Fimmtudagur 24. október, 2024
4.3 C
Reykjavik

Þrír lögreglumenn mættu í frosti og niðamyrkri: „Þetta er svo mikið stofnanaofbeldi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við hjónin tókum þá ákvörðun að rækta hamp með tilskyldum leyfum og vildum sýna almenningi að ræktun af þessu tagi væri möguleg hér á norðurhveli,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði matvæla og landbúnaðar. Samhliða sjálfstæðum verkefnum á sviði ráðgjafar gegnir hún starfi framkvæmdarstjóra Samtaka smáframleiðenda matvæla og rekur, í samvinnu við eiginmann sinn, býlið Gautavík í Berufirði en þar opnar fyrsta fræðslumiðstöð um ræktun og nytjar á iðnaðarhampi þann 1. júlí næstkomandi.

Að baki standa þau Oddný og Pálmi Einarsson, eiginmaður Oddnýjar, og iðnhönnuður en um er að ræða ákveðna byltingu í landbúnaðarmálum sem þau hjón hafa ötullega unnið að undanfarin ár.

„Það er hægt að rækta hamp hér á landi og hefur verið gert áður. Fyrstu landnámsmennirnir fluttu þannig hampfræ til landsins með sér og plantan var um langt skeið leyfileg, en þegar kannabis til reykinga var bannað var iðnaðarhampurinn bannfærður um leið, þó hampurinn hafi verið ræktaður sem frumhráefni í árþúsundir. Samkvæmt kínverskri goðsögn færðu guðirnir þannig mannfólkinu eina jurt að gjöf sem átti að fullnægja öllum þörfum þess. Þessi jurt sem goðsagan hermir á um er iðnaðarhampur.“

Hampurinn gleymdist

Oddný segir að þegar bannárin skullu á með fullum þunga í málefnum iðnaðarhamps hafi framleiðsla færst yfir í hráefnanýtingu óumhverfisvænni efna. Hampurinn hafi að mestu gleymst í áranna rás en alltaf hafi þó einhverjir haldið umhverfisvænu notagildi hamsins á lofti. „Það var alltaf einhver sem sagði þar að hampurinn gæti hjálpað okkur í baráttunni við umhverfisvána,“ segir Oddný jafnframt.

Berufjörður varð fyrir valinu, en þau Oddný og Pálmi fluttust frá höfuðborgarsvæðinu fyrir þremur árum síðan. „Við vorum að leita að einhverju nær höfuðborginni en þegar maðurinn minn benti mér á þessa og bað mig að gefa jörðinni séns þó hún væri svona langt í burtu þá fann ég að þetta væri rétti tíminn fyrir okkur að taka þetta skref og að þetta væri jörðin sem við höfðum beðið eftir. Að þetta myndi henta okkur best, hefði allt sem þurfti.“

- Auglýsing -

Úr borg í sveit fluttist því fjölskyldan og segir Oddný breytinguna kærkomna.

„Okkur hafði lengi langað að yfirgefa þéttbýlið, við áttum bústað til margra ára og eyddum þar jólum, páskum og oftlega um helgar. Þar leið okkur alltaf best og fannst alltaf jafn ömurlegt að þurfa að aka heim til borgarinnar á sunnudagskvöldum. Við höfðum lengi rætt þann möguleika að flytjast í sveit okkar á milli en sjálf var ég á Bifröst í háskólanámi og þótti nærveran við náttúruna alveg æðisleg. Maðurinn minn hafði dvalið sumarlangt í sveit sem barn og ílengdist þar eftir þriðja sumarið. Hann flutti ekki aftur til borgarinnar fyrr en á fullorðinsárum.“

Þá segir Oddný umskiptin hafa verið auðveld, kærkomin og tímabær.

- Auglýsing -

„Þetta hefur verið æðislegt allt frá fyrsta degi. Ég var ótrúlega ánægð þegar ég komst úr borginni, burtu frá mengun og stressi og umferðarnið. Ég fann mikinn mun á heilsu og líðan við flutningana en sá lífsstíll sem við lifum í dag er mun streituminni, þó verkefnin séu ansi mörg hér í náttúrunni. Það er brjálað að gera hjá okkur alla daga en með tilkomu fjarfunda og samskipta yfir netið, samfélagsmiðla og því að geta sinnt öllum störfum samhliða því að reka bæinn, það er yndislegt. Að ekki sé minnst á þetta góða samfélag, en hér ríkir samheldni og sátt“.

Ástríða fyrir hampi

Hvað fær þá viðskiptafræðing í félagi við iðnhönnuð til að reisa hérlent fræðslusetur um iðnaðarhamp?

„Við hjónin höfum lengi haft mikinn áhuga á og mikla ástríðu fyrir hampi og þeim möguleikum sem hann gefur. Við höfum barist fyrir breytingum á regluverki talsvert lengi, hófum tilraunaræktun árið 2019 en þá var regluverkið ekki með öllu skýrt. Þá stóð til að mynda hvergi að þetta mætti ekki og maðurinn minn hafði áður fengið undanþágu og leyfi til að rækta hamp hérlendis ásamt öðrum, sumarið 2013. Tilraunaræktunin sú fór reyndar ekki hátt á sínum tíma og engar athugasemdir bárust. En þegar við réðumst til atlögu aftur árið 2019 og byrjuðum að segja frá verkefni okkar í fjölmiðlum með það að markmiði að vekja athygli á hampræktun og fjölbreytilegu notagildi plöntunnar höfðum við vitundarvakningarverkefni í huga.

Tilraunin árið 2019 var ekki sú að viðskiptalegs eðlis heldur gerð að opna augu Íslendinga fyrir notagildi hampsins og þetta gerðum við til að vekja athygli á hagnýtu gildi hampsins.“

Sjálf jörðin að Gautavík telur 860 hektara en ekki allt svæðið er ræktanlegt.

„Við ræktum hamp á einum hektara nú í sumar,“ svarar Oddný. „Þetta er áfram tilraunaverkefni og við viljum prófa ólíkar aðstæður, hvaða yrki henti best til ræktunar og hvað okkur hentar sem ræktendum.“ Oddný situr einnig í stjórn Hampfélagsins og segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum megi reikna með að 150 hektarar iðnaðarhamps verði ræktaðir nú í sumar hér á landi. „Það kom ágætis reynsla á ræktun iðnaðarhamps í fyrra en þá var fyrst gerð breyting á reglugerð sem heimilaði innflutning.“

„Þegar við fórum af stað var ekkert sem bannaði ræktun af þessu tagi og það eina sem vantaði var fordæmi. Við fengum leyfi frá Matvælastofnun en sóttum ekki sérstaklega um undanþágu til Lyfjastofnunar, okkur var einfaldlega ekki sagt að slíkt þyrfti. Í framhaldinu komum við svo fram í fjölmiðlum og greindum ítarlega frá verkefninu og í heila sex mánuði gekk verkefnið athugasemdalaust áfram.“

Meðal þeirra ráðamanna sem heimsóttu ræktunarbúgarð þeirra hjóna voru ráðherrar og þingmenn ásamt því sem Oddný og félagar hennar í stjórn Hampfélagsins höfðu setið fundi með ráðuneytum.

„Við fengum meðal annars styrk frá Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytinu til að kaupa tæki til að afhýða hampinn. Allt í einu ákveður þá Lyfjastofnun að túlka lögin þannig að ræktun af þessu tagi sé ekki heimil og að við hefðum þurft að sækja um undanþágu. Í framhaldinu er lögreglunni svo sigað á okkur en Lyfjastofnun sendi erindi til lögreglu þar sem þau sögðu grun leika á því að við stæðum að ræktun ólöglegra jurta. Þeir töldu þannig iðnaðarhamp falla undir lög um ávana- og fíkniefni einungis vegna þess að orðið cannabis er að finna í lögum um ávana- og fíkniefni en iðnaðarhampur er af sömu plöntutegund.“

Svo fór að þrír lögreglumenn mættu fyrirvaralaust að bænum Gautavík í myrkri og frosti í nóvember á síðasta ári og óskuðu aðgengis að iðnaðarhampinum.

„Maðurinn minn var sá sem tók á móti lögreglunni og bauð þeim bara inn, sýndi þeim leyfi og leiddi þá um allt. Tollurinn var búinn að stimpla sendinguna þar sem við framvísuðum leyfi frá Matvælastofnun. Lögreglan tók sýni úr jurtunum sem reyndust innihalda 0.0 prósent af THC. Ekki einu sinni snefilmagn mældist hjá okkur en lögreglan hafði verið send á grundvelli laga um ávana- og fíkniefni. Þeir urðu undrandi sjálfir því þeir sáu að við vorum með tilkskilin leyfi, lögreglumennirnir.“

Þau hjónin urðu að vonum fyrir vonbrigðum. „Við ætluðum okkur alltaf að ryðja veginn og ef eitthvað myndi gerast þá myndum við vinna að því að regluverki yrði breytt. En á þessum tímapunkti og á þessum stað, þetta þótti okkur allt frekar undarleg atvikaröð og stóðum bara gapandi hissa eftir alla atburðarásina og störðum á hvort annað.“

Oddný er ómyrk í máli þegar talið berst að afskiptum Lyfjastofnunar.

„Þetta er svo mikið stofnanaofbeldi,“ segir hún hugsi. „Og samræmist ekki meðalhófsreglunni á nokkurn máta. Við vorum ekkert að pukrast með neitt; það hefði gagnast Lyfjastofnun jafn vel að hringja í okkur eða senda erindi, kalla okkur á fund eða leiðbeina okkur um framhaldið. En að senda lögregluna til okkar rétt eins og við værum glæpamenn þótti okkur einkennilegt.“

Atvikið hlaut umfjöllun fjölmiðla og segir Oddný þá opinberu umfjöllun hafa stutt við bæði málstað þeirra og allra sem eru hlynntir hampræktun á Íslandi. „Þetta hjálpaði áhugasömum um hampinn að vekja enn meiri athygli á þágildandi regluverki. Ég fór strax með málið í fjölmiðla sem fjölluðu um málið. Hampfélagið, Bændasamtökin og Samtök iðnaðarins voru komin í málið með okkur og ég, sem var þá nýbúin að funda með iðnaðarráðherra, hafði strax samband við landbúnaðarráðherra. Öllum fannst okkur atvikaröðin fáránleg og vorum á einu og sama máli; þessu yrði að finna út úr strax.“

Saksóknari á Austurlandi felldi málið gegn þeim Oddnýju og Pálma að lokum niður þar sem enginn grundvöllur var fyrir sakfellingu, þar sem ekkert brot hafði verið framið. „Við vorum bara grunlausir borgarar með tilskilin leyfi, höfðum fordæmi í höndum og höfðum hlotið styrk frá ráðuneyti. En auðvitað urðum við engu að síður að fara í skýrslutöku. Um hríð ætluðum við að kvarta til Umboðsmanns Alþingis en þegar lengra var haldið féllum við frá þeirri hugmynd þar sem málið hlaut gífurlega mikla athygli og markmiði okkar, sem var aukin vitundarvakning, hafði verið náð“.

Vitundarvakning

Aðspurð hvort hún telji að vitundarvakning sú sem hér er rætt um, hafi hjálpað öðrum segir Oddný það ekkert vafamál vera.

„Já, það teljum við. Lögregluna bar hér að garði um hávetur og engin ræktun á sér stað á þeim árstíma hérlendis. Fólk bara beið þess að leyst yrði úr þessu svo hægt yrði að rækta hér á landi. Svo kom vorið að nýju og þá hafði kapphlaupið við reglugerðarbreytingu staðið yfir allan veturinn“.

Í framhaldi ákváðu þau hjón að opna fræðslu- og menntasetur fyrir ræktun á iðnaðarhampi. Kemur sú ákvörðun í framhaldi af þessum atburðum?

„Það sem gerist er að fólk byrjar að streyma til okkar. Fólk sem vildi sjá, skoða og snerta. Við byrjuðum á því setja upp borð hér í Gautavík í afmörkuðu rými, sem við settum hamp og nytjahluti úr hampi, þar sem fólk gat komið, séð og skoðað. Við hjónin fengum svo styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands til að innrétta haughús undir inniræktun, framleiðslu og pökkun á iðnaðarhampi. Á það svæði erum við búin að færa þetta og ákváðum við í framhaldi að gera þetta formlega og gera þetta bara almennilega. Við erum búin að auglýsa opnun fræðsluseturs og nú, frá 1. júlí, getur fólk komi og fengið leiðsögn gegn vægu gjaldi“.

Hugmyndin að fræðslusetri byggir á komu gesta á tilteknum tíma dags en þá leggja þau hjónin af stað í kynningar- og fræðsluferðir með gesti og gangandi um ræktunarsvæðið sjálft.

„Við erum að rækta fleiri jurtir hér líka, kartöflur með sérstakri aðferð og erum með kúluhús líka. En þegar skoðunarferð úti er lokið færum við okkur inn í sjálft fræðslusetrið og þar má sjá inniræktun á hampi. Svo bjóðum við gestum að líta í smásjá þar sem hægt er að skoða sjálfan hampinn í smásjá. Þannig er hægt að skoða og greina kannabíóðana sem gera okkur heilbrigðari.“

Í Gautavík má líka sjá og skoða fjölbreyttan varning úr hampi sem Oddný og Pálmi hafa flutt inn; fatnað og vörur úr hampi og fleiri vöruflokkar munu bætast við. „Við erum líka með samrækt, eða aquaponics, svo í Gautavík er líka fræðslusetur um samrækt. Hér erum við með 900 lítra fiskabúr með silungi en í samræktun fær hampurinn eingöngu næringu frá úrgangi fiska. Hér er risið fræðslusetur um hamp og samrækt undir sama þaki.“ Samrækt mætti gjarna tengja við vatnsrækt en Oddný segir þó ekki um sömu ræktunaraðferð að ræða. „Vatnsrækt felur í sér vökva með auðleystum áburðarsöltum; það er kemískum, tilbúnum áburði. Samrækt snýst nýtingu lífrænnar næringar frá fiskum og samnýtingin er fólgin í því að fiskurinn nærir plönturnar.“

Markaðurinn að myndast

Uppskeran í Gautavík verður fjölbreytt í haust en Oddný og Pálmi nota blómin og laufin í ljúffengt hampte, hampsalt og hampkrem. Ætli slík starfsemi rísi hér á landi og gæti hinn almenni borgari farið út í slíka nytjaræktun í atvinnuskyni á næstu misserum? Oddný efast ekki um það og telur nokkuð ljóst er að framtíðin blasi við áhugasömum um hampræktun. „Markaðurinn er að myndast,“ segir hún að endingu. „Fólk er að byrja ræktun og framleiðslu á ólíkum vörum á hampi, þessari stórkostlegu plöntu.“

Áhugasamir um fræðslusetur í Gautavík geta kynnt sér starfsemina HÉR

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -