Hópur í fjöruferð í Norðurfirði gengu á föstudag fram á orm, hrikalegan ásýndum. Það var Margrét Lára Arnfinnsdóttir sem sá orminn fyrst. Skepnan var með ljótan andlitssvip sem markaðist öðru fremur af vígtönnum. Eitt barnanna sem barði orminn augum sagðist ekki hafa þorað að snerta skepnuna.
„Ég var frekar hrædd,“ segir Þórunn María Hervarsdóttir, ein þeirra sem gengu fram á orminn. Einn úr hópnum tók að sér að bjarga skepnunni í sjóinn aftur. Notaði hann til þess sleif sem hann ýtti honum með úr fjörunni. Ormurinn hlykkjaðist til hafs.
Myndir voru teknar af fyrirbærinu sem talið var um 60 sentímetrar að lengd. Við skoðun þeirra kom á daginn að um var að ræða Risaskera sem kemur í fjörur til að hrygna. Hann er frekar sjaldséður. Á Vísindavef Háskóla Íslands og Morgunblaðið vitnaði til árið 2005 kemur fram að risaskeri telst til burstaorma. Hann getur orðið fáeinir tugir sentimetra að lengd. Burstaormar eru algengir sjávarhryggleysingjar og hafa meira en 6000 tegundir fundist. Þeir tilheyra fylkingu liðorma. Það sem greinir þá frá öðrum ormlaga dýrum er að líkami þeirra er liðskiptur. Einkennandi fyrir líkamsbyggingu burstaorma fyrir utan liðskiptan líkamann eru totur og áberandi burstar sem ormarnir draga nafn sitt af.