Í morgun var Íslandsbanki hf. skráður á aðalmarkað Nasdaq Iceland. Hlutir upp á 35% í félaginu eru nú skráðir í kauphöllina; geta þar með gengið kaupum og sölum.
Íslendingar og erlendir aðilar keyptu hluti í útboðinu fyrir 55 milljarða króna; umfram eftirspurn var mikil, eða upp á tæpa 500 milljarða.
Bankastóri Íslandsbanka, Birna Einarsdóttir, hringdi bjöllunni við hlið Magnúsar Harðarsonar forstjóra Kauphallarinnar; er Birna þar með fyrsta konan til að stýra félagi í íslensku Kauphöllinni; með því braut hún blað.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lýst yfir ánægju með útboðið og vill selja meira af hlut ríkisins í bankanum.
„Eitt af viðfangsefnum stjórnmálanna er að afmarka hlutverk ríkisins. Það eru engar fréttir að hér er armur ríkisins víða langur samanborið við nágrannaríki okkar. Þetta sést ekki síst í bankakerfinu, þar sem eignarhaldið er það lang umfangsmesta í Evrópu,“ skrifar Bjarni og bætir við:
„Það vill oft gleymast að það þurfti hamfarir á fjármálamörkuðum heimsins til að valda því að ríkið endaði sem helsti eigandi íslenska fjármálakerfisins að nýju. Það stóð aldrei til að það yrði raunin til lengdar.“
Bjarni nefnir að „níföld umframeftirspurn var í útboðinu og hluthafar verða um 24 þúsund, fleiri en í nokkru öðru skráðu félagi á íslenskum markaði. Þátttaka almennings var áberandi mikil, en við heimiluðum kaup allt niður í 50 þúsund krónur og létum áskriftir fólks allt að einni milljón óskertar. Við það bætast sterkir hornsteinsfjárfestar; íslenskir lífeyrissjóðir auk stórra og traustra erlendra aðila. Salan fer fram á hagstæðum tíma á markaði og söluandvirðið upp á um 55 milljarða króna mun nýtast vel í áframhaldandi uppbyggingu næstu misseri.“
Hann nefnir enn fremur að „niðurstaðan sendir skýr skilaboð um að okkur er óhætt að sleppa í einhverjum tilfellum takinu og hleypa samkeppnisrekstri úr alltumlykjandi faðmi hins opinbera,“ og endar fjármálaráðherra pistil sinn á þessum orðum:
„Ríkið er ekki upphaf og endir alls. Fyrirtækjarekstri er óhætt í höndum fólks úti í samfélaginu, en ekki bara í stjórnarráðinu.“