„Heitasta ósk íbúa Hleinanna í Garðabæ er að straumhvörf verði á hugarfari og áhugaleysi stjórnar gagnvart okkur íbúum Hleina með margumræddri lokun aðalbrautar okkar til okkar heima,“ segir Gunnar H. Jónsson íbúi í Garðabæ í bréfi sem hann sendi til bæjaryfirvalda í þessum mánuði.
Málið snýr að lokun Garðahraunsvegar – gamla Álftanesvegarins – í Garðabæ og hefur valdið mikilli óánægju á meðal íbúa Hleinahverfis. Vonuðust íbúarnir, sem eru í kringum eitt hundrað talsins og allir eldri borgarar, eftir því að mótmæli og kærumál myndu koma í veg fyrir lokunina.
Svo varð ekki.
Gunnar segir í áðurnefndu bréfi „að í uppvexti okkar aldraðra fólksins var brýnt fyrir okkur að reyna að lifa í sátt við Guð og menn og gera ekkert á hlut minni máttar. Þessi mannlegi lífsmáti hefur vikið fyrir „nýmóðins hugsjón“ að þóknast Mammon með reisn en gefa skít í þann sem ekkert er upp úr að hafa.“
Eftir að veginum var lokað í fyrra hafa íbúar hverfissins þurft að keyra tveggja kílómetra leið; út á Álftanesið eða í gegnum íbúðahverfi í Vöngunum í næsta bæjarfélagi, Hafnarfirði, en einungis neyðarbílar og strætisvagnar mega aka veginn nú.
Gunnar sendir bæjarstjóra Garðabæjar, Gunnari Einarssyni og hans aðstoðarfólki pillu í bréfi sínu:
„Er ekki tímabært að bæjarstjóri og hans aðstoðarfólk fari að leita í hugskoti sínu hvort þar leynist eitthvað af áður glataðri samvisku?“ og bætir við:
„Já! Við viljum hafa bein áhrif á okkar umhverfi og sameinumst um betri og mannvænni Garðabæ,“ segir Gunnar sem endar bréf sitt til bæjaryfirvalda svona:
„Gleymum ekki að sýna fuglum himins í verki að við séum ekki með hjarta úr blýi. Ég velti fyrir mér hvort sú sé raunin.“
Lokun vegarins hefur einnig verið harðlega mótmælt í Hafnarfirði, enda telja nokkur fjöldi af Hanfirðingum og Garðbæingum að lokuni valdið raski, meðal annars fyrir heimilisfólk og starfsfólk Hrafnistu í Hafnarfirði.
Hulda Hauksdóttir upplýsingastjóri Garðabæjar segir að „Garðahraunsvegi hefur verið breytt úr stofnbraut í safngötu þar sem umferð um veginn hefur verið þung og dregið úr búsetugæðum.“