Fylliraftur var handtekinn í miðbænum eftir að hafa skemmt lögreglubifreið. Maðurinn sem var viti sínu fjær af drykkju henti glasi í bifreiðina og hlutust nokkrar skemmdir af. Hann var gripinn og flutur í fangaklefa. Í morgunsárið mun hann þurfa að horfast í augu við atburði næturinnar og gera upp sakir sínar.
Annar einstaklingur í áfengisvanda lét dólgslega við skemmtistað. Óskað eftir aðstoð lögreglu vegna mannsins sem lét ófriðlega og veittist að gestum og gangandi. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum og hægt verður að ræða við hann, líkt og þann sem skemmdi lögreglubifreiðina.
Hömluleysi einkenndi þessa nótt um fyrstu helgi afléttinga á hömlum.
Þá var nokkuð um líkámsárásir og slagsmál þegar fólk fagnaði afléttingu á hömlum vegna Covid með hömluleysi. Við skemmtistað í miðborginni brutust út slagsmál. Einn einstaklingur handtekinn vegna málsins og er hann læstur inni í fangaklefa
Að vanda var slæðingur af drukknum og dópuðum ökumönnum á ferðinni. Lögreglan var á vaktinni og náði nokkrum þeirra. Þessu óskilt var ekið á ungan reiðhjólamann. Hann slapp með skrekkinn og reyndist óslasaður.