Vinkonurnar Eva María Mattadóttir og Sylvía Briem Friðjónsdóttir stofnuðu hljóðvarpið Normið þar sem þær leitast við að svara spurningum eins og af hverju mannfólkið er eins og það er. Hvers vegna hegðum við okkur á ákveðinn máta og hvernig getum við öll rifið okkur upp á hærra plan?
Stöllurnar kynntust fyrst árið 2014 þegar Eva hóf þjálfaranám hjá Dale Carnegie, þar sem Sylvía var þjálfari. Þær segja að um leið og þær hittust fyrst hafi þær fundið hversu óhugnanlega líkar þær væru á marga vegu, en það var ekki fyrr en sameiginleg vinkona þeirra gekk í gegnum erfiða tíma að þær fóru að kynnast betur. „Við hjálpuðum henni báðar og hvöttum áfram, þó hvor í sínu horninu,“ rifjar Eva upp. „Við sáum frábæra breytingu á henni og fundum að vinnan okkar bar árangur. Þá ákvað ég að senda Sylvíu skilaboð sem voru orðrétt: „Hei, ættum við ekki að fara að hittast og kynnast betur?“ Eftir það byrjaði boltinn að rúlla og við fórum að hittast oftar og oftar. Uppáhaldsstaðurinn okkar varð Te & kaffi í Kringlunni og þar höfum við varið ófáum klukkutímum í spjall um tilveruna. Það er ómetanlegt að eiga vinkonusamband þar sem einlægni, plebbahúmor og skilningur er í fyrirrúmi. Og auðvitað hlátursköst á fimm mínútna fresti!“
Stöðugt að leita leiða til að efla sjálfa sig
Eva og Sylvía eiga það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á mannlegri hegðun og sjálfsvinnu. Sylvía hefur, að eigin sögn, allt frá barnæsku pælt mikið í fólki og því hvernig hægt sé að verða besta útgáfan af sjálfri sér. „Í því felst stöðug vinna í að leita leiða til að efla sjálfa mig og taka toppstykkið í hærri hæðir. Það mætti segja að ég sé með þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og fólki,“ segir hún, og Eva tekur undir. „Áhugi minn liggur helst í því að efla mig. Í sannleika sagt held ég að sá áhugi hafi bjargað lífi mínu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Ég hef farið í gegnum alls konar hóla og hæðir eins og allir aðrir og lært mest af stærstu mistökunum.“
Ég reyni að hugsa með hjartanu, því heilinn í mér er stundum eins og þeytivinda þegar ég leyfi honum að ráða ferðinni.“
Vinkonurnar hafa fjölbreyttar ferilskrár að baki og er margt til lista lagt. Eva segir börnin sín tvö og fimm ára edrúmennsku vera á toppnum yfir sín helstu afrek. „Ég er óvirkur alkóhólisti og það er eitthvað sem ég er virkilega stolt af. Tónlist er líka stór partur af mér og ég get alveg gleymt mér í textagerð og melódíum. Svalasta áhugamálið mitt er samt snjóbretti. Mér finnst ég mjög svöl að kunna á snjóbretti og elska að renna mér með góða tóna í eyrunum, það er fyrirtaks hugleiðsla. Þegar ég var 19 ára flutti ég til Kaliforníu þar sem ég er fædd og lagði stund á leiklist, ég gjörsamlega elska að lifa mig inn í hlutina og fékk aldeilis útrás í því námi. Ég starfa núna sem Dale Carnegie-þjálfari og þjálfa þar ungt fólk í átt að betra sjálfstrausti, svo tek ég sálfræðinám jafnt og þétt með. Ég var reyndar að klára fæðingarorlof í sumar en ég átti strákinn minn í janúar. Nú tekur Normið við og önnur spennandi ævintýri,“ segir hún.
Þegar Sylvía er beðin um að lýsa sjálfri sér nefnir hún fyrst að hún sé forfallinn Beyonce-aðdáandi, ADHD-mamma, með áráttu fyrir fólki og mannlegri hegðun. „Ég er með þessi týpísku áhugamál; það allra fyrsta er að njóta og vera með fjölskyldunni, ferðast, elda góðan mat, sjá fólk blómstra í kringum mig og fá að vera partur af því, svo eitthvað sé nefnt. Ég starfa sem Dale Carnegie-þjálfari og vinn hjá Ölgerðinni. Ég hef lokið námi í Neuro Linguistic Programming, heilsumarkþjálfanámi frá New York og ljósmyndun og er núna í sálfræðinámi. Svo á ég von á öðrum strák núna í febrúar þannig að það mætti segja að það sé nóg að gera.“
Þráhyggja fyrir mannlegri hegðun
Fyrir skömmu bárust þær fréttir að vinkonurnar hygðust gefa út hlaðvarp, sem fengið hefur nafnið Normið. „Við fundum að þessi samtöl okkar um lífið, sjálfstraust, kvíða, samskipti og allt þar á milli höfðu mikil áhrif og hjálpuðu okkur verulega. Við lærum margt hvor af annarri því við erum einnig mjög ólíkar á margan hátt. Við áttuðum okkur á því að þessi samtöl og fróðleiksmolar gætu hjálpað öðrum til að líða betur og þannig spratt hugmyndin fram um Normið síðasta sumar,“ segja þær.
Eins og nafnið gefur til kynna er áherslan lögð á að ræða þetta svokallaða norm. „Hvað er normið? Hvað er samfélagslega ásættanlegt? Erum við sáttar við það? Hvernig getur okkur liðið betur? Hvernig komumst við á staðinn sem okkur langar að komast á í lífinu? Markmið okkar er að koma til skila öllum þeim fróðleik og „life-hacks“ sem við höfum sankað að okkur í gegnum tíðina svo það geti mögulega gagnast öðrum og lyft fólki upp á hærra plan. Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu. Til dæmis höfum við lært Neuro Linguistic Programming, leiklist, markþjálfun og heilsumarkþjálfun. Við erum báðar í sálfræðinámi, báðar þjálfarar hjá Dale Carnegie og með þessa þráhyggju fyrir mannlegri hegðun og því hvernig hægt er að finna alvörulausnir á vandamálum og vanlíðan. Allt þetta myndar skemmtilega og kraftmikla reynslusúpu sem okkur langar til að aðrir drekki í sig. Við viljum tala um hluti sem eru erfiðir og finna lausnir en líka slá sumu upp í grín því við mannfólkið getum verið skemmtilega dramatískt inn á milli, og þar erum við tvær alls ekki undanskildar.“
Við höfum mikla reynslu af því að vinna með fólki og endalausri sjálfsvinnu.
Yfirþyrmandi framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum
Fyrsti þátturinn fór í loftið 8. nóvember síðastliðinn og hefur hlotið frábærar viðtökur. Að sögn Sylvíu allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. „Við eigum það öll sameiginlegt að vera mannleg en stundum eigum við það flest til að gleyma því og þrjóskast við að reyna að vera óaðfinnanleg og fullkomin. Normið snýst um hluti eins og að þora að vera við sjálf, hræðslu við að gera mistök, sjálfstraust, kvíða, álit annarra og allt þar á milli. Ef þú ert manneskja sem hefur áhuga á því að vaxa og líða betur, ert þú markhópurinn okkar.“
Þær munu fá til sín áhugaverða gesti og hvetja fólk til að hafa samband við sig sem langar að láta í sér heyra. „Gestirnir okkar verða fyrst og fremst fólk sem nær árangri, skarar fram úr og kemst yfir hindranir með einstöku hugarfari,“ segir Eva. „Tilgangurinn með því að fá gesti er í raun að útvarpa visku fólks svo við getum öll lært af því. Mögulega geta hlustendur nýtt sér viskuna og yfirfært á sitt líf. Ástæðan fyrir því að við tvær höfum náð langt hvað sjálfstraust og hugarfar varðar er sú að við fylgjumst með fólki sem treystir á sjálft sig og er óstöðvandi. Við tileinkum okkur eiginleika þessa fólks og tileinkum okkur það sem virkar. Það er enginn að finna upp hjólið hérna, maður þarf bara að finna sér sterkar fyrirmyndir.“
Aðspurðar segjast þær að vissu leyti halda að hlaðvörp séu að taka við af bókum og lestri. „Okkur finnst hlaðvörp frábær viðbót við fróðleiksflóruna sem til er, en bækur eru ódauðlegar. En það er heill hellingur til af hlaðvörpum! Íslensk og erlend. Það er endalaust af upplýsingum til hvort sem þær er að finna í bókum, á Netinu, í hlaðvörpum eða annars staðar – og það skemmtilega er að allir geta fundið hvað hentar þeim best. Sjálfar hlustum við mikið á hljóðvörp, af íslenskum mætti helst nefna Snorra Björns og Þarf alltaf að vera grín? Eva hlustar mikið á the GaryVee Audio Experience og How I Built This with Guy Raz. Svo elskum við báðar Opruh Winfrey og hlustum á SuperSoul Conversations. Það er óteljandi margt fólk í heiminum sem hægt er að læra af og stundum er yfirþyrmandi hvað það er mikið framboð af snilld í hlaðvarpsheiminum.“
Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.