„Í ljósi aðstæðna er breyting á dagskrá morgundagsins hér í Hagaskóla. Nemendur mæta í heimastofu til umsjónarkennara klukkan níu eins og áætlað var en í stað karnivalgöngunnar verður samvera í og við skólann. Við viljum leggja áherslu á að hlúa að börnunum og gefa þeim tækifæri til að vera saman á stundu sem þessari. Unnið er að því að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að ræða við börnin“.
Svo segir í tölvupósti sem barst frá Hildi Einardóttur, skólastjóra Hagaskóla, til foreldra barna við skólann fyrir skömmu en nemendum og foreldrum var tilkynnt í morgun að nemandi í níunda bekk skólans hefði látist síðastliðna nótt.
Hún segir að kennarar muni funda í dag til að fullmóta dagskránna en hugmyndin sé einnig að fara í stutta útivist og eiga notalega stund saman sem lýkur með grilli í hádeginu.
„Hikið ekki við að hafa samband ef þið viljið fá einstaklingsaðstoð fyrir barnið ykkar,“ skrifar Hildur til foreldra.
Nemendasýning á söngleik sem átti að vera í kvöld hefur verið felld niður. Ákveðið hefur verið, í samráði við félagsmiðstöðina Frosta, að hafa skólann opinn fyrir nemendur og aðstandendur þeirra í kvöld frá kl. 19:30-22:00.
„Öllum var mjög brugðið við þeim sorgartíðindunum sem nemendum og starfsfólki barst í morgun og eðlilegt að alls konar tilfinningar brjótist fram. Það er mikilvægt að halda vel utan um börnin og leita aðstoðar ef með þarf.“ segir Hildur í póstinum.