Sveitarfélögin hafa lagt stund á það að nota vatnsveitur í þeirra eigu til þess að búa sér til hagnað sem er svo greiddur út sem arðgreiðslur. Það gera þau með því að ofrukka neytendur um vatnsgjald sem er ólöglegt. Nú liggur fyrir úrskurður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þess efnis, að óheimilt er að taka hærra gjald en nákvæmlega það sem kostar að veita þjónustuna. Mannlíf hafði samband við Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og lagði fram spurningar um málið. Fyrir svörum var Þórmundur Jónatansson upplýsingafulltrúi ráðuneytisins.
„Í úrskurðinum var á hinn bóginn tilgreint að ráðuneytið hefði ekki heimild að lögum til að kveða á um endurgreiðslu ofgreidds vatnsgjalds og verður því að höfða einkamál fyrir dómstólum vegna þeirra.“
Neytendasamtökin hafa barist ötullega í þessu máli og kallað eftir svörum og aðgerðum í þágu neytanda. Eins og fram kemur í frétt um málið á vef samtakanna, undir yfirskriftinni Skuldar Orkuveita Reykjavíkur – vatns- og fráveita sf. notendum milljarða?, er alls ekki verið að tala um smáaura sem sveitarfélögin eru búin er að hafa af neytendum með ólögmætum hætti.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Mannlíf leitaði svara hjá Samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu við því hvort það myndi beita sér í því að skikka sveitarfélögin til þess að greiða neytendum þær fjárhæðir til baka sem búið væri að ofrukka þá um með ólögmæltum hætti. Þórmundur Jónatansson, upplýsingafulltrúi segir meðal annars að ráðuneytið hafi ekki lagalegar heimildir til þess að beita sér í því að sveitarfélögin endurgreiði neytendum og verði hver og einn einstaklingur að höfða mál til þess að freista þess að fá endurgreitt. Þá segir hann einnig að upplýsingar sveitarfélaganna vegna verðskrár séu ekki fullnægjandi og ennfremur að ráðuneytið hafi gefið út leiðbeiningar þann 7. maí þar sem það hafi kallað eftir ítarlegri útskýringum og hafa sveitarfélögin frest til 30. júní til að bregðast við. Litið er svo á að málinu sé ekki lokið. Spurningar Mannlífs og svör upplýsingafulltrúa ráðuneytisins má sjá hér að neðan.
Fyrir utan að gefa út leiðbeiningar, hyggst ráðuneytið beita sér varðandi það að neytendur fái endurgreiddar þær fjárhæðir sem þeir hafa greitt umfram það sem lög gera ráð fyrir, og þá eins langt aftur í tímann og hægt er?
„Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úrskurðaði í mars 2019, í kæru einstaklings vegna vatnsgjalds Orkuveitu Reykjavíkur, að álagning veitufyrirtækisins á vatnsgjaldi ársins 2016 væri ólögmæt. Í rökstuðningi sínum taldi ráðuneytið ljóst að samkvæmt 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga væri með öllu óheimilt í gjaldskrá að ákveða hærra gjald en nemur meðalkostnaði af því að veita þjónustuna. Samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 10. gr. skuli vatnsgjaldi, ásamt öðrum tekjum vatnsveitu, aðeins ætlað að standa undir rekstri vatnsveitunnar. Niðurstaða ráðuneytisins var því skýr um að óheimilt væri að taka arð af starfsemi vatnsveitu. Í úrskurðinum var á hinn bóginn tilgreint að ráðuneytið hefði ekki heimild að lögum til að kveða á um endurgreiðslu ofgreidds vatnsgjalds og verður því að höfða einkamál fyrir dómstólum vegna þeirra.“
„Niðurstaða ráðuneytisins var því skýr um að óheimilt væri að taka arð af starfsemi vatnsveitu.“
Hefur ekkert eftirlit verið viðhaft sem gæti komið í veg fyrir að svona atvik eigi sér stað? Ef ekki er fyrirhugað að herða á eftirliti með starfsemi sem þessari í nánustu framtíð?
„Eftir að úrskurður lá fyrir vorið 2019 ákvað ráðuneytið að hefja þegar í stað frumkvæðisathugun og taka til skoðunar gjaldskrár allra sveitarfélaga um vatnsveitur. Frumkvæðisathugun af þessu tagi var sett af stað á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins skv. 112. gr. sveitarstjórnarlaga (nr. 138/2011). Vegna málsins kallaði ráðuneytið eftir samantekt frá öllum sveitarfélögum um þau atriði og gögn er varða vatnsgjöld vatnsveitna í þeirra eigu (skv. 10. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004). Þau svör bárust og voru yfirfarin af ráðuneytinu. Í leiðbeiningum sem ráðuneytið gaf út 7. maí sl. kemur fram að ráðuneytið telji samantektir sveitarfélaga og vatnsveitna í þeirra eigu almennt ekki veita fullnægjandi skýringar eða upplýsingar um útreikninga á kostnaðarliðum sem ákvarðanir um álagningu vatnsgjalda byggði á.
Ekki var hægt að ráða af þeim gögnum sem bárust ráðuneytinu hvaða kostnaðarliði sveitarfélög og vatnsveitur í þeirra eigu legðu almennt til grundvallar við útreikninga vatnsgjalds, eins og þeim beri að gera á grundvelli sjónarmiða sem gilda um þjónustugjöld af þessu tagi. Af því tilefni taldi ráðuneytið rétt að gefa út leiðbeiningar um þau atriði sem vatnsveitur eiga að hafa til hliðsjónar við ákvörðun slíks gjalds. Ráðuneytið fylgdi leiðbeiningum sínum eftir með því að senda öllum sveitarfélögum bréf í maí sl. þar sem óskað er eftir að þau og vatnsveitur í þeirra eigu yfirfari gjaldskrár sínar í samræmi við leiðbeiningarnar. Hafa sveitarfélögin frest til 30. júní nk. til að upplýsa ráðuneytið um þá vinnu.
Ráðuneytið mun í framhaldi af því meta hvort tilefni verður til að fjalla formlega um gjaldskrár einstakra sveitarfélaga eða vatnsveitna á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga, en slíkum málum getur m.a. lokið með fyrirmælum ráðuneytisins um að sveitarfélag komi málum í lögmætt horf, sbr. 3. tl. 2. mgr. ákvæðisins. Ráðuneytið lítur því svo á að málinu sé ekki lokið. Þá er ráðuneytið ekki með til skoðunar að breyta umræddu fyrirkomulagi á eftirliti með stjórnsýslu sveitarfélaga.“
„Ekki var hægt að ráða af þeim gögnum sem bárust ráðuneytinu hvaða kostnaðarliði sveitarfélög og vatnsveitur í þeirra eigu legðu almennt til grundvallar við útreikninga vatnsgjalds“
Verður málið skoðað nánar og kafað dýpra ofan í þær milljarða arðgreiðslur sem þessir aðilar hafa verið að veita sjálfum sér á kostnað neytenda?
„Nefna má að í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga (nr. 332/2004) er ekki gert ráð fyrir sértæku eftirliti með gjaldskrá vatnsveitna. Slíkt fyrirkomulag er ekki algengt í framkvæmd, en á við í einstaka tilvikum, til dæmis hefur Orkustofnun slíku hlutverki að gegna vegna gjalda sem varða dreifingu raforku, á grundvelli raforkulaga, nr. 65/2003.
Í ljósi þess að ekki er kveðið á um sérstakan eftirlitsaðila í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Ráðuneytið hefur nokkrum sinnum fjallað um lögmæti tiltekinna gjalda hjá vatnsveitum sveitarfélaga í úrskurðum sínum, sem og önnur gjöld sveitarfélaga sem ekki eru kæranleg til annarra stjórnvalda. Hjá ráðuneytinu liggja nú fyrir nokkrar stjórnsýslukærur um ýmis gjöld sveitarfélaga, en ráðuneytið er ekki með til skoðunar að taka formlega til umfjöllunar aðrar gjaldskrár en gjaldskrár vatnsveitna á grundvelli 112. gr. sveitarstjórnarlaga.“
Mannlíf mun halda áfram að fylgjast með þróun mála.