Katrín Helga Andrésdóttir, myndlistar- og tónlistarkona, spilar með hljómsveitunum Reykjavíkurdætrum og Sóleyju en um þessar mundir leggur hún aðaláherslu á sólóverkefnið Special-K. Þar sameinar hún myndlist og tónlist til að skapa sem heildstæðastan heim. Það nýjasta er sjónræn EP-plata frá Special-K sem heitir I Thought I’d Be More Famous by Now.
Þegar talið berst að fatastíl segir Katrín smekkleysu í bland við pastel einkenna sig. „Ég fíla allt sem er nógu ljótt til að vera flott. Þessa stundina vinn ég mikið með einhvers konar alien, weird, kitch og sakleysislegan en samt kinkí karakter. Ég geri yfirleitt bestu kaupin í vintage-búðum í útlöndum.“
Katrín Helga segist fyrst og fremst sækja innblástur í leikgleði. „Franska tónlistarkonan Soko veitir mér innblástur bæði í tónlistarsköpun og fatastíl. Hún er ótrúlega svöl í bland við að vera barnslega frjáls. Hún klæðist gjarnan litríkum og tilraunaglöðum fötum, er bæði persónuleg og chic.“
Efst á óskalista Katrínar er flugmiði til LA, en annars langar hana líka í kúrekastígvél. Þegar hún er spurð að því hvað allar konur á Íslandi ættu að eiga í fataskápnum sínum svarar hún: „Föðurland, það er kalt á Íslandi.”