Söngleikurinn Moulin Rouge verður frumsýndur í Hörpu annað kvöld.
Greta Salome Stefánsdóttir fer með aðalhlutverk sýningarinnar en hún er einnig framkvæmdarstýra viðburðarins sem einnig verður settur upp í Hofi á Akureyri. „Ég elskaði myndina þegar hún kom út á sínum tíma og þetta er bara svo kjörin tónleikasýning. Lögin bjóða upp á svo risastór söng og dansatriði og það er óhætt að segja að við séum að ganga mjög langt í því.
„Æfingarferlið hefur verið einstaklega skemmtilegt, sérstaklega hjá dönsurunum. Þetta er risastórt verkefni með um hundrað manns og því flækjustigið hátt en möguleiki á mikilli gæsahúð.
En þessi hópur er bara svo frábær og allir svo tilbúnir að ganga langt í að gera þetta sem flottast og það á algjörlega eftir að skila sér í sýningunni. Það er mjög góður mórall í hópnum og mikil eftirvænting.”
Greta segir sýninguna fyrst og fremst einblína á söng og dans en þó bregði fyrir leiknum senum inn á milli. „Við erum að fara hálfgerða millileið sem er mjög skemmtileg. Fólk fær söguna algjörlega í æð en um leið risastór tónlistaratriði. Við erum að taka lögin úr myndinni og færa þau í lifandi búning með hljómsveit, tíu söngvurum, sjö bakröddum, sjötíu manna kór og tólf dönsurum þannig að það er óhætt að segja að gjörsamlega allt sé lagt á borðið.”
Viðtalið í heild má lesa í nýjasta blaði Vikunnar.
Mynd / Hafsteinn Snær Þorsteinsson.