Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-8.2 C
Reykjavik

Faðir í þrjú ár á flótta frá Palestínu: „Hvenær fáum við að koma til Íslands? EINKAVIÐTAL“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Iyad Alkafarna er þrítugur og er frá Gaza í Palestínu. Hann á þrjú ung börn og konu sem enn eru föst þar. Hann átti blómlegt fyrirtæki sem hafði verið í eigu fjölskyldunnar um áraraðir en það hvarf í sprengingu árið 2014 vegna átaka Ísrael og Palestínu. Iyad er alinn upp í stríði og vill ekkert heitar en að börn hans þurfi ekki að alast upp þannig. Árið 2018 lagði hann af stað í ferðalag helvítis sem endaði á Íslandi 2020. Iyad er nú á götunni á Íslandi eftir að hafa verið borinn út af Útlendingastofnun og Reykjavíkurborg fyrir það að neita að gangast undir Covid – próf sem er  það er það eina sem stendur á milli Iyads og brottflutningi til Grikklands. Mannlíf hitti Iyad og spurði hann út í hans sögu hans og leitaði jafnframt svara við spurningum sem margir Íslendingar spyrja ítrekað þegar hælisleitendur og flóttamenn ber á góma.

Iyad Alkafarna

 

Iyad hefur beðið hér á landi í eitt ár sem hælisleitandi eftir úrskurði um það hvort hann hljóti hér efnislega meðferð á máli sínu og í kjölfarið vernd. Nú er svo komið að vísa á honum til Grikklands. Iyad á konu og þrjú ung börn úti í Palestínu sem ætlunin var að bjarga þaðan og koma í skjól og veita þeim öruggt líf. Eftir þriggja ára fjarveru frá fjölskyldu sinni og mikilli þrautagöngu til þess að bjarga fjölskyldu sinni hefur Útlendingastofnun og Reykjavíkurborg borið hann út á götu og svipt hann vasapeningum.

Börnin hans Iyads, Dima, Lamaa og Adham

Vonbrigðin, vonleysið og hræðslan sem hann upplifir eftir allt sem á undan er gengið fæst ekki með orðum lýst. Iyad samþykkti að veita Mannlíf viðtal og svara spurningum sem oft koma upp í okkar samfélagi í tengslum við flóttafólk og hælisleitendur. Hann sagði þó að sumu gæti hann ekki svarað og þegar blaðamaður spurði hvað það væri og hvers vegna, sagði hann það vera of hræðilegt og að hann gæti hreinlega ekki komið orðum að því.

 

Fólk spyr alltaf hvers vegna eru það bara karlmenn sem koma hingað? Hvers vegna skilja þeir konur sínar og börn eftir ? Það er ekki óeðlilegt að sá sem þekkir ekki til né hefur skilning á aðstæðum flóttafólks spyrji svona, þvert á móti. Því verður þetta útskýrt út frá stöðu Iyad og þessum spurningum og vonandi fleirum svarað í eitt skipti fyrir öll.

- Auglýsing -

Hvers vegna fórstu frá Gaza?

Ástandið þar er og hefur verið hræðilegt. Þar á enginn eðlilegt líf. Við erum innilokuð, einangrunin er alger. Það hefur auðvitað geisað þar stríð  alla mína ævi og þar að auki eru líka átök innan svæðisins til dæmis á milli Hamas og annarra hópa. Í átökum á milli Hamas og eins hópsins slasaðist ég þegar ég var staddur fyrir utan heimili mitt hjá mótorhjóli sem ég átti. Ég var bara að koma heim til mín þegar skot hæfði bensíntank hjólsins með þeim afleiðingum að hann sprakk og ég brenndist illa á fótum og höndum. Svona atvik þykja bara eðlileg á þessu svæði sem þau eru auðvitað alls ekki. Ég á þrjú ung börn og eiginkonu og ég get ekki boðið þeim upp á öryggi í neinum skilningi, á Gaza. Börn eiga ekki beint góða framtíð þarna þó svo að þau láti ekki lífið í stríðinu sem geisað hefur með reglilegu millibili í 74 ár“.

 

- Auglýsing -
Hér má sjá ör á fótum Iyads eftir að skotið var á bansíntank mótorhjólsins hans, sem sprakk í kjölfarið
Hendur Iyads eru eins og fæturnir, ásamt því að brot efti sprenginguna sitja föst undir húð hans

 

Við hvað vannstu á Gaza ?

Fjölskyldufyrirtækið okkar, byggingafyrirtæki og allt sem því fylgdi, var sprengt í loft upp  árið 2014 en þá braust út stríð. Ég hef ekki haft neina örugga vinnu síðan þá. Ég vann á þungavinnuvélum, vörubílum og almenna byggingarvinnu. Við sáum líka um að steypa hellur og fleira til húsabygginga, þetta var hrikalegur missir. Hvernig náðir þú að safna pening til þess að komast burt ? Það tók mörg ár, fjölskyldan hjálpaði mér líka eins og þau gátu svo á endanum tókst að safna nægri upphæð.

 

Er atvinnuástand almennt erfitt á svæðinu?

Já, það er bara enga vinnu að hafa og yfirleitt er þeirri litlu vinnu sem býðst, útdeilt eftir frændsemi og klíkuskap. Ég reyndi og reyndi, það vill enginn vera án vinnu og eiga ekki möguleika á að sjá fyrir sér og sínum, það er sár staða að vera í.

 

Hvers vegna tókstu ekki börnin og konuna með þér í þetta ferðalag?

Það eru tvær ástæður fyrir því. Það er stórhættulegt og það vissum við fyrirfram og það hefur komið í ljós að þetta er bæði mun hættulegra og erfiðara líkamlega en okkur óraði fyrir. Ég vildi ekki setja það dýrmætasta sem ég á í hættu svo einfalt er það og ég virkilega trúði því að ef ég myndi leggja þetta á mig og ná til siðmenntaðs ríkis, væri fjölskylda mín hólpin. Önnur ástæðan er sú að þú þarft að eiga gríðarlega fjármuni  til þess að borga fyrir fimm manns og þegar börn og kona eða konur eru með í för hækkar verð á öllu, smyglarar rukka hærra verð því þeir vita að við erum ekki í aðstöðu til þess að neita eða reyna að semja við þá. Það eru fáir sem taka börn og eiginkonur sínar með í þetta vítisferðalag. Ég þakkaði oft á dag fyrir það að börnin mín og kona væru ekki með mér, þetta eru ekki aðstæður fyrir neinn að vera í og hvað þá börn og konur. Ég mun aldrei sjá eftir því að hafa ekki getað tekið þau með. Við skulum bara segja það, að þrátt fyrir að ástandið á Gaza sé hræðilegt, gerast hlutir á ferðalagi sem þessu er valda því að enginn verður samur maður eftir þá reynslu.

Búðirnar sem Iyad bjó í
Þarna er ekkert rennandi vatn
Íkveikjur eru mjög algengar
ÞArna er búið að brenna niður heila þyrpingu af tjöldum
Aðstæðurnar eru hreint út sagt hræðilegar
Fólk býr allt þröngt í tjöldum og sefur á jörðinni
Það er engin þjónusta til staðar fyrir fólkið

 

 Þú ert múslimi. Margir halda því fram að allir múslimar hljóti að vera hryðjuverkamenn, líti niður á konur, beiti þær og börnin ofbeldi og séu með trúarofstæki að vopni. Hvað vilt þú segja við fólk sem horfir svona á þig og þína fjölskyldu?

allir fordómar gera mig leiðan

Þetta hryggir mig fyrst og fremst, allir fordómar gera mig leiðan. Ég held samt að það sé lítið sem ég get sagt til þess að breyta hugarfari einstaklinga sem hugsa svona. Það má þó nefna það að fréttaflutningur hefur verið mjög einhliða og litaður fordómum og ef til vill er það að hafa áhrif á hugsanagang fólks. Það er alls staðar til gott og vont í þessum heimi en múslimar eru ekki allir vondir eða illir, það gildir það sama um þá eins og alla aðra og allt annað í þessum heimi. Ég vona bara að fólk leyfi sér að kynnast múslimum og sjá að við erum flest mjög venjulegt fólk og höfum margt að gefa.

 

 Hvernig sérðu þig og fjölskyldu þína aðlagast íslensku samfélagi ?

Við hjónin sjáum það í hillingum en við þráum ekkert heitar en að setjast að hér og aðlagast íslensku samfélagi. Við erum eins og hverjir aðrir foreldrar, við viljum veita börnunum okkar öryggi og framtíð en það hafa þau hvorugt á Gaza, því miður. Íslendingar sem ég hef kynnst er indælt fólk og ekki frábrugðið okkur í raun og veru. Auðvitað komum við úr allt annarri menningu en það þýðir alls ekki það að við getum ekki aðlagast ólíkri menningu. Ísland er fallegt og friðsælt land sem okkur langar að kalla okkar heimaland meira en nokkuð annað. Blaðamaður spyr hvers vegna Ísland fremur en Belgía, Þýskaland eða annað land og Iyad segir að það sé kostur að Ísland sé lítið land og ekki sé mikið um glæpi og þess háttar og það sé fullkomið til þess að ala upp börn og eiga friðsælt líf.

 

Hvenær og hvernig fórst þú frá Gaza? 

Ég fór fyrst frá Gaza 30. maí  2018 til Egyptalands síðan til Tyrklands og var kominn til Grikklands í desember 2019. Ferðalagið tók alls 19 mánuði og kostaði mig um 5.000 dollara eða um 605.000 krónur, einungis ferðirnar og það sem ég þurfti að borga smyglara til þess að koma mér frá Tyrklandi til Grikklands. Þeirri ferð gleymi ég aldrei svo lengi sem ég lifi og ég man hvað ég þakkaði fyrir það að börnin mín og kona væru ekki með mér í þessum hræðilegu aðstæðum. Á þessu ferðalagi drukknar fólk og börn í stórum stíl og það eru þessar aðstæður sem sitja mjög oft í okkur sem höfum farið þessa leið af illri nauðsyn. Iyad treystir sér á þessum tímapunkti ekki til þess að gefa nánari útlistingar á þessu ferðalagi og er morgunljóst að hann hefur séð eitthvað og upplifað sem tekur mjög á hann.

 

Landamærin á milli Palestínu og Egyptalands

 

Að komast frá Gaza

Ferlið til þess að komast frá Gaza er allt annað en auðvelt. Þar opna landamærin aðeins einstaka sinnum og þá þarf fólk að borga fúlgur fjár til þess að komast út. Landamærin voru opin þegar Iyad yfirgaf Gaza en það kostaði hann samt sem áður 2200 dollara eða rúm 266.000 krónur  að komast með rútu frá Gaza sem fer beint á flugvöllin í Cairo. Það er um 12 klukkustunda ferðalag og engum er hleypt út fyrr en á flugvellinum og verður fólkið frá Palestínu að yfirgefa Egyptaland strax. Hefði Iyad tekið alla fjölskylduna með sér þá hefði það kostað 7500 dollara eða um 908.000 krónur, bara ferðin frá Gaza og út á flugvöllinn í Cairo. Þá á eftir að reikna með útgáfu ferðaáritunar fyrir alla fjölskylduna, flugmiða til Tyrklands og síðan greiða smyglara fyrir það að stofna lífi þeirra í hættu. Hér erum við að tala um himinháa upphæð, mikla hættu og hræðilegar aðstæður og þá sérstaklega þegar komið er í flóttamannabúðir í Grikklandi, ástandið þar er skelfilegt. Blaðamaður spyr hér hve oft landamærin opni og hvort það sé smyglari sem sjái um að koma fólkinu yfir landamærin. Það er engin regla með landamærin, einu sinni til tvisvar á ári. Nei, það er ekki smyglari heldur aðili sem sér um að safna fólki saman sem hefur óskað eftir því og deginum áður borgum við hvert fyrir sig en þetta er mútufé sem fer til egypsku landamæralögreglunnar.

 

 Tyrkland

Það tók Iyad fimm mánuði að ná að flýja frá Tyrklandi til Grikklands en tyrkneska lögreglan náði honum hvað eftir annað en hann var að reyna að fara sjóleiðina sem tókst á endanum. Iyad segir að fólk sem reyni að fara fótgangandi til Grikklands lendi í flasinu á grísku lögreglunni og þar eru allir látnir fara út fötunum og allar eigur þeirra teknar af þeim, gildir einu hvort það eru börn eða konur allir fá sömu meðferð og konurnar sæta oft einnig ofbeldi af hálfu grísku lögreglunnar. Þarna spyr blaðamaður hvort karlmenn verði ekki einnig fyrir ofbeldi og Iyad svarar jú auðvitað það er bara svo eðlilegt að mér datt ekki í hug að taka það fram. Fólk þarf svo að snúa við þessa löngu leið nakið eða á nærbuxunum, aftur til Tyrklands þar sem lögreglan þar lætur fólkið fá föt. Þessa leið verða allir þeir sem, eiga ekki peninga til þess að greiða smyglurum að reyna að fara en það tekst mjög sjaldan.

Þetta myndband tók Iyad á flótta milli Tyrklands og Grikklands. Smyglarar hrúga fólki í allt of litla báta, fullorðnir og börn láta lífið í stórum stíl á þessari leið.

 

Gríska lögreglan er þekkt fyrir ofbeldi gegn flóttafólki
Hér má sjá flóttafólk sem gríska lögreglan er búin að taka allt frá, fötin, mat, síma og allt annað sem hugsast getur.
Barsmíðar eftir grísku lögregluna

 

Grikkland

Iyad kom eins og áður sagði til Griklands 2. desember 2018 en þar dvaldi hann í 19 mánuði á eyjunni Chios í flóttamannabúðum við hræðilegar aðstæður. Það var meðal annars margsinnis ráðist að honum og eitt sinn var það hópur heimamanna sem réðist að honum þegar hann reyndi að fara niður í bæinn á eyjunni með þeim afleiðingum meðal annars, að eyra hans rifnaði. Það ríkir mikið hatur  og miklir fordómar á Grikklandi gegn flóttafólki og það á ekki bara við um almenning heldur yfirvöld líka, það fékk ég marg oft að reyna. Við eigum að fá hina og þessa þjónustu á pappírum en það fær hana enginn. Heilbrigðisþjónusta, húsnæði, túlkaþjónusta, félagsleg aðstoð, hvað er það ? Það er ekkert í boði og það er raunveruleikinn og sannleikurinn. Ef það væri hægt að vera í Grikklandi við mannsæmandi aðstæður og það væri hægt að fá smá þjónustu og vinnu væri flóttafólk ekki að flýja þaðan ístórum stíl og það ætti hver manneskja að sjá að það er eitthvað verulega bogið við þetta allt saman. Það stenst ekkert af því sem er ritað á pappír það er bara blekking ekki sannleikurinn.

Það kom oft fyrir að kveikt var í tjöldum og fólk dó

Blaðamaður spyr hvort hjálparsamtök séu ekki á svæðinu og Iyad svarar nei, aldeilis ekki, sá ekkert slíkt allan tímann meðan ég var þarna og þetta er líka umtalað vandamál meðal flóttafólks. Hjálpasamtök láta sig líta vel út á samfélagsmiðlum svo almenningur styrki starfsemina en það skilar sér sjaldnast til flóttafólksins. Blaðamaður spyr þá hvernig sé með salernispappír, sápu, vatn og annað slíkt, hvort það sé ekki útvegað í það minnsta. Iyad skellihlær og hristir höfuðið, nei það er ekkert svoleiðis ekki einu sinni fyrir fjölskyldufólk. Það kom oft fyrir að kveikt var í tjöldum og fólk dó, einnig börn ástandið er hræðilegt, algerlega hræðilegt.

Sauma þurfti eyrnasnepil Iyads saman eftir að grikkir réðust á hann

 

Heimamenn eru alls ekki vinveittir í garð flóttamanna
Í þessum eldsvoða lét lítil stúlka lífið

Ísland

Iyad kom til Íslands í júní 2020 og var því búinn að bíða hér í eitt ár áður en hann var borinn út af Útlendingastofnun í byrjun mánaðar en Mannlíf var á staðnum og náði af því upptökum þegar UTL kom og vísaði honum út sjá hér.

 

Allir sem komu til landsins um leið og hann hafa fengið jákvæð svör um efnislega meðferð mála þeirra og var honum einnig sagt að hann yrði með í þeim hóp og hann því ekki spurður út frá aðstæðum í Grikklandi, heldur heimalandi hans, Palestínu. Iyad mætir svo á fund sem átti að snúast um það að hann segði frá aðstæðum á Gaza en þá hafði orðið viðsúningur án hans vitneskju og hann einungis spurður út í aðstæður hans á Grikklandi. Þetta var mikið áfall fyrir Iyad og fjölskyldu hans því hann var látinn halda það að hann fengi efnislega meðferð á sínu máli eins og allir aðrir í sama hóp sem kom á sama tíma og hann til landsins. Það kom svo í ljós að einhverra hluta vegna, sem ekki voru einu sinni skýrðir út fyrir honum hafði hann einn verið færður í hóp sem kom seinna til landsins þar sem allir fengu neitun. Mannlíf vinnur að því að leita skýringa á þessu óréttlæti og þessum viðsnúningi og ástæðum þess að manninum var ekki skýrt frá þessu og útskýrt hvers vegna hann einn hafi verið tekinn út úr hópnum. Iyad var hársbreidd frá því að geta komið börnunum sínum þremur og eiginkonu í skjól og að geta boðið þeim mannsæmandi líf.

 

Mannlíf fékk að tala við Doaa sem er 28 ára eiginkona Iyad, með hjálp túlks og spurði hana meðal annars hvernig það væri að vera ein með þrjú lítil börn á Gaza í því ástandi sem ríkt hefur þar og vera bara að bíða eftir að koma börnunum í skjól og betri framtíð og jafnframt hvernig það væri að vera án eiginmanns síns í þrjú ár.

Hún gat ekki svarað, hún brast í grát og blaðamaður með henni. Þetta var átakanlegt hún þurfti ekki að svara með orðum.

Systurnar Dima og Lamaa
Þetta er hann Adham litli

Börn Iyads og Doaa heita Dima 7 ára, Lamaa 6 ára og Adham 4 ára en hann var aðeins átta mánaða þegar faðir hans fór af stað að leita betra lífs fyrir þau. Dima hefur verið að læra íslensku með hjálp Youtube en fjölskyldan hélt að það yrði að veruleika að þau fengju að sameinast hér á Íslandi því búið var að segja það við Iyad eins og áður sagði en svo kom þessi furðulegi viðsnúningur hjá Útlendingastofnun. Börnin eru forvitin að sjá blaðamann og Dima talar íslensku sem er mjög vel gert hjá henni. Börnin byrja svo að spyrja föður sinn á arabísku:  Hvenær fáum við að koma til Íslands? Þá verður að enda viðtalið.

 

Börnin sendu pabba sínum þetta myndband. Þau segja: Hæ pabbi, vonum að þú sért í góðum aðstæðum, við söknum þín mjög mikið og við elskum þig mjög mikið, bless…….

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -