Hanna María Karlsdóttir, leikkona, er Fjallkona Íslands árið 2021 og gekk prúðbúin út um gætt Alþingis rétt í þessu, að ræðupalli á Austurvelli. Beint streymi frá hátíðarathöfn má fylgjast með á RÚV en í framsögn fréttaskýranda Ríkissjónvarpsins er saga fjallkonunnar rakin og kemur fram að fjallkonan hafi sem slík verið fyrst nefnd í kvæði eftir Bjarna Thorarensen, Eldgamla Ísafold, sem ort var á fyrsta tug nítjándu aldar.
Hugmyndin um konu sem tákn Íslands kom þó fram nokkru fyrr, eða í kvæði Eggerts Ólafssonar, Ofsjónir, frá árinu 1752. Hanna María sem ber skaut fjallkonunnar glæsilega, fór með fagurt ljóð í ræðupúlti og flutti friðsælt ávarp til íslensku þjóðarinnar eftir Anton Helga Jónsson, sem samið var sérstaklega fyrir þetta fallega tilefni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, gerði Covid faraldurinn og áhrif hans á íslenskt samfélag meðal annars að umræðuefni sínu í ræðupúlti á Austurvelli rétt í þessu og lagði áherslu á samstöðu, samvinnu og góðan vilja í innbyrðis samskiptum íslensku þjóðarinnar. „Undanfarnir fimmtán mánuðir hafa verið erfiðir, en þeir hafa líka verið lærdómsríkir,“ sagði forsætisráðherra meðal annars í ávarpi sínu. „Einmitt vegna þess að þeir hafa minnt okkur á að samfélag er ekki aðeins orð heldur okkar aðferð til að vera til ásamt öðrum. Við náum árangri þegar við stöndum saman og hver og einn leggur sitt af mörkum. Hver hefði trúað því að fimmtán mánuðum eftir að sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hófust, að þá yrðu þrír fjórðu sextán ára og eldri, komnir með fyrsta skammt bóluefnis? Þetta er ótrúleg saga, saga um sigur þekkingarleitar, verkvits og samstöðu,“ sagði forsætisráðherra jafnframt í ávarpi sínu til íslensku þjóðarinnar rétt í þessu.