Leikstjórinn snjalli, Baltasar Kormákur, fær hrikalega útreið hjá Jóni Viðari Jónssyni, einum gleggsta og beittasta gagnrýnanda þjóðarinnar. Viðfangsefnið er Katla, sjónvarpssería Baltasars, sem Jóni Viðari þykir mislukkuð frá upphafi til enda og skrifar: „Ef Baltasar væri nú bara að segja spennandi sögu með tilheyrandi eðlilegum og sjálfsögðum klisjum, en nei, onei, nú virðist Balti telja sig vera orðinn sálfræðileikstjóri, svona eins og Ingmar Bergman (kannski Bergman afturgenginn úr jökulsprungu?!“.
Baltasar er þekktur fyrir að vera sem viðkvæmt blóm og kjökrar gjarnan undan gagnrýni, sérstaklega Jóns Viðars. Og það gerist einnig að þessu sinni. Hann segir við Vísi að Jón Viðar hefði sóst eftir að taka þátt í að skrifa handrit að Kötlu. „Ég kom alveg af fjöllum að maðurinn vildi vinna fyrir mig, fyrst honum finnst ég svona lélegur ….“ segir Baltasar. Hugsanlega hefði Jón Viðar getað bætt afurð meistarans með því að leggja hönd á plóg og aðstoða við handritið …