„Amma mín yndisleg, sem ég heiti í höfuðið á, var myrt af fíkniefnaneytanda sem bankaði upp hjá henni og framdi þetta voðaverk,“ segir Sigurbjörg Gunnarsdóttir, safnaðarleiðtogi í Smárakirkju, sem hefur upplifað mörg áföll í lífinu en að missa ömmu sína á svo skelfilegan hátt segir hún hafa tekið mikið á sig.
„Þetta var hræðilegt mál og ég upplifði gríðarlegt áfall og fór í kjölfarið að fá martraðir á hverri nóttu og vaknaði upp í svitabaði. Ég vissi ekkert hver orsökin var en seinna lærði ég að þarna var um áfallastreituröskun að ræða”.
Venjulega eru andlit hulin við kistulagningu ef um áverka er að ræða en það var ekki gert í tilfelli ömmu Sigurbjargar, segir hún. „Það var augljóst að eitthvað hafði átt sér stað en hún var með sáraumbúðir og því augljóst að dauðdagi hennar var ofsafenginn og ofbeldisfullur. Upp frá því varð ég hrædd og óttaslegin yfir svo að segja öllu og hugsaði iðulega um hennar síðustu andartök. Þarna er ég 26 ára og ekki enn búin að leita mér hjálpar við að gera upp mín mál tengd æskunni“.
En Sigurbjörg þurfti að horfast í augu við banamann ömmu sinnar þegar hann kom á samkomu hjá henni og áður hafði hann komið á samkomu í Krossinum.
Sigurbjörg var í Helgarviðtali Mannlífs. Þar fer hún yfir hæðir og lægðir lífs síns, ræðir fyrirgefninguna, ásakanirnar á hendur föður síns, Gunnars í Krossinum, Jónínu Ben og veikindi barna sinna.