„Mamma og pabbi segja að ég hafi byrjað að labba á höndum þriggja ára og einhvern tíma hafi þau verið í útilegu og ég auðvitað að labba á höndum og taka handahlaup út um allt. Þá snarstoppaði einhver kona og vildi vita hver ætti þetta barn og hvort það væri ekki örugglega í fimleikum“, segir Helgi Laxdal Aðalgeirsson, 22 ára fimleikamaður úr Stjörnunni.
Hann braut blað í fimleikasögu Íslands á Íslandsmótinu í hópfimleikum á Akranesi í mánuðinum þegar hann framkvæmdi stökk á dýnu sem aldrei fyrr hefur verið framkvæmt á móti í hópfimleikum í heiminum fyrr. Í þriðju umferðinni stökk Helgi stökk samsett af heilli skrúfu, kraftstökki og tvöföldu heljarstökki með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu.
„Ég vissi að ég gæti gert þetta þótt það væru ekki allir sammála mér. Ég er súper ánægður”.
Ekki búsetuleyfi á Skaganum án þess að vera í boltanum
Eftir ummæli konunnar ónefndu í útilegunni ákváðu foreldrar Helga að taka hana á orðinu og skráðu hann í fimleika á Akranesi þar sem fjölskyldan var búsett. „Ég reyndist fitta bara svona vel að ég er búin að vera í þeim síðan. Ég var reyndar svo bullandi ofvirkur á þessum árum að ég hafði bara gott af hreyfingunni,“ segir Helgi og hlær. „Ég fór reyndar í fótboltann líka því maður fær varla búsetuleyfi Skaganum nema fara í boltann. En svo byrja ég að æfa með Stjörnunni árið 2013 og þá var þetta orðið það tímafrekt að ég þurfti að velja”.
Helgi tók strætó frá Akranesi fjóra daga vikunnar á æfingar auk þess sem reglulega voru haldnar landsliðsæfingar þeim til viðbótar. Hann segir að vissulega hafi það bitnað á félagslífinu. „Maður missti tengslin við vini og skólafélaga í grunnskóla og menntaskóla því um leið og skólinn var búinn, var farið beint í strætó á æfingu og var ekki kominn heim fyrr en á miðnætti”. Hann segist þó ekki mikið hafa fundið fyrir því þar sem félagslífið í kringum fimleikana hafi alltaf verið öflugt.
Stríðnin ýtti mér áfram
„Ég er með ógeðslega mikið keppnisskap, alveg frá því ég var barn. Lengi vel vorum við bara tveir strákarnir sem æfðum á Akranesi en þegar ég fer í Stjörnuna er fullt af strákum sem voru betri en ég og átti rosalega erfitt með að sætta mig við það svo ég æfði bara stanslaust þangað til ég varð betri. En við erum allir svo góðir vinir að við ýtum hver á annan á jákvæðan hátt”.
Fimleikar hafa löngum frekar verið tengdir við stúlkur en pilta. Helgi segist vissulega hafa aðeins fundið fyrir því og verið spurður að því hvort hann væri í þrönga spandexgallanum að æfa splitt. „En svo varð ég svo góður að enginn gat sagt neitt. Ég hef líka alltaf staðið vel félagslega og held að þessi smástríðni hafi frekar ýtt mér áfram en haldið aftur af mér”.
Allir að bugast í Covid
Fimleikasamband Íslands hefur staðið í stóru verkefni sem kallast Fimleikahringurinn. „Við erum búnir að vera geðveikt mikið að auglýsa stráka í fjölmiðlum og reyna að fá fleiri stráka inn. Það hefur gengið mjög vel”.
Helgi gefur lítið fyrir það aðspurður hvort hann hafi verið að gefast upp á einhverjum tímapunkti en segir að Covid tímabilið hafa verið eitthvað það versta sem hann hafi upplifað. „En það hjálpaði mér svo mikið að ég er að þjálfa fimleika og sá að iðkendur mínir, á öllum aldrei, voru bara að bugast. Reyndar voru allir iðkendur, í öllum íþróttagreinum, alveg að fá nóg. Það voru engar æfingar, engar keppnir og engin markmið”. Hann segir líka geta verið erfitt að halda áfram eftir stórmót þar sem hann hafi náð sínu besta. „Við strákarnir erum alltaf að keppa hvor við annan, sem heldur manni gangandi, en maður er líka alltaf að keppa við sjálfan sig. Þetta er auðvitað alveg galið!”
Aðspurður um hvað hann haldi lengi áfram að keppa segir Helgi elsta Íslendinginn sem keppt hafi á Norðurlandamóti hafa verið 33 ára svo það er ljóst að hann á nóg eftir. Sjálfur hefur hann keppt á þremur Evrópumeistaramótum og fjórum Norðurlandamótum og er stefnan tekið á næsta EM í desember. „Við stefnum hátt þar.”
Fimleikafólkið okkar hefur ekki fengið greitt fyrir íþróttaiðkunina og segir Helgi að mörgum vinum hans í fótboltanum finnist það hálfgalið. „Það hefur aldrei skipt mig máli, ég er að gera það em ég elska”.
Og þar með er Helgi rokinn. Það er æfing.
Stökkið magnaða má sjá hér: