Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

„Allt sem ég geri, geri ég fyrir hana“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Með sitt síða ljósa hár, tindrandi blá augu, bros og hlátur sem var bjartari en sólin, segir Hrönn Ásgeirsdóttir, móðir Lovísu Hrundar Svavarsdóttur, að þannig hafi hún lýst allt upp hvert sem hún fór. Rúm fimm ár eru nú liðin frá því að Lovísa Hrund lést í hræðilegu slysi og myrkrið dundi yfir.  Hrönn hefur síðastliðin ár unnið að því að endurbyggja líf sitt eftir að það hrundi til grunna. Hún prýðir nýjustu forsíðu Vikunnar og dregur ekkert undan í einstöku viðtali.

,,Saga Lovísu Hrundar er í raun mjög merkileg,“ segir Hrönn. „Hún var svo góð stelpa, mikill húmoristi, brosmild og falleg sál. Það var svo gaman að vera með henni. Öll börn eru að sjálfsögðu æðisleg, og öll mín börn eru það. En Lovísa Hrund var einstakur karakter. Hún var ofboðslega barngóð, það var eins og hún væri með innbyggt aðdráttarafl og börn hreinlega soguðust að henni. En hún sagði alltaf að sjálf fengi hún ekki að eignast börn. Það var ótrúlega skrítið, eins og hún vissi,“ segir Hrönn hugsandi. „Hún sagði: „Lífið sér um það.“ Það var eins og hún hafi fundið á sér að hún fengi ekki mörg ár. Elsku Lovísan mín, fagri engillinn minn, sem stoppaði svo stutt hér á jörð.“

 Þetta þurfti ekki að gerast

Lovísa Hrund Svavarsdóttir var aðeins 17 ára gömul þegar hún lést.

Lovísa Hrund átti einstaklega gott samband við foreldra sína, og voru þær mæðgur sérstaklega nánar. „Við vorum algjörar samlokur, vorum alltaf saman, hún var mín besta vinkona. Hún var svakalegur knúsari og var alltaf að finna upp á einhverju til að gleðja aðra. Daginn sem hún lést knúsaði hún mig innilega í síðasta skiptið. Hún gekk á móti mér með útbreiddan faðminn og ég man að ég sagði við sjálfa mig að taka nú almennilega á henni, því það færi að styttast í að hún hætti að nenna þessu. Við áttum mjög fallega stund, stóðum lengi og knúsuðumst, ég vaggaði henni fram og til baka. Svona var hún, alltaf að reyna að fá fólk til að líða vel. Allir sem þekktu hana tala um hana á sama hátt, og lýsa henni sem þessari einstöku, hlýju og góðhjörtuðu manneskju sem hún var. Enda varð svo mikil sorg í bænum þegar hún dó, samfélagið hér á Akranesi var sem lamað. Það var líka hvernig þetta gerðist, þetta var svo ósanngjarnt. Þetta þurfti ekki að gerast. Hún var búin að hægja á sér, hún var komin niður í 60 kílómetra hraða og komin út í kant. Hún vissi hvað var að fara að gerast. Þetta var allt svo ósanngjarnt. Þeirri staðreynd er erfitt að lifa með.“

Daginn sem hún lést knúsaði hún mig innilega í síðasta skiptið. Hún gekk á móti mér með útbreiddan faðminn og ég man að ég sagði við sjálfa mig að taka nú almennilega á henni, því það færi að styttast í að hún hætti að nenna þessu.

Það sem Hrönn vísar hér til er slysið örlagaríka, þann 6. apríl árið 2013. Lovísa Hrund var á leið heim frá vinnu, þegar ölvaður ökumaður úr gagnstæðri átt keyrði í veg fyrir bifreið hennar á Akrafjallsvegi. Lovísa Hrund sem var aðeins 17 ára gömul, lést samstundis.

Þetta er aðeins brot úr ítarlegu viðtali við Hrönn, en viðtalið í heild sinni má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar. Meðal þess sem Hrönn ræðir er reiðin sem hún ákvað að takast á við og verðlaunarannsókn hennar á gleymdum hópi í kerfinu; foreldrum sem missa börn af slysförum. Hún segir einnig frá merkjum sem henni hafa borist frá Lovísu Hrund sem sannfærðu hana um að til sé líf eftir þetta líf.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

Hrönn Ásgeirsdóttir prýðir forsíðu jólablaðs Vikunnar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -