„Í þinni hinstu ferð fórstu á sama fjallið en í þetta skipti var það þín sál sem þú barst til himna. Ég sé mömmu, pabba og ömmu Kristínu taka á móti þér og hugga, þar sem þú varst ekki tilbúinn að fara frá okkur“, skrifar Kristín Sigurjónsdóttir um bróður sinn, John Snorra Sigurjónsson en útför hans fer fram í Vídalínskirkju í dag klukkan 13.
John Snorra var saknað á fjallinu K2 í Pakistan þann 5. febrúar 2021.
John Snorri fæddist í Reykjavík 20. júní 1973. Hann bjó í Garðabæ með Línu Móeyju eiginkonu sinni og fjórum af börnum þeirra, og stóð öll fjölskyldan þétt að baki fjallamennsku John Snorra.
John Snorri var mikill fjallaáhugamaður og var fyrsti Íslendingurinn til að komast á topp K2, einn af innan við 300 manns til að sigra þetta annað hæsta og annað hættulegasta fjall heims. Hann kleif á marga hæstu tinda heims og hafði til að mynda klifið þrjú af hæstu fjöllum í heimi á stuttum tíma auk fjölda annarra í gegnum árin.
Auk þess starfaði John Snorri hjá Ferðafélagi Íslands og sem björgunarsveitarmaður fyrr á árum.
Mikill fjöldi minnist John Snorra á útfarardegi hans og skrifar systir hans að hann hafi drifið sig af stað á eitt hættulegasta fjall í heimi strax eftir að pabbi þeirra dó, til að fylgja honum til himna þar sem mamma þeirra beið hans.
John Snorra er lýst sem gulli af manni, með góða nærveru, ljúfan í skapi og hláturmildan öðling.
„Og gönguferð lífsins heldur áfram og það er bara eina leiðin, halda áfram og takast á við ný verkefni. Og þó að John sé ekki lengur á meðal okkar í lifandi lífi, brosandi og geislandi glaður, þá varðveitum við í hjarta okkar minningar um sannkallaðan afreksmann, einstakan fjölskylduföður, mannvin og góða manneskju,“ skrifar Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, í minningu John Snorra.
Guð blessi minningu Johns Snorra Sigurjónssónar.