Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir gekk að eiga unnusta sinn Harald Loga fyrir tæpum tveimur árum en brúðkaup þeirra hjóna fór fram í kastala á Ítalíu.
Drífa segir upplifunina hafa verið einstaka og í stað þess að vera sópað út úr veislusal hafi veislan staðið fram eftir morgni meðal þeirra nánustu. „Vinkona mín gifti sig á Ítalíu og eftir veisluna þeirra fundum við strax að svona vildum við hafa brúðkaupið okkar. Eftir að hafa leitað að rétta kastalanum flugum við út þar sem eigandinn tók á móti okkur og heillaði upp úr skónum. Eftir að hafa skoðað híbýlin vel og vandlega nutum við kvöldverðar með eigandanum sem fór yfir teikningar af húsinu þar sem við röðuðum fólkinu okkar niður í herbergi.
Brúðkaupsdagurinn sjálfur var svo ævintýri líkastur en eftir athöfnina fórum við beint í myndatöku en eigandi hússins hafði valið fallega staði í nágrenninu þar sem teknar voru æðislegar myndir.“
„Við fengum auðvitað fullt af ræðum og leikjum eins og brúðkaupa er vani en upplifunin þarna í garðinum var gerólík því sem þekkist í veislusölum þar sem ókunnugir þjónar bíða eftir að veislunni ljúki svo hægt sé að þrífa og komast heim. Þarna voru allir að njóta sín í fríi og enginn að stressa sig.”
Drífa segir marga hafa komið að máli við sig hvað kostnað varðar við veislu sem þessa en hún segir hann ekki meiri en við hefðbundið brúðkaup hér á landi. „Í sannleika sagt kostar svona brúðkaup nákvæmlega það sama, ef ekki minna en að gifta sig í sal heima. Nema í þeim tilfellum líður dagurinn fljótt og einkennist í flestum tilfellum af miklu stressi. Að mínu mati er mikilvægt að hugsa dæmið til enda og eyða ekki um efni fram með þessari hefðbundnu leið þegar möguleikarnir eru mun fleiri.
Flestir hafa hugsað um brúðkaupsdaginn sinn lengi, jafnvel alla ævi og þá er sorglegt að setja peningana sína í eitthvað sem er búið á augabragði, eða þegar salurinn lokar og allir eru reknir út. Þarna áttum við ótal daga af algjöru ævintýri og gæti ekki hugsað mér að gera þetta neitt öðruvísi.”
Viðtalið í heild má lesa í brúðkaupsblaði Vikunnar.
Mynd / Aldís Pálsdóttir.
Förðun / Björg Alfreðsdóttir.