Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Veirusmit við samfarir getur valdið leghálskrabbameini

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Staðreyndin er sú að meirihluti þeirra sem fara í leghálsspeglun finna aðeins lítil eða jafnvel engin óþægindi. Það heyrir til undantekninga að konur finni verulegan sársauka. Jafnvel í þeim tilvikum þá tekur sýnatakan það stuttan tíma, aðeins nokkur augnablik, að það tekur því ekki að deyfa,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, kvensjúkdómalæknir og fyrrverandi yfirlæknir og sviðsstjóri á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands.

„Deyfing lengir skoðunina og henni fylgja einnig óþægindi svo þegar upp er staðið þá hefur það lítið upp á sig. Konur sem upplifa mikinn sársauka við sýnatökuna geta alltaf óskað eftir deyfingu síðar ef gera þarf nýja sýnatöku. Í leghálsspegluninni er leghálsinn fyrst skoðaður vandlega með smásjá; speglunin. Að því loknu eru tekin pínulítil sýni af leghálsinum, venjulega tvö til fimm sýni, með þar til gerðri töng. Það er því ekki skorið í leghálsinn heldur eru sýnin klippt með þessari töng,“ segir Ágúst Ingi.

80 prósent smitast

HPV-veirusmit er mjög algengt og er talið að um 80 prósent fólks sem stundar kynlíf smitist af HPV-veirunni sem breiðist út við kynmök eða nána snertingu húðar á kynfærasvæði. HPV-stofnar eru margir og er talið að undirtegundir séu rúmlega 100. Tæplega 30 tegundir veirunnar geta valdið frumubreytingum í kynfærum kvenna en um 15 þeirra tengjast leghálskrabbameini en aðrar geta valdið vörtum á kynfærum. Tveir stofnar veirunnar valda um 70-75% allra leghálskrabbameina auk þess sem um 13 sjaldgæfari stofnar veirunnar geta valdið leghálskrabbameini. Það er því mikilvægt að mæta reglulega í leghálsskoðun þótt viðkomandi hafi verið bólusett. Síðustu ár hefur stúlkum verið boðið upp á bólusetningu gegn hættulegustu stofnum HPV-veirunnar en þrátt fyrir það er nauðsynlegt að mæta reglulega í leghálsskoðun. 

Það þarf einn smitaðan rekkjunaut til að smitast af HPV-veiru en aukin áhætta við að fá viðvarandi HPV-smit og síðar leghálskrabbamein tengist meðal annars fjölda rekkjunauta og ef smokkur er ekki notaður. Nefna má fleiri þætti sem geta haft áhrif á viðvarandi HPV-smit svo sem aðrar sýkingar og reykingar en til dæmis nikótín finnst í leghálssýni kvenna sem reykja.

Frumubreytingar í leghálsi vegna HPV-smits eru einkennalausar en þær geta þróast yfir í leghálskrabbamein en einkenni geta þá verið blæðingar úr leggöngum eftir samfarir, óeðlileg útferð úr leggöngum og verkir í kynfærum. Konur ættu að mæta reglulega í leghálsskoðun en þá er frumustrok tekið úr leghálsi og sett í rannsókn. Um er að ræða einfalda en mikilvæga rannsókn sem gerð er hjá kvensjúkdómalæknum, á heilsugæslustöðvum og hjá heimilislæknum. 

7-800 íslenskar konur árlega

- Auglýsing -

Frumubreytingar, eða forstigsbreytingar, finnast árlega hjá um 7-800 íslenskra kvenna sem farið hafa í leghálsskoðun. Óeðlilegt frumustrok getur verið allt frá mjög vægum eða óljósum breytingum í afgerandi frumubreytingar. Langflestar fara í nýtt strok eftir sex mánuði en þær sem eru með mjög afgerandi vísbendingar um frumubreytingar fara beint í leghálsspeglun. Af þeim sem koma aftur eftir sex mánuði fara svo einhverjar í leghálsspeglun einnig vegna niðurstöðu úr seinna strokinu. 

Konur fá ekki deyfingu áður en þær fara í leghálsspeglun og finna sumar til þegar sýni eru klippt úr leghálsinum eftir speglunina sjálfa. 

Keiluskurður

- Auglýsing -

Frumubreytingarnar ganga oftast til baka en ef um slæmar frumubreytingar er að ræða er ráðlagður keiluskurður. Hér á landi hafa síðustu fimm ár verið gerðir tæplega 300 keiluskurðir á ári að meðaltali.

Í keiluskurði er aldrei allur leghálsinn tekinn heldur aðeins ysti hluti hans, aðeins um 5 mm að þykkt. Ágúst segir að flest krabbamein séu það lítil og stutt gengin að einfaldur keiluskurður dugi til lækningar.

Hér á landi greinast að meðaltali 15-20 konur árlega með leghálskrabbamein og í sumum tilfellum eru þetta konur sem hafa ekki mætt reglulega í leghálsskoðun. Niðurstöður rannsóknar hér á landi hafa þó leitt í ljós að ferill sjúkdómsins á meðal yngri kvenna virðist stundum vera svo hraður að krabbamein á byrjunarstigi geta greinst með frumustroki áður en þrjú ár eru liðin frá síðasta eðlilega frumustroki. Það að mæta reglulega í leghálsskoðun ætti í flestum tilfellum að koma í veg fyrir að frumubreytingar eða forstigsbreytingar verði að krabbameini þar sem þá er gripið í taumana. Skimun er ekki 100 prósent vörn gegn leghálskrabbameini. Með því að mæta í skimun reglulega minnka líkurnar á krabbameini um 90% en það kemur ekki fullkomlega í veg fyrir það og stundum eru frumubreytingar til staðar þó það sjáist ekki í stroki.

Skimun skapar öryggi

„Það er afar sjaldgæft og heyrir til algerra undantekninga að krabbamein geti myndast á innan við þremur árum eftir að næsta sýni á undan hefur reynst eðlilegt,“ segir Ágúst Ingi.

„Miklar frumubreytingar eru ekki krabbamein og jafnvel þó þær hafi myndast á þremur árum frá áður eðlilegu stroki þá er konunni ekki hætta búin svo lengi sem hún mætir reglulega. Þá finnast breytingarnar í tæka tíð og konan fær viðeigandi meðhöndlun. Það að stytta tímann milli skoðana enn frekar hefur verið sýnt fram á að auka ekki árangur af skimuninni. Með því er átt við að það tekst ekki að koma í veg fyrir fleiri tilfelli eða bjarga fleiri konum, því miður. Þriggja ára bil milli skoðana byggðist á gamla kerfinu þar sem skoðaðar voru frumur frá leghálsinum.

10 ár frá smiti í krabbamein

Með nýja kerfinu er skimað fyrir HPV-veirum sem geta valdið frumubreytingum. Tíminn sem líður frá HPV-smiti og þangað til krabbamein myndast er um það bil 10 ár. Þannig að ef kona er HPV-neikvæð í skimun þá eru nánast engar líkur á að hún geti hafa fengið krabbamein á fimm árum, helmingi styttri tíma en talið er að þurfi til að krabbamein myndist. Jafnvel fyrir konu sem fengi HPV-smit daginn eftir sýnatökuna þá væru líkurnar nánast engar á því að hún gæti verið komin með krabbamein eftir fimm ár. Það sem leikmönnum finnst oft erfiðast að skilja er að skimunin byggist á að lækka nýgengi og dánartíðni í stóru þýði, heilli þjóð, og verklagið byggist á tölfræði og líkum. Það er aldrei gengið út frá því að öllum sé hægt að bjarga enda er það ómögulegt. Þess vegna koma óhjákvæmilega upp sorgleg tilvik um ungar konur sem fá krabbamein þrátt fyrir að hafa jafnvel mætt reglulega í skimun.“

Það að greinast með frumubreytingar, krabbamein og fara jafnvel í keiluskurð veldur andlegu álagi.

„Það er deginum ljósara að það getur haft mikil áhrif og valdið kvíða og ótta að fá þær niðurstöður að kona sé með frumubreytingar. Mín reynsla er sú að rétt fræðsla og upplýsingar dregur verulega úr ótta og kvíða.“

Alveg óskiljanlegt

Ágúst Ingi segir að skoðun sín sé sú að konur eigi ekki að geta mætt þegar þeim sýnist til að láta taka hjá sér leghálsstrok – ef um einkennalausa skimun er að ræða. 

„Kerfisbundin skimun er flókin og krefst mjög mikils utanumhalds. Það að mæta oftar í skimun en ákveðið er eykur ekki árangur skimunarinnar en eykur aftur á móti kostnaðinn. Það verður að hafa í huga að almenningur – í þessu tilfelli konur – greiða aðeins hluta af kostnaðinum við skimunina en stjórnvöld greiða meirihlutann. Þess vegna er mikilvægt að tryggja að peningunum sé sem best varið og það þarf að vera öruggt að skimunin sé að gera gagn. Til þess að hægt sé að fylgjast með gagnsemi skimunarinnar er nauðsynlegt að hún fylgi ákveðnu kerfi og sé í föstum skorðum. Ef svo er ekki þá getur enginn með vissu haldið því fram að það sé gagn af henni en ekki bara sóun á fjármunum. Út frá þessum forsendum verð ég að taka undir mikilvægi þess að konur fylgi skimunarleiðbeiningunum og mæti þegar þeim er boðið en ekki oftar. Með þessu er ég alls ekki að taka afstöðu til einstakra tilvika. En það geta alltaf verið undantekningar sem krefjast þess að skimað sé fyrr en ella og það verður að skoða hvert tilvik fyrir sig. Það er mjög mikilvægt að treysta dómgreind lækna í þessu atriði.“

 

Mikil óánægja hefur verið undanfarin misseri eftir að farið var að senda leghálssýni í skimun til Danmerkur eftir að Krabbameinsfélagið hætti að sjá um þennan þátt heilbrigðisþjónustunnar. Niðurstöðu er lengur að bíða en áður og fyllast margar konur ótta.

„Mín skoðun er sú að málum sé í dag verr fyrir komið en það var meðan Krabbameinsfélag Íslands sá um leghálsskimunina,“ segir Ágúst Ingi. „Ég efast ekki um hæfni dönsku rannsóknastofunnar en íslenska heilbrigðiskerfið er að minnsta kosti jafn hæft til að framkvæma þessar rannsóknir og þess vegna tel ég það vera mikil mistök að senda sýnin úr landi. Það getur haft alvarleg áhrif á íslenska rannsóknastarfsemi að senda svona mikinn fjölda sýna úr landi til rannsóknar. Það er í raun alveg óskiljanlegt að sú ákvörðun hafi verið tekin að flytja sýnin úr landi, þvert á ráðleggingar allra umsagnaraðila að einum einstaklingi undanskildum. Þar á ég við skimunarráð, landlækni, meirihluta fagráðs um leghálsskimanir, verkefnisstjórn sem ráðherra skipaði sjálfur, KÍ að sjálfsögðu, fagfélög fæðinga- og kvensjúkdómalækna og rannsóknalækna, læknaráð Landspítala og yfirlækna rannsóknadeilda Landspítala. Varðandi þær miklu tafir og í raun þann ólestur sem nú ríkir varðandi það að upplýsa konur og sýnatökuaðila um niðurstöðurnar þá tel ég að það sé að hluta til um tímabundið ástand að ræða. Að hluta til er um að ræða tæknilega flókna yfirfærslu á tölvukerfum og gagnagrunnum sem ekki hefur gengið sem skyldi. Ég tel að þetta muni komast í lag. Á hinn bóginn tekur það óhjákvæmilega mun lengri tíma að fá niðurstöður þegar senda þarf sýnin úr landi. Landspítali sá um HPV-mælingar fyrir LKÍ um tveggja ára skeið og veitti framúrskarandi þjónustu og mjög skjóta. LKÍ hafði áður sent sýni erlendis til rannsóknar og það tók venjulega um þrjár vikur að fá niðurstöður. Það tók Landspítala aðeins örfáa daga að skila sömu niðurstöðum. Varðandi yfirfærslu á tölvukerfum þá hefði þurft að hafa mun lengri aðdraganda og undirbúningstíma fyrir það. Ákjósanlegra hefði verið að færa verkefnið yfir á nýja aðila í þrepum án þess að loka LKÍ samtímis. Ákvörðun um þetta var hins vegar tekin í heilbrigðisráðuneytinu en ekki af Krabbameinsfélaginu.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -