er ég einnig alin upp af sparsamri móður og það situr í genamenginu. Mér finnst mjög gaman af því að spara og spá í sparnað.“
Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?
„Það fer allt eftir aðstæðum hvers og eins. Ég er alin upp við það að sá sem er skuldar er ekki frjáls maður en auðvitað höfum við flest hver þurft að efna til skulda um ævina og þá sérstaklega í kringum húsnæðiskaup og er ég þar engin undantekning. Þegar ég tók húsbréf á sínum tíma á húsið mitt voru afföllin um 20 prósent sem þýddi að af hverri milljón sem fékkst að láni fékk maður aðeins 800.000 inn á reikninginn sinn en skuldin var eftir sem áður milljón. Á þeim tíma átti maður ekkert val og tók ég verðtryggð lán á húsið mitt. Ef ég væri að gera þetta í dag hugsa ég að ég myndi taka óverðtryggt lán en þá verður maður að vera í þeirri stöðu að geta þolað sveiflurnar.“
Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?
„Umhverfisvernd skiptir mig mjög miklu máli. Þegar ég bjó í Þýskalandi fyrir 20 árum lærði ég að flokka allt mitt sorp og hef gert það allar götur síðan. Í Hveragerði er allt sorp flokkað og svo hefur verið um árabil. Ég er til að mynda með 12 ruslatunnur heima hjá mér. Almennt sorp, sem ég get ekki flokkað. Lífrænt sorp. Plast. Járn. Pappír. Rafhlöður. Gler. Lyf. Ljósaperur og þrýstibrúsar. Fatnaður til endurvinnslu. Fatnaður framhaldslíf og kerti ég safna þeim og gef í kertavinnslu. Þegar maður býr í litlu samfélagi eins og Hveragerði er að þá er auðvelt að minnka kolefnissporið og ganga eða hjóla í sínum erindagjörðum.“
Hvaða mál og málaflokkar telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?
„Ég hef talað fyrir því í minni kosningabaráttu að taka upp eitt samræmt flokkunarkerfi sorps á Íslandi. Það yrði frábært og ég get þá hætt að flytja rusl á milli landshluta því á mörgum stöðum er það hreinlega ekki flokkað.“
Mannlíf hefur boðið fólki úr öllum flokkum að taka þátt í Neytanda vikunnar, kosningaútgáfu og vonast er til þess að sem flestir taki þátt.