Þrettán heimsóknir á bráðamóttöku á einu og sama almanaksárinu, vangreining meiðsla og illa rökstutt boð sérfræðings um innlögn á geðdeild, flugmiði til Indlands og fjórar skurðaðgerðir ytra eftir fádæma afskiptaleysi og frávísanir sérfræðinga á Íslandi. Orðaskak á samfélagsmiðlum, heiftúðug ummæli í athugasemdakerfum og óbilgjörn rétttrúnaðarstefna í málefnum er varða umbætur á sviði mannúðar og persónuréttinda.
Lýsingin ein hljómar eins og um farsakennt atriði í hryllingsmynd sé að ræða. Þó er um samtímafrásögn af reynslu einstaklings hérlendis að ræða, en Sævar Kolandavelu hefur dvalið í Indlandi nú í fáeina mánuði þar sem hann nýtur þjónustu í heilbrigðiskerfinu ytra, umönnun sem íslenska heilbrigðiskerfið er ekki í stakk búið til að veita einstaklingum með svo sjaldgæf meiðsli.
„En er þetta ekki nákvæmlega sama og samtökin berjast gegn? Að sjá annað kynið sem óæðra eða finna eitthvað að því sem réttlætir að það sé smættað?“
„Ég fór úr lið í hálsi, ekki þessum klassíska hryggjarlið heldur þeim hryggjarlið sem tengir rifbeinin við hálsinn,“ útskýrir Sævar en hann reyndi ítrekað að leita aðstoðar lækna hér á landi en var ítrekað vísað frá. Hann leitaði því til indverskra sérfræðinga en greining hans hlaut ekki samþykki íslenskra lækna. „Það að fara úr hálslið hafði svona svakalega katastrófískar afleiðingar. Þetta er í raun hryggjarliður en þar sem meinið er mjög sjaldgæft, var ég vangreindur til margra ára. Þetta hefur í einu orði sagt verið hryllilegt.“
Full vinna fór í að halda höfðinu hátt á Íslandi
Fáeinir mánuðir eru síðan Sævar sagði sögu sína í Fréttablaðinu og lét þau orð meðal annars falla að full vinna færi í það eitt að halda höfðinu hátt við dagleg störf þar sem hvorki lægi fyrir rétt né nákvæm greining svo hægt yrði að byrja bataferlið. Í viðtalinu sem tekið var í nóvember sagði Sævar þó að þrátt fyrir erfiða reynslu og ítrekaðar vangreiningar hefðu líka hæfir sérfræðingar orðið á vegi hans sem hefðu sýnt honum jafnt skilning sem stuðning. „Fólk spyr mig stundum hvað ég geri til að stytta mér stundir í biðinni eftir lækningu,“ sagði Sævar í nóvember í fyrra, þá staddur á Íslandi. „Þetta er full vinna. Að halda hausnum. Ég er bókstaflega ekki að gera neitt nema reyna að lifa.“
Nú eru átta mánuðir liðnir síðan Sævar greindi frá þrautagöngu sinni innan íslenska heilbrigðiskerfisins en hann flaug ytra nú í vor. „Síðan ég kom til Indlands hef ég farið í tvær aðgerðir en ég þarf að fara í tvær aðgerðir til viðbótar nú í þessari viku. Ég er með það sjaldgæf meiðsli að það finnst bara eitt annað skráð tilfelli í sögu mannkyns. Þetta eru ansi sjaldgæf meiðsli og ekki til nein einföld lausn. Því hefur gengið fremur illa að komast að meininu og ráða þar bót á.“
„Ofbeldi er ekki persónulegt vandamál, heldur samfélagsmein. Það er ekki svo einfalt að ætla að ákveðnir einstaklingar séu svo slæmir að vilja skemma fyrir öllum hinum.“
Kemst enginn hjá því að taka þátt í umræðunni
Sævar, sem gengur undir listamannsnafninu Poetrix, hefur stundum farið gegn ríkjandi skoðun og á samfélagsmiðlum nýlega setti hann spurningarmerki við framsetningu skilaboða baráttuhópa gegn ofbeldi. „Ég hef að sjálfsögðu fylgst með eins og allir, það fylgjast allir með því samfélagi sem þeir búa við og við eigum öll í krossvirku samtali; allt frá tveggja manna tali og yfir í þau samtöl sem við eigum milli þjóða og yfir landamæri. Það kemst enginn hjá því að taka þátt í þeirri umræðu, sama hvar í heiminum við erum niðurkomin.“
„Af hverju völdu þær þennan vinkil?“
Auglýsing frá baráttuhópnum Líf án ofbeldis varð spretta samtals á Facebook síðu Sævars fyrir stuttu, en hann deildi einfölduðu tölfræðilíkani frá samtökunum þar sem fram kemur að 98% gerendur kynferðisofbeldis á Íslandi á árabilinu 2015 til 2020 hafi verið karlmenn. „Nennir einhver að útskýra fyrir mér hvað point-ið með svona auglýsingu er?“ spyr hann í deilitexta á Facebook og segir ummælin fordómafull.
„Það eru teiknuð upp fjögur mismunandi tákn fyrir karlkynið og inn í táknin eru skrifað orðið GERENDUR og KARLMENN og þarna eru orðin KYNFERÐISOFBELDI með upphrópunarmerki, NAUÐGANIR og NAUÐGANIR GEGN BÖRNUM og þessi tákn sveima í kringum tákn karla í auglýsingunni. Svo stendur 98% í miðjunni. Ég skil málstað lífs án ofbeldis og ég er sammála honum. En hvað er þessi auglýsing að segja, ein og sér? Hvað stendur á þessu?“ segir hann aðspurður. „Útúr sömu tölfræði hefði verið hægt að lesa að innan við 1-3,5 pósent allra karlmanna fremja svona glæpi svo 97% þeirra gera það aldrei. Af hverju völdu þær þennan vinkil?“ „Það er svo auðvelt að hafa skoðun á umræðunni; við höfum öll skoðanir á því hvað aðrir eiga að tala um og segja og þar horfir hver á umræðuna frá misjöfnu sjónarhorni, eins og ég núna.“ Sævar heldur áfram og undirstrikar að hann taki afstöðu með mannkyninu.
„Ég er ekki í liði með ákveðnum hóp, ég er í liði með öllum. Í almennri umræðu á Íslandi hefur hins vegar sú stefna verið ríkjandi að búa til andstæð lið. Ég er hliðhollur málstað Lífs án ofbeldis. Það er mín afstaða og sú afstaða er alveg skýr. En er þetta ekki nákvæmlega sama og samtökin berjast gegn? Að sjá annað kynið sem óæðra eða finna eitthvað að því sem réttlætir að það sé smættað? Hljómar eins eins og það sama. Þú læknar ekki kynbundið ofbeldi með því að beita því. Það að vera karlmaður er ekki ástæða fyrir því að einhver beitir ofbeldi.“
„Það eru ekki allir karlmenn ofbeldismenn og það eitt að vera karlmaður gerir engan sjálfkrafa að ofbeldismanni.“
Ofbeldi ekki persónuvandi heldur samfélagsmein
Ég er bæði þolandi og gerandi og tel mig því vera í ágætri stöðu til að geta tjáð mig um svipuð mál af nokkurri vissu. Áhyggjutóns gætir í röddu Sævars þegar hann heldur áfram og segir: „Ofbeldi er ekki persónulegt vandamál, heldur samfélagsmein. Það er ekki svo einfalt að ætla að ákveðnir einstaklingar séu svo slæmir að vilja skemma fyrir öllum hinum,“ heldur hann áfram og bendir Sævar þar á að samverkandi þættir þurfi að koma til svo ofbeldi verði að vanda.
„Það þarf ýmislegt að koma til svo einstaklingur beiti ofbeldi; samfélagið, aðbúnaður, hversu miklu vinnuálagi manneskjan er undir þá stundina, hvaða álag er á taugakerfi viðkomandi, hver undirliggjandi áföll eru, uppeldi, og ef við ætlum að rekja þann hnút alveg upp, hvar endar þá ábyrgðin? Hjá nauðgaranum? Eða hjá þeim sem nauðgaði nauðgaranum? Ef við myndum rekja upp þá keðju til enda þá komum við að Mikla Hvelli [Big Bang]“ segir hann í viðtali nú og vísar þar til þess að ofbeldi ali af sér meira ofbeldi; að um alvarlega, langdregna og þunga keðjuverkun sé oft að ræða í hverju og einu tilfelli.“
Segir dæmigert fyrir gerendur að beita réttlætingu fyrir hörku
Ofbeldi er vítahringur sem þarf að rjúfa, á því er enginn vafi. En ástæður og rót ofbeldis er oft flókin keðjuverkun aðstæðna og atburða sem erfitt er að vinna á. Þá segir Sævar dæmigert fyrir gerendur að beita réttlætingu fyrir hörku. „Ástæða þess að fólk beitir ofbeldi er að einstaklingurinn finnur einhvern og einhverja ástæðu til að beita ofbeldi. Það er alltaf einhver, að mati gerandans, sem á ofbeldi skilið. Hann eða hún er einhvern veginn, gerði eitthvað, sagði eitthvað, hann eða hún á rétt á því að ég geri það sem ég geri núna.“ „Sá sem beitir ofbeldi er því í eigin huga aldrei að beita neinu ofbeldi. Það sem gerandinn gerir þykirhonum eða henni réttlátt, hljómar rökrétt og sanngjarnt jafnvel í hans veröld. Gerandinn er oft jafngaslýstur og fórnarlambið um eigin gjörðir. Hann bókstaflega sér ekki hvað hann er að gera. Hann sér eitthvað allt annað, hann útskýrir fyrir sér atburðarrásina allt öðruvísi. Ómeðvitað er gerandinn að reyna losna við hatrið inn í sér með að gefa einhverjum öðrum það, hugmyndin skiptir í raun engu máli nema bara til þess að rétta gjöfina . Ég hef til að mynda aldrei hitt manneskju sem þykirauðvelt að horfast í augu við eigið ofbeldi, og mjög fáir vilja gera það, og ég hef hitt eina manneskju um ævina sem ég gat ekki séð neitt ofbeldi í að neinu leyti.“
„Það er alltaf einhver, að mati gerandans, sem á ofbeldi skilið. Hann eða hún er einhvern veginn, gerði eitthvað, sagði eitthvað, hann eða hún á rétt á því að ég beiti ofbeldi núna.“
„Umræðan er viðkvæm í eðli sínu og svörin að sama skapi erfið viðureignar. „Undir öllum þeim kringumstæðum þar sem ofbeldi er beitt upplifir þolandinn það að vald hans yfir eigin veruleika er í raun myrt, það er tekið frá honum við verknaðinn. Sá verknaður gefur þolandanum hatur, niðurlægingu og hræðilega erfiðar tilfinningar,“ bætir Sævar við og er hugsi. Eftir ákveðinn tíma fer viðkomandi jafnvel að horfast í augu við þá lífsreynslu sem hann eða hún varð fyrir og upp kemur eðlileg reiði og hatur. Ég er ekki ógeð, ég átti þetta ekki skilið, þetta er ekki mér að kenna. Þetta er þessum fokker þarna að kenna. Ég á ekki að beina þessu hatri að sjálfri mér heldur honum.“
Erum öll að berjast gegn sameiginlegum óvini
Að mati Sævars eru það umskiptin frá ótta og yfir að valdeflingu þolenda sem valda eðlilegu og heilbrigðu tilfinningaróti. „Þetta er uppgjörið sem samfélagið er að endurspegla í dag, þegar þolandinn áttar sig á því að hann eða hún er fórnarlamb og fer að berjast fyrir bættum heimi.Þessi grundvöllur í þessu samhengi er heilbrigður. Aftur á móti ef viðkomandi áttar sig ekki á því að gerandi þeirra er í raun bara smitberi fyrir hatur og því sé besta leiðin til að sigrast á ofbeldinu að slíta keðjuna og neita að bera hatrið áfram innra með sér í garð annara, þá endar það oft á því að finna sér leið til að smita líf einstaklingsins og fá hann til að smita aðra. Þessi atriði sjáum við bæði í smækkaðri og stærri mynd. Við sjáum þessar birtingarmyndir í samskiptum ólíkra þjóða og milli kynslóða. Sonurinn beitir sama ofbeldi og faðirinn. Ísraelsmenn fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum, Bandaríkjamenn eru að leynimyrða og henda sprengjum á fólk sem býr með geitum því það er „ógn við frelsi þeirra.“ Þeir eru að gera það sama og var gert við þá, ofbeldið sem fórnarlambið hefur þurft að þola er gefið áfram og þolandi verður gerandi. Í endalausa hringi gegnum alla mannkynssöguna.“
Segir leitt að sjá baráttuhópa beita sama ofbeldi
Framganga baráttusamtakanna Líf án ofbeldis hefur verið skelegg, hnitmiðuð og hjálpleg ófáum undanfarna mánuði og segir Sævar engan vafa leika á gagnsemi opinnar og gegnsærrar umræðu. Jafnframt því undirstrikar hann eigin viðhorf. „Ég hef beinlínis, eindregið og verulega tekið afstöðu í verki með meðlimum samtakanna, ég hef lagt málstaðnum virkan lið í baráttu kvenna við kerfið og við ofbeldisfulla barnsfeður. Ég tel því þann vinkil um að ég sé „í hinu liðinu“ eða jafnvel partur af gerendavæðingu í þjóðfélaginu ekki virka í mínu tilfelli. Mér finnst grátlegt þegar við föllum í þá gryfju að beita sama ofbeldi og við erum að reyna berjast gegn.“
„Við getum ekki málað upp hópa einstaklinga svona hvort sem það er „Konur ljúga svo mikið um nauðganir“ eða „Karlmenn beita ofbeldi.“
Á samskiptamiðlum hefur Sævar þannig vísað í umræðu undangenginna vikna og segir nýlegar staðhæfingar um tölfræði gerenda vera rasískar. Vill hann meina að sá rasismi sem hann vísar til í umræðunni beinist þá gegn karlmönnum og að almennir áfellisdómar í garð karlmanna sé komin út fyrir vesæmismörk? „hugmynd sem að dregur hópa í dilka og merkir þá með svona miðum er alltaf byggð á lygi. Þessi tegund af hugmynd er oftast réttlæting sem verður undanfari þess við megum beita einstaklinga eða hópa ofbeldi í orði eða á borði. Þetta er nákvæmlega sama hugmynd og við sáum í þrælaiðnaðinum í Bandaríkjunum, meðan á helför Hitlers stóð og birtist í ríkjandi viðhorfum þeirra sem aðhyllast þjóðernisstefnu í Afríku. Þetta er ekki einu sinni frumleg nálgun sem brýst fram á þennan hátt. Þetta er alltaf sama hugmyndin. Einstaklingur, flokkur eða hópur er svo mikið þannig að maður má gera svona við þá. Það er sama hugmynd að baki öllu ofbeldi. Stundum í mismunandi búning.“
„Konur ljúga svo mikið um nauðganir“
Þá spyr Sævar í viðtali hver tilgangur auglýsinga um kynjahlutföll gerenda á Íslandi sé og hver skilaboð þeirra sömu auglýsinga sé í raun. „Ég get ekki lesið annað út úr þessum orðum en að karlmenn séu ofbeldisseggir. Ég sé alla vega engin önnur skilaboð. Ég skil baráttumálstað þessara sömu hópa og þykist vita hvaðan þetta fólk er að koma. Ég veit að enginn vill láta nauðga sér og enginn vill láta berja sín eigin börn. En ég er ekki sammála þessari tegund hugmynda og ég held að þetta sé nákvæmlega það sem við þurfum að uppræta. Við getum ekki málað upp hópa einstaklinga svona hvort sem það er „Konur ljúga svo mikið um nauðganir“ eða „Karlmenn beita ofbeldi.“
Það að vera karlmaður gerir engan sjálfkrafa að ofbeldismanni
Vill Sævar, sem tekur sterkt til orða í viðtali við blaðamann, meina að honum þyki meiri lausnarmiðun og mýkt þurfi að einkenna umræðuna? „Sannleikurinn má koma fram,“ segir hann. “Við vitum öll hvað er satt og ekki. Við vitum öll að það eru mjög fáar manneskjur sem vilja fara og beita aðra manneskju ofbeldi. Það kemur enginn út úr píkunni á mömmu sinni og segir – Hey, ég ætla að berja alla.“
„Skiljanlegt, En þetta er bara ekki satt. Karlmenn eru ekki ofbeldismenn af því einu að vera karlmenn.“
Er tónlistarmaðurinn og textasmiðurinn þar að segja að hann telji herferðina ekki vænlega til árangurs í viðleitni til að knýja fram úrbætur? „Þessi nálgun er einfaldlega bara ekki sönn. Þetta er ekki satt fyrir það fyrsta. Það eru ekki allir karlmenn ofbeldismenn og það eitt að vera karlmaður gerir engan sjálfkrafa að ofbeldismanni. Það eru að mestu samverkandi samfélagslegir þættir sem búa til ofbeldi í heiminum.“
Segir umfjöllun einkennast af lágkúrulegum æsifréttastíl
„Það er beint orsakasamhengi við tíðni ofbeldis og fátækt til dæmis. Beint orsakasamhengi við áfallasögur. Hvernig á fátækt fólk á íslandi sem býr við langar áfallasögur og vont félagslegt umhverfi með þrjú börn á sínu framfæri og vinnu sem dugar ekki fyrir grunnþörfum að finna tíma og peninga og faghjálp til að uppræta kannski margra kynslóða arf af ofbeldi og áföllum? Þetta er bara ein af mörgum spurningum um raunverulegan uppruna ofbeldis sem ég væri til í að sjá í auglýsingu. Að slá upp æsifréttafyrirsögnum um að karlmenn séu 98% gerenda í ofbeldi og spyrða þetta saman er að öllu leyti vitlaust.“
„Sonur minn á ekki að þurfa lesa þetta rugl“
Ástæðuna telur Sævar vera tilfinningalegs eðlis. „Ég held að þetta sé tilfinningalegs eðlis en ekki á vitrænum forsendum. Þessar konur og þetta fólk hefur lent í hræðilegum áföllum og í tilfellum umræddra þolenda hefur gerandinn verið karlmaður. Taugakerfi þolenda dansar í gegnum ákveðna triggera. Svona einföld erum við manneskjur bara. Svo sýnist mér að þessi reiði og þetta hatur sem ofbeldi óneitanlega elur af sér vilji einfaldlega finna sér farveg áfram; enginn vill ofbeldi inni hjá sér og allir vilja vísa því frá, gefa ofbeldið burtu og afhenda einhverjum öðrum reynsluna. Það var karlmaður sem nauðgaði mér. Karlmenn nauðga. Karlmenn eiga taka ábyrgð á því að þeir eru nauðgarar. Skiljanlegt, En þetta er bara ekki satt. Karlmenn eru ekki ofbeldismenn af því einu að vera karlmenn. Við komumst ekki lengra með samtalið um hvað skal gera meðan forsendur þess eru rangar. Já, ég er sammála þér, ofbeldi þarf að uppræta. Já, ég er sammála um að draga alla til ábyrgðar fyrir gjarðir sínar er smart move. Ég skal tala um þetta og reyna leysa þetta með öllum þangað til ég er farinn í gröfina en ég get ekki leyst vandamálið „Ofbeldi sem er til því karlmenn eru til“ því það er ekki til. Sonur minn á ekki að þurfa lesa þetta rugl.“
„Þetta er allt saman hræðilegt, tilgangslaust og sorglegt, en allt það sama. Við erum öll í baráttu milli ástar og haturs í hjartanu á okkur.“
Aðstöðumunur en ekki kynferði spretta ofbeldis
Aðstöðumun gerenda segir Sævar vera ljósar forsendur alls ofbeldis. „Rannsóknir hafa sýnt að bæði konur og börn og annars heilbrigt og eðlilegt fólk er fært um að beita ofbeldi sjálft þegar sami aðstöðumunur og gerendur eru vanalega í stendur þeim til boða. Þá er enginn munur á milli kynja og þjóðflokka. Þegar þær línur sem við kjósum og erum vön að draga í eðlilegum samskiptum verða óljósar, verður oft sáralítill eða enginn kynjamunur milli gerenda. Ríkjandi umræða í dag er ótrúlega frumstæð. Þetta er á svo frumbyggjalegum grunni allt saman að varla er mark takandi á svona staðhæfingum.Það eru allir að leyta að einhverri lausn. Einhverri nefnd til að setja á stofn. Einhverri lagasetningu eða einhverju fiffi.“
Baráttan milli ástar og haturs fer ekki í manngreinarálit
„En ef við viljum í raun og veru sigrast á þessu þurfum við að spyrja okkur mjög erfiðra spurninga um grundvallarundirstöður samfélagsins sem við búum í og ég veit ekki hvort allir séu til í það. Það er miklu auðveldara á hanga á TikTok og Instagram og fá spons frá einhverjum veitingastað og vera fylgja söguþræði þriggja mismunandi sjónvarpsþátta en spyrja sig hvort maður sé til í að minnka sín eigin lífsgæði eftir 5-10 ár þegar vatnið í Indlandi klárast og milljarðar flóttamanna koma til Evrópu og Útlendingastofnun setur upp gaddavírsrúllur. Stærstu fjöldaglæpir sögurnar sem eru nauðganir á konum og svo stærsta fjöldamorð sögunar sem er útrýming 100 milljóna ungra karlmanna í stríði hinna ríku síðustu öldina eða svo er sama ofbeldið.“
„Við erum að glíma við sama óvininn; hatur, líta niður á, vera meira virði enn, hærra í þjóðfélagsstiganum heldur o.sv.frv. sem veldur því að þú og þín tilvist skipta minna máli svo það er allt í lagi að þú þjáist svo ég hafi það betra. Þetta er allt saman hræðilegt, tilgangslaust og sorglegt, en allt það sama. Við erum öll í baráttu milli ástar og haturs í hjartanu á okkur. Við erum í sama liðinu, karlmenn og konur og börn.“