Veðurstofan útilokar ekki að nú gæti farið að sjá fyrir endann á gosinu okkar allra og hugsanlega síðasti séns að taka labbið og taka nokkrar sjálfur við gíginn.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að seinnipartinn í dag hafi órói við Fagradalsfjall minnkað töluvert. Um sama leyti hafi rofað til á gosstöðvunum og vefmyndavélar sýni litla sem enga virkni í gígnum.
Veðustofan tekur fram að enn sé of snemmt að segja til um hvort þetta séu goslok enda hafi orðið sólarhrings hlé í virkninni fyrir nokkrum dögum sem hafi hafi tekið sig upp aftur. Stofan hyggst fylgjast með gangi mála og meta stöðuna betur á morgun.
Svona hljóðar tilkynning Veðurstofunnar í heild sinni:
„Nú seinnipartinn í dag hefur órói við Fagradalsfjall minnkað töluvert. Um sama leyti rofaði til á gosstöðvunum og vefmyndavélar sýna litla sem enga virkni í gígnum. Of snemmt er að segja til um hvort þetta séu goslok, fyrir nokkrum dögum varð um sólarhringshlé í virkninni áður en hún tók sig upp aftur. Við munum fylgjast með gangi mála og meta stöðuna betur á morgun.“