Á dögunum keypti tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens sér nýtt hús. Kaupin voru þó gerð með nokkuð óvenjulegum skilmálum, en Gunnar Kr. Gunnarsson fyrrum eigandi hússins, seldi Bubba það með þeim skilyrðum að hann fengi miða á alla tónleika Bubba það sem eftir er ævina. Auk þess fær hann einnig óskalag eða aukalag á öllum tónleikunum, eitthvað sem tónlistarmaðurinn lætur ekki eftir neinum öðrum.
„Þetta leiddi hvað af öðru við eldhúsborðið að ég yrði fastagestur á tónleikum hjá honum framvegis. Það var bara samþykkt strax. Og sonurinn, yngsti, hann Rúnar fer í sama pakka,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi.
Gunnar sem er 83 ára gamall Seltirningur, segist vera mikill aðdáandi Bubba og þá sérstaklega eftir að hann kynntist honum.
„Ákveðin tímabil hjá Bubba eru alveg toppurinn hjá mér. Mörg af hans lögum eru alveg óaðfinnanleg. Hann segir svo oft sögur í textunum sínum. Mér finnst hann þrælmerkileg persóna, sérstaklega eftir að ég kynntist honum.“
Gunnar og Bubbi kynntust fyrir um sex mánuðum síðan á fasteignamarkaðinum.
„Hann er miklu elskulegri en margur heldur og konan hans er alveg jafn elskuleg.“