Einhverjir stöldruðu við drottningarviðtal við Róbert Wesmann í Fréttablaðinu í gær. Þar var farið ítarlega ofan í drauma og væntingar um það stórveldi sem Róbert ætlar að reisa með fyrirtækjum sínum og margir fuglar eru í skógi. En það er enginn fuglasöngur í kringum forstjórann sjálfan sem stendur í málaferlum við Halldór Kristmannsson, áður sinn nánasta samstarfsmann. Halldór hefur upplýst um stjórnunarhætti sem lýsa sér í beinu líkamlegu ofbeldi. Þá hafa verið lögð fram gögn sem sýna að Róbert hótaði fólki lífláti með smáskilaboðum. Í drottningarviðtalinu segir Róbert að ásakanirnar séu tilhæfulausar og hann sitji áfram sem forstjóri og njóti trausts stjórna og eigenda Alvogen og Alvotech. Hann er ekki spurður í framhaldinu um þau mál sem hann hefur viðurkennt að séu rétt. Sú stóra spurning stendur eftir hvort sjálfhætt sé hjá honum í ljósi þess að viðurkennt er að hann hafi barið fólk og hótað öðrum lífláti ….