Sjónvarpsstjarnan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir prófar ávallt nýjar uppskriftir fyrir hver jól í bland við hinar gömlu góðu sem hún segir ómissandi yfir hátíðina. Hún segir sörur, piparkökur og marenstoppa þó alltaf njóta mestra vinsælda á heimilinu.
Eva Laufey segir mikið hafa verið bakað á sínu æskuheimili og minnist hún ljúfra stunda með mömmu sinni og ömmu í eldhúsinu á aðventunni. „Mér fannst æðislega gaman að fylgjast með þeim baka loftkökur, ég veit ekki af hverju en í minningunni er það mesta sportið. Ég hef sjálf ekki prófað að baka þær en ég þarf klárlega að gera það einn daginn. Ég var og er mjög mikið fyrir smákökur og vissi nákvæmlega hvar kökuboxin voru geymd þegar ég var lítil enda var ég ansi lunkin við að ná mér í eina og eina köku.
Ég var og er mjög mikið fyrir smákökur og vissi nákvæmlega hvar kökuboxin voru geymd þegar ég var lítil.
Að mínu mati er bakstur eitt af því sem er ómissandi hefð á aðventunni, og nóg af kertum. Það er svo notalegt að baka á aðventunni og ég byrja yfirleitt í nóvember að baka og skreyti svo heimilið strax í byrjun desember. Ég setti meira að segja jólatréð okkar upp í byrjun desember sem manninum mínum fannst til að byrja með svolítið galið en ég náði að sannfæra hann að þessi tími er stuttur og það er einstaklega notalegt að leyfa heimilinu að vera í jólabúningi. Sérstaklega þegar dagarnir eru dimmir og kaldir eigum við að njóta þess að hafa svolítið huggulegt í kringum okkur. Þess vegna ættum við að vera óhrædd við að skreyta miklu fyrr, ég las það í grein fyrir stuttu að þeir sem skreyttu fyrr væri hamingjusamari en aðrir. Ég sel það ekki dýrar en ég keypti það, ekki færi Internetið að ljúga þessu.“
Aðspurð hvað kalli fram jólaskapið nefnir Eva Laufey fyrst jólasnjóinn.
„Bakstur og heitt súkkulaði með rjóma, og jólalög koma mér í jólaskapið. Það er ótrúlega fyndið, einn daginn ertu í engu jólaskapi og skilur ekkert í þessu áreiti frá búðum að auglýsa jólavörur og annað slíkt, fussar yfir því hvað þetta byrjar snemma og hinn daginn ertu skælbrosandi í bílnum að hlusta á hugljúf jólalög að plana jólabaksturinn og auglýsingar um jólaseríur hitta beint í mark og þú ert rokin í næstu verslun að kaupa jólagjafir. Ég er sem sagt komin í þann gír og vonandi helst hann alveg fram í janúar.“
Bakstur og heitt súkkulaði með rjóma, og jólalög koma mér í jólaskapið.
Marensterta með ljúffengri Mars-súkkulaðisósu og ferskum berjum
Þetta er uppskrift að eftirlætismarenstertunni minni en mér þykir hún einstaklega góð og svo er hún afskaplega þægileg sem er mjög mikill kostur, sérstaklega um jólin og í rauninni bara þegar mann langar að gera vel við sig. Þessi terta slær alltaf í gegn og er skotheld. Ég vona að þið eigið eftir að njóta hennar í botn. Svo er hún líka bara svo falleg og jólaleg.
MARENSBOTN
4 eggjahvítur
2 dl sykur
1 dl púðursykur
2 dl Rice Krispies
Hitið ofninn í 150°C með blæstri. Þeytið eggjahvítur þar til byrjar að freyða í skálinni, bætið þá sykrinum smám saman við og þeytið vel saman þar til
marensblandan er orðin stíf. Merjið Rice Krispies og blandið varlega saman við deigið í lokin. Setjið marensblönduna á pappírsklædda ofnplötu og myndið hring. Bakið við 150°C í 45-50 mínútur.
MARSKREM
4 eggjarauður
3 msk. sykur
150 g Mars-súkkulaði
70 g suðusúkkulaði
70 g smjör
OFAN Á KÖKUNA
300 ml rjómi
fersk ber
Mars-súkkulaði
Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður mjög létt og ljós. Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti við vægan hita, kælið aðeins og bætið síðan saman við eggjarauðurnar. Setjið kremið yfir marensbotninn og síðan fer þeyttur rjómi yfir og í lokin er kakan skreytt með ferskum berjum og smátt skornu Mars-súkkulaði.
Myndir / Aldís Pálsdóttir