Nemendur í Hagaskóla fá áfallahjálp eftir að nemandi við skólann lést í nótt. Skólastjóri sendi tölvupóst á foreldra til að upplýsa um málið og þau viðbrögð sem skólinn hefur gripið til.
„Sú þungbæra fregn barst til okkar í morgun að nemandi í 9. bekk hefði látist í nótt. Nemendum skólans var sagt frá þessu rétt í þessu. Sálfræðingur, prestur og hjúkrunarfræðingur auk alls starfsfólks eru hérna til staðar í skólanum fyrir nemendur og aðstandendur þeirra,“ skrifar Hildur Einarsdóttir skólastjóri og vottar aðstandendum nemandans samúð sína.
„Hugur okkar er hjá aðstandendum nemandans og allra þeirra sem eiga um sárt að binda“.