Margir voru úti að skemmta sér á höfuðborgarsvæðinu um helgina og talsverður óróleiki í fólki og vilji til uppgjöra. Þetta var nótt slagsmálahunda og drukkinna ökumanna. Líkamsárásir voru nokkuð tíðar í Reykjavík í nótt. Einn var handtekinn í miðborginni, grunaður um slíkt athæfi og hann læstur inni í fangaklefa. Um svipað leyti var þjófur að láta greipar sópa í verslun. Hann slapp undan lögreglu.
Önnur líkamsárás átti sér stað fyrir utan skemmtistað í miðbænum. Einn var handtekinn, grunaður í málinu ,og hann vistaður í fangaklefa rétt eins og hinn árásarmaðurinn. Í Kópavogi brutust út slagsmál fyrir utan fjölbýlishús. Lögreglan skakkaði leikinni.
Margir voru undir áhrifum á ferðinni á bílum sínum, væntanlega til að spara sér leigubílakostnað. Lögreglan gómaði marga þeirra. Umferðaróhapp varð í hverfi 108. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar, lagði á flótta og stakk af frá vettvangi án þess að gera upp málin. Hann komst ekki langt því eldsnöggir lögreglumenn elti hann uppi og stöðvuðu. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Hann var vistaður í fangaklefa þar sem hann hvílir þar til rennur af honum og hægt verður að taka af honum skýrslu.
Þá var réttindalaus síbrotaökumaður gripinn í miðborginni, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Fjöldi annarra tilvika um akstur undir annarlegum áhrifum átti sér stað.