Listakonan Hulda Hákon og búningahönnuðurinn Dóra Einars eru afar óánægðar með ástandið í miðbæ Reykjavíkur og segjast fara til Hafnarfjarðar til að fá þjónustu.
„Foreldrar mínir og vinir þeirra er aldraðir. Ólust upp í miðbænum. Þekkja hvern krók og kima. Bjuggu þar, versluðu þar, skemmtu sér og nutu,“ segir Hulda og heldur áfram:
„Nú er borin von að ég geti farið með þau um miðbæ Reykjavíkur til þess að njóta þeirra gæða sem hann hefur uppá að bjóða. Nú fer ég með þau í miðbæ Hafnarfjarðar. Sorglegt. Þau ólust upp í miðbæ Reykjavíkur og eiga húseign sem þau komast ekki að. Engin bílastæði lengur.“
Hún segir að það „vantar leyfi fatlaðra að leggja á gangstétt og hjólreiðastíga – eins og til dæmis á Hverfisgötunni þar sem þau eiga húsnæði; þannig aðstæður finnast víða.“
Dóra Einars tekur í sama streng og segir:
„Ég elska höfuðborg okkar Íslendinga, Reykjavík. Fer þangað til hárgreiðslumeistara míns á Tryggvagötu á fimm vikna fresti; elska að fara í leikhúsin, Hörpuna, listasöfnin og galleríin.“ Hún segir að það að „trítla í kringum Tjörnina og garðana er í miklu uppáhaldi. Að kvöldi til fer maður á einn og einn veitingastað.“
Dóru finnst „dapurlegt frá því að segja að ef ég þarf að fara í innkaupaferð, ritfangaverslun, skósmið, teikniáhöld, fatnað og margt fleira þá keyri ég frá Seltjarnarnesinu til Hafnarfjarðar til að sækja þjónustu. Ég nenni ekki öllu kraðakinu nema ef erindið er nauðsynlegt í Reykjavík“ og endar á þessum orðum:
„Það er eitthvað að og við erum svo mörg á flótta frá miðbæ Reykjavikur.“