Fjórir þekktir undirheimahrottar frá Akureyri voru dæmdir til fangelsisvistar fyrir hrottalegar líkamsárásir og frelsissviptingu. Þeir eru Daniel Christensen, einnig þekktur sem Danni danski, Elmar Þór Sveinarsson, Ísak Logi Bjarnason og Sindri Snær Stefánsson, einnig þekktur sem Sindri sýra. Félagi þeirra frá Reykjavík, Víðir Ernir Ómarsson, hlaut einnig dóm í sama máli.
Árásirnar sem mennirnir eru dæmdir fyrir eiga það allar sammerkt að hafa verið hrottalegar en þær voru framdar á árun 2017 og 2019. Ísak kastaði til að mynda hníf í bak brotaþola fyrir utan heimili ömmu hans og rak skæri upp í nefið á öðrum. Danni danski sló einn í höfuðið með hamri og Sindri sýra brenndi annan með sígarettu á vinstra handarbak.
Danni danski var ákærður fyrir hrottalegar líkamsárásir. Samkvæmt dómnu ruddist hann, í félagi við tvo aðra sem sýknaðir voru í málinu, tvisvar á einum degi inn á heimili tveggja aðila og börðu þá með klaufhamri og hnefum. Lýsingarnar eru hrottalegar en lýsingu kváðust brotaþolar hafa verið „lamdir þó nokkuð oft með hamri“ og óttast um líf sitt. Þá Tilgangur árásarinnar var sá að fá brotaþola til að draga til baka eða breyta framburði sínum í öðru sakamáli gegn Danna.
Frelsissvipting og hnífaárás
Danni, Elmar Þór, Ísak Logi, Sindri Snær og Víðir Ernir voru allir dæmdir fyrir að hafa svipt einstakling frelsi í meira en fimm klukkustundir vegna fíkniefnaskuldar við Danna. Maðurinn óttaðist um líf sitt í haldi mannanna enda voru fingur hans afmyndaðir með töng, skærum stungið upp í nef hans, hann sleginn með hamri og brenndur með sígarettum.
Ísak Logi og Sindri Snær voru einnig ákærðir fyrir tilraun til manndráps eftir stórhættulega líkamsárás þar sem þeir stungu mann með hnífi í bringuna og bakið. Við illan leik náði maðurinn að komast inn til ömmu sinnar og sleppa undan tvímenningunum. Svona er árásinni lýst í dómnum:
„Af frásögn brotaþola er síðan fylgdi má ráða að Sindri Snær hafi stungið hann í brjóstkassa, brotaþoli náð að bera hægri hönd sína fyrir hnífslagið og þá skorist á litla fingri, hann síðan sparkað í fætur Sindra Snæs, hlaupið í átt að húsi ömmu sinnar, ákærði Ísak Logi elt hann, kastað hnífi í bak hans er brotaþoli kom að húsinu, brotaþoli náð að draga hnífinn úr sárinu, hent honum í garð nágrannans, síðan dottið í götuna, ákærði þá stokkið á hann með þeim afleiðingum að höfuð brotaþola dúndraðist í götuna, ákærði því næst dregið fram kylfu og slegið henni í bak brotaþola. Brotaþoli hafi svo náð að sparka í pung ákærða, hann við það látið sig hverfa, brotaþoli bankað á glugga hjá ömmu sinni og hún hleypt honum inn.“
Sjáfur djöfullinn
Tvímenningarnir réðust einnig á tvo aðra menn inn á heimili annars þeirra og rústuðu íbúð þeirra. Við yfirheyrslu bar Sindri fyrir sig mikilli vímuefnaneyslu þar sem hann sagðist hafa trúað því að hann væri sjálfur djöfullinn.
Danni var dæmdur í 22 mánuði. Elmar dæmdur í 15 mánaða fangelsi. Ísak Logi í 18 mánaða fangelsi. Sindri Snær í 18 mánaða fangelsi. Víðir Örn 10 mánaða fangelsi.