Læknaneminn Rakel Björg Kristjónsdóttir stundar nám sitt í Danmörku og býr þar ásamt manni sínum og tæplega tveggja ára dóttur þeirra.
Rakel reynir, eins og hún getur, að heimsækja fjölskyldu sína og vini á Íslandi, og ætlaði nýverið að taka á leigu bíl, en hún er nú stödd hér á landi ásamt manni og dóttur.
Hún fór og heimsótti bílaleiguna Hertz og óskaði eftir bíl til leigu. Fyrst heyrðist henni verðið hjá Hertz vera sanngjarnt, jafnvel gott, en svo kom sannleikurinn í ljós.
Henni brá allsvakalega í brún þegar hún heyrði hvað leigan á bílnum – sem hún ætlaði að leigja í sautján daga – myndi kosta:
„Já, ég ætlaði að leigja bílinn og fékk tilboð á Íslandi fyrir leigu á bílnum í sautján daga,“ segir Rakel í samtali við mannlif.is og bætir við:
„Tilboðið heyrðist mér vera 44.500 krónur, og hugsaði með mér, Ok – næs – heyri í þeim.“
En Rakel hafði misheyrst og leigan var „pínulítið“ hærri en 44.500 krónur:
„Þetta var 445.000 krónur í leigu á Toyota Yaris í sautján daga!“
Rakel sagði við starfsmann bílaleigunnar Hertz þegar hún hafði áttað sig á kostnaðinum:
„Það borgar þetta enginn? Ég myndi bara kaupa bíl ef ég ætti hálfa milljón aukalega?“
Starfsmaðurinn virtist skilja vel að verðið væri alltof hátt og sagði:
„Já, sama hér, nei, það eru bara útlendingar sem leigja á svona verði.“
Eins og gefur að skilja tók Rakel ekki tilboðinu og er sem stendur að leita að bíl fyrir talsvert lægri upphæð en sem nemur tæpri hálfri milljón króna fyrir sautján daga leigu.