Laugardagur 23. nóvember, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar: „Væri til í að sjá okkur á Íslandi leggja meiri áherslu á ferska matarmarkaði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar er Halldóra Mogensen 41 árs, þingflokksformaður Pírata sem leiðir nú listann fyrir komandi kosningar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Halldóra býr ásamt manninum sínum og tveimur börnum, sjö mánaða syni þeirra og 10 ára gamalli dóttur Halldóru úr fyrra sambandi. Halldóra hefur flakkað mikið um ævina en ólst upp í Bretlandi og Bandaríkjunum. Halldóra segist aldrei hafa fundið sig í skóla eftir að hún flutti heim til Íslands, þá í 10. bekk. Hún heltist úr námi 17 ára og fór að vinna. Halldóra hefur mestmegnis unnið við þjónustustörf um ævina, í verslunum, á veitingastöðum, börum og við ferðaþjónustu í nokkur ár áður en hún hóf störf sem þingmaður.í

 

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og

hvar verslar hún helst ?

„Við verslum helst í Krónunni þar sem finna má gott úrval af lífrænum mat og glútenlausum en við erum öll fjölskyldan með glúten óþol sem versnaði til muna eftir að við lentum í mygluveikindum. Við verslum líka í Melabúðinni en þar er hægt að finna allt sem vantar upp á eftir Krónuferðina, með ólíkindum hversu miklu er hægt að koma fyrir í svona litlu rými! Hversu miklu við eyðum í mat er mjög breytilegt eftir vinnu og aðstæðum hverju sinni “.

 

- Auglýsing -

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi ?

„Við höfum verið að temja okkur það að gera ein stórinnkaup á viku til þess að fækka snattferðunum sem eiga það til að verða dýrari en upphaflegt erindi áætlaði. Þá höfum viðeinnig verið að styðjast við matarplan fyrir kvöldmat vikunnar en það er ótrúlega erfitt að styðjast við það þegar vinnutíminn er jafn óreglulegur og ófyrirsjáanlegur og á þingi. Ég myndi helst vilja breyta því hversu lítið úrval er af lífrænum kjötvörum hér á landi.Það er ekki hægt að nálgast lífrænt, grasbítandi naut svo ég viti til og næst því sem ég hefkomið að finna lífrænan kjúkling er sýklalyfjalausi kjúklingurinn sem fæst í Melabúðinni. Mér finnst einnig vont hvað við notum mikið af erfðabreyttu fóðri í dýrahaldi. Ég hefði talið það vera heillavænlegt skref fyrir íslenskan landbúnað að færa okkur mun meira yfir í lífrænt enda höfum við alla burði til þess “.

 

- Auglýsing -

 Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er ?

„Já, í fyrsta skipti á mínum vinnuferli hef ég getað lagt fyrir undanfarin ár. Styðst bæði við séreignarsparnað og svo almennan reikning eins og er þar sem við erum að safna fyrir fyrstu íbúðarkaupunum “.

 

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og

þjónustu ?

„Matarkarfan hefur hækkað töluvert. Það vill svo til að maðurinn minn er einmitt í þessum skrifuðum orðum að taka saman kvittanir yfir matarinnkaup síðustu mánaða til að gera samanburð. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu “.

 

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán ?

„Ég er ekki með nein lán enda hef ég aldrei keypt mér neitt af viti. Keypti minn fyrsta bíl þegar ég komst inn á þing árið 2016 og á hann enn. Nú erum við að skoða það að kaupa okkar fyrstu íbúð og þá skiptir máli að velja rétt. Mín upplifun af þessu öllu saman er að það er allt of mikil áhætta sem felst í því að tryggja öruggt skjól fyrir fjölskylduna. Þetta er ein af grunnþörfum okkar og alveg galið að þessari stærstu og mikilvægustu fjárfestingu fylgi svona mikil áhætta fyrir lántakendur á meðan að bankinn fær að tryggja í bak og fyrir að hann græði alltaf, eins og spilavítin “.

 

 Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli ?

„Já, umhverfisvernd skiptir mig miklu máli og geri ég mitt besta sem neytandi að haga mér í samræmi við mikilvægi málaflokksins en mér finnst skipta máli að við gerum kröfu til fyrirtækja og þá sérstaklega stórfyrirtækja að gjörbylta framleiðsluferlum og öðrum rekstri og að við gerum kröfu til stjórnmálafólks að setja það í forgang að endurhugsa hagkerfið okkar og hvatana þar til að tryggja áframhaldandi lífvænleika plánetunnar fyrir komandi kynslóðir. Þunginn á loftslags- og umhverfisaðgerðum á ekki að hvíla á herðum neytenda enda er það lítill hluti mannkyns sem býr við þann efnahagslega sveigjanleika sem er nauðsynlegur til að hafa tök á því að haga neyslu sinni á sem umhverfisvænstan hátt “.

Annað sem þú vilt taka fram ?

„Ég væri til í að sjá okkur á Íslandi leggja meiri áherslu á ferska matarmarkaði. Vörur beint frá býli, ferskur fiskmarkaður við höfnina, grænmetismarkaður, aukin áhersla á fjölbreytileika og sérstöðu matvara frá mismunandi landshlutum og býlum. Svo mættum við alveg lækka rafmagnskostnað fyrir grænmetisbændur og stuðla að auknu sjálfbærni okkar í matvælaframleiðslu “.

 Hvaða mál og málaflokkar telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á ?

„Við verðum að fara að leggja meiri áherslu á þá hugmyndafræði sem stýrir samfélaginu okkar og skoða hvort hún þjóni okkur inn í framtíðina. Við þurfum að horfast í augu við ákveðnar grundvallarspurningar um gagnsemi þeirra kerfa sem við höfum sniðið okkur, hvort þau séu raunverulega að þjóna heildinni og byrja að takast á við rót vandamálanna í stað þess að plástra mein sem eru inngróin og kerfislæg. Mikilvægast er að byrja á efnahagskerfi sem grundvallast af hugmyndafræði um línulegan, óendanlegan hagvöxt á plánetu sem hefur ekki yfir óendanlegum auðlindum að ráða. Við þurfum að styrkja lýðræðið og efla traust á stjórnmálum með bættum vinnubrögðum og lýðræðislegum ferlum sem tryggja aðkomu almennings alls, ekki bara sérhagsmunafla, að stefnumótun, samningu laga og ákvarðanatöku. Aðkoma almennings að ákvörðunartöku er gífurlega mikilvæg þar sem hún hefur þær afleiðingar að dreifa valdinu sem og ábyrgðinni. Með valdeflingu almennings drögum við úr spillingu og valdeflum á sama tíma þingmenn til að finna nauðsynlegt hugrekki í að knýja fram þær breytingar sem þörf er á til að geta mætt framtíðinni með áætlun sem þjónar heildinni og þar af leiðandi framþróun samfélagsins alls “.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -