Dóra Björt Guðjónsdóttir er forseti borgarstjórnar og formaður mannréttinda- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Hún lýsir fatastíl sínum sem stílhreinum þótt rauði varaliturinn sé aldrei langt undan.
Undanfarin átta ár hefur Dóra Björt búið víðsvegar um Evrópu, lengst af í Noregi og Belgíu þar sem hún starfaði á Evrópuþingi sem Evrópuþingmaður Pírata. Hún lærði bæði heimspeki og alþjóðafræði og segir það mikinn heiður að hafa verið kosin í borgarstjórn Reykjavíkur síðastliðið vor.
„Ég reyni að kaupa sem mest af notuðum fötum umhverfisins vegna og hef fundið margar gersemar í Kolaportinu og byrja gjarnan á því að leita þar ef mig vantar eitthvað. Nema kannski þegar kemur að skóm. Þá byrja ég í Ecco því ég elska þægilega skó og Ecco framleiðir skó sem eru bæði þægilegir og fallegir. Nýjustu kaupin í fataskápnum mínum er einmitt geggjuð drapplituð og dálítið rokkuð kápa sem ég fann í Kolaportinu og hef fengið mikið hrós fyrir. Algjör ofurkaup á núll og nix, gerð með tiltölulega góðri samvisku. Nokkurn veginn í takt við þann stíl sem ég hef reynt að tileinka mér, stílhreinn og mínimalískur pönkstíll. Efst á mínum óskalista þessa stundina væri þó einhver meganæs og kúl regnkápa. Á einhverjum tímapunkti þarf bara að horfast í augu við þetta veður eins og það hefur verið í sumar og vinna með það, eða eins og dásamleg klisja segir: Lífið snýst ekki um að bíða eftir að stormurinn líði hjá, heldur um að læra að dansa í rigningunni.“
Myndir / Hákon Davíð Björnsson