Kristján Örn er einn af fjórum stofnendum og eigendum arkitektastofunnar KRADS ásamt þeim Kristjáni Eggertssyni, Mads Bay Møller og Kristoffer Juhl Beilman. KRADS stofnuðu þeir félagar árið 2006 í Danmörku og á Íslandi. Við fengum Kristján til þess að veita okkur innsýn í arkitektúr á Íslandi í dag.
Hvaða straumar og stefnur eru mest áberandi í arkitektúr í dag? „Þegar ég var í námi í Danmörku var bæði ákveðin tegund mínimalsma áberandi og svo hollenski skólinn og sú stefna sem stundum er nefnd súpermódernismi. Konseptið skipti þar mestu máli en minni áhersla var til dæmis lögð á að draga fram staðbundinn karakter, sögu, handverk og annað slíkt í arkitektúrnum – sem er farið að bera meira á aftur, að minnsta kosti hér á Norðurlöndunum. Eins virðist áhuginn á hinum svokölluðu „stjörnuarkitektum“ fara minnkandi og umræðan frekar farin að snúast um mikilvæg gildi eins og vistvæn gildi og samfélagslegt ábyrgðarhlutverk þeirra sem móta hið manngerða umhverfi. Þetta sést til dæmis glögglega á þema tveggja síðustu Feneyjartvíæringanna. Sjálfur hef ég skilgreint mig sem brútal mínimalista eða mínimal brútalista, í ákveðinni blöndu af öllu ofangreindu.“
Hvaða arkitekt/hönnuður hefur veitt þér mestan innblástur í störfum þínum? „Þar gæti ég nefnt marga meistara, eins og t.d. Arne Jacobsen frá Danmörku, Kenzo Tange frá Japan eða Oscar Niemeyer frá Brasilíu. Ég held að ég verði þó að segja að svissnesku arkitektarnir Herzog & de Meuron hafi haft hvað mest áhrif á mig bæði í náminu og í fagumhverfinu. Þeir hafa alltaf nálgast hvert verkefni á ólíkan hátt, haft auga fyrir smáatriðum og efniskennd og geta unnið með smá, miðlungsstór og risastór verkefni af sömu næmni. Verk þeirra eru jafnólík og staðirnir sem þeir hafa unnið með.“
Hvar standa Íslendingar á heimsvísu hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni? „Það eru margar góðar arkitektastofur á Íslandi. Margar þeirra eru litlar og ungar stofur sem mættu gjarnan fá fleiri tækifæri til að spreyta sig við stærri verkefni – það myndi sannarlega bæta stöðu okkar hvað varðar arkitektúr og samkeppnishæfni. Ég vil nota tækifærið og gagnrýna ákveðna fljótfærni og íhaldssemi í byggingargeiranum, sérstaklega þegar kemur að uppbyggingu fjölbýla og umhverfis þeirra á Íslandi. Þar virðist þemað oftast vera; hratt, auðvelt og ódýrt. Góð uppbygging þarf ekki að vera kostnaðarsöm og hún þarf ekki endilega að vera erfið. En hún er sjaldan hröð. Það þarf að gefa sér tíma að hugsa, og hanna, hlutina til enda áður en farið er af stað. Góð hönnun getur sparað í uppbyggingu, gert byggingar hagkvæmari í rekstri og skapað margvísleg aukin verðmæti. Langtímahugsun virðist oft gleymast hér á landi og við mættum horfa til nágrannalanda okkar í ríkari mæli hvað gæði snertir. Hér á landi er einblínt um of á kostnað pr. fermetra, fáir vandaðir og dýrari fermetrar geta verið hagkvæmari en margir ódýrir af litlum gæðum.“
Hvað er mikilvægast þegar kemur að góðri hönnun og hvað ber að varast? „Mikilvægast þykir mér að gefa sér góðan tíma og vanda til hvers þess verks sem maður tekur sér fyrir hendur. Við hönnun er nauðsynlegt að skoða og prófa margar mismunandi útfærslur sem koma til greina svo hægt sé að finna þá bestu, þetta tekur tíma. Einnig er gríðarlega mikilvægt, að mínu mati, að velja góð efni, efni sem fá að eldast og veðrast fallega, þannig gerum við byggingar og rými sem bæði endast og eldast vel. Það sem ber að varast, að mínu mati, er þessi dýrkun á viðhaldsfríum lausnum í hinu og þessu. Ég tel það hreinlega nauðsynlegt að byggingar hafi viðhald upp að vissu marki. Við þurfum að sýna okkar nánasta umhverfi umhyggju og virðingu, megum ekki enda í plastísku ofneyslusamfélagi þar sem einnotalausnir eru allsráðandi. Við getum lært mikið af okkur eldri kynslóðum sem keyptu sér eina vandaða hrærivél, hún var dýru verði keypt en dugði þeim alla þeirra ævi og situr jafnvel á eldhúsborði okkar kynslóðar í dag.“