Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Ótrúlegur blekkingarleikur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni:

Ég skildi við fyrri manninn minn seint á tíunda áratug síðustu aldar og var ekkert að flýta mér í annað samband. Ég ætlaði að byggja upp gott líf fyrir mig og dætur mínar tvær. Þetta var ekki auðvelt og einstæðar mæður hafa það sjaldan gott. Þegar ég kynntist Sigurði taldi ég mig hafa fundið ábyrgan og öruggan mann. Hann hafði farið í meðferð en var ákveðinn í að halda sér edrú og sagði mér að öll óregla væri að baki.

Sigurður var sjö árum eldri en ég og vegna þess hve varlega ég vildi fara gerðist allt mjög hægt. Við hittumst fyrst í samkvæmi og tveimur vikum seinna hrindi hann í mig og bauð mér í kaffi. Nokkur fleiri skemmtileg stefnumót fylgdu í kjölfarið og það var ekki fyrr en eftir nokkrar vikur að við kysstumst fyrsta kossinum. Fimm mánuðum seinna flutti hann inn til mín. Þá taldi ég mig hafa fengið góða innsýn í persónuleika hans og var farin að treysta honum.

Ég átti mína íbúð en hann leigði svo þetta var mun hagkvæmara og eðlilegra. Hann var ágætlega menntaður og rak eigið fyrirtæki með vini sínum. Sigurður var með góðar tekjur og við fundum strax fyrir því að lífið varð léttara. Ári eftir að við hófum sambúð var okkur farið að langa að stækka við okkur og keyptum saman stóra fallega íbúð. Ég átti orðið það mikið í minni eign að við gátum borgað hærri útborgun en venja er og fengum auk þess gott greiðslumat því bæði var ég í mjög öruggu starfi og hann gat sýnt fram á góða innkomu í fyrirtæki sínu. Þetta kom sér vel þegar í ljós kom að Sigurður skuldaði lán sem hann hafði fengið veð fyrir í íbúð systur sinnar. Hún vildi eðilega að hann flytti það nú þegar hann átti hlut í íbúð með mér og ég samþykkti veðflutninginn. Í mínum huga var þetta allt óhætt því Sigurður var duglegur að mæta á fundi og passa að rækta það sem hann þurfti til að standa sig í sinni edrúmennsku.

Byrjaði aftur að drekka

Allt gekk okkur í haginn. Við giftum okkur sextán mánuðum eftir að við kynntumst og eignuðumst dóttur fjórum mánuðum síðar. Nýja stóra íbúðin varð fljótt of lítil og enn var ákveðið að stækka. Við keyptum okkur fallegt hús og unnum mikið til að eignast það, enda draumur okkar beggja. Á sama tíma vorum við dugleg að rækta fjölskylduna, meðal annars ferðuðumst við mikið innanlands og fórum í utanlandsferðir með börnin þegar við sáum spennandi ferðakosti. Lífið var þó ekki áfallalaust. Eitt sinn lentum við í alvarlegri bílveltu þar sem allir slösuðust en til allrar lukku ekki verr en svo að við náðum okkur að fullu.

- Auglýsing -

Upp úr því fór Sigurður að drekka aftur. Ég var áhyggjufull til að byrja með en hann virtist hafa góða stjórn á þessu. Þetta var allt ósköp hóflegt, eitt og eitt glas af víni hér og þar. Ég tók hins vegar eftir að hann drakk mikinn pilsner en ég hélt að það væri svo sem í lagi, enda taldi ég hann lausan við alkóhól. Eftir á átta ég mig auðvitað á því að pilsnerinn nærði löngun hans og var nægilega líkur bjór til að kveikja aftur á gömlu drykkjuvenjunum. Við sátum þess vegna á púðurtunnu og alltaf bara tímaspursmál hvenær hún springi.

Á sama tíma fór spennan í samskiptum hans við mig og börnin vaxandi. Hann var oft snöggur upp og reiðin bitnaði oftast á mér en líka iðulega á stelpunum. Einstaka sinnum réð hann ekki við sig og sleppti sér þegar aðrir sáu til. Að því kom að ég áttaði mig á að þetta var ekki í lagi. Við vorum farnar að læðast um þegar hann var heima og reyndum alltaf að passa okkur að gera ekkert sem farið gæti í taugarnar á honum. Ég bað hann þess vegna um skilnað en hann var fljótur að svara og segjast vilja hætta aftur að drekka. Hann þyrfti ekki að fara aftur í meðferð því hann kynni þetta allt en yrði að fara aftur að sækja fundi af fullri hörku. Hann fullvissaði mig um að skap hans myndi lagast mikið við það og allt yrði aftur eins og það var þegar við byrjuðum saman.

Taldi allt á uppleið

- Auglýsing -

Ég trúði honum. Þótt ég vissi að hann hefði áður drukkið allt frá sér og ég gaf honum annan séns. Næstu árin gekk á ýmsu. Við gengum í gegnum hrunið, eins og aðrir, en eftir það varð sjálfstæður atvinnurekstur hans nánast gjaldþrota. Þeir höfðu litla vinnu, stundum bara þrjátíu til áttatíu tíma í mánuði. Ég og dæturnar öfluðum þeirra tekna sem þurfti til að halda öllu gangandi. Ég var auðvitað í fullri vinnu en auk þess fór ég að selja álfinn fyrir SÁÁ með dætrunum, bera út blöð og fleira til að ná í aukatekjur. Hann hjálpaði okkur stundum en oftast stóðum við í þessu einar.

Hann seldi sig út úr fyrirtækinu tveimur árum eftir hrun en eignarhlutur hans hafði skerst mjög á þessum erfiðu árum. Engu að síður gerðu hinir eigendurnir vel við hann miðað við hvernig verkefnastaðan var. Hann stofnaði eigið fyrirtæki og hafði föst verkefni hjá einum viðskiptavini til að byggja á í byrjun. Hann hafði alla okkar sambúð verið duglegur að vinna og alltaf sinnt starfi sínu vel þegar eitthvað var að gera. Ég vissi ekki betur en allt væri komið á gott ról hjá honum þegar hann legiði sér skrifstofu úti í bæ með húsgögnum, aðgangi að kaffistofu og salernum. Mér fannst það öruggt merki um að allt væri á uppleið.

Alltaf í vinnunni

Sigurður fór til vinnu á hverjum morgni alla daga vikunnar. Hann borgaði sjálfum sér þokkaleg laun, var með bíl á nafni fyrirtækisins og endurnýjaði hann tveimur árum eftir að hann stofnaði það. Sá bíll var mun dýrari en sá fyrri og ég sagði þegar hann kom heim með hann. „Vá, gengur svona vel. Þú getur keypt svona dýran bíl.“ „Já, ekkert mál,“ svaraði hann kampakátur. Skömmu síðar endurnýjaði hann húsgögnin á skrifstofunni og varð ægilega glaður ég kom til að punta með blómum, myndum á veggina og einhverjum smáhlutum.

Ég var líka ánægð og talaði um það við hann þarna hvað mér fyndist stórkostlegt að fyrirtækið gæfi svona vel af sér og hversu fínt við hefðum það. Hann ljómaði allur og jánkaði því sem ég sagði. Skömmu síðar sá ég að hann hafði keypt sér aðgangskort að líkamsrækt og gufubaði á fínu hóteli og skrifað áskriftina á fyrirtækið. Mér fannst þetta fínt. Maður sem vann svona mikið og gekk þetta vel átti skilið að geta slakað á í góðri æfingastöð.

Á þessum tíma var ég viss um að hann væri alveg hættur að drekka. Ég vissi að smásvindl eða fall hafði orðið fimm árum eftir að hann lofaði mér að taka sig á en að öðru leyti hélt ég að hann hefði alltaf verið þurr. Síðastliðið ár fór þó að kvikna hjá mér grunur um að ekki væri allt með felldu. Margítrekað spurði ég hann hvort hann væri að drekka og reyndi að fá skýr svör um stöðu okkar. Hann neitaði ævinlega drykkjunni og mig bara óraði ekki fyrir því að hann væri að ljúga að mér. Þegar hann var utanlands talaði ég oft við hann í síma og í eitt sinn var hann áberandi drukkinn en sagðist hafa verið svona þreyttur þegar ég gekk á hann.

„Að því kom að ég áttaði mig á að þetta var ekki í lagi. Við vorum farnar að læðast um þegar hann var heima og reyndum alltaf að passa okkur að gera ekkert sem farið gæti í taugarnar á honum.“

Stór skattaskuld

Um mitt ár 2018 reið áfallið yfir. Þá kom bréf heim til okkar þar sem upplýst var að hann skuldaði margar, margar milljónir í vörsluskatta með tilheyrandi vöxtum og dráttarvöxtum. Hann hafði safnað upp staðgreiðslusköttum, virðusaukaskatti og tryggingargjaldi til þess eins að geta látið allt líta vel út á yfirborðinu. Ég var þegar þarna var komið sögu löngu hætt að finna fyrir hamingju í hjónabandinu. Við höfðum í nokkurn tíma ekki lifað eðlilegu hjónalífi. Hann fór til læknis og fékk töflur og fleira var reynt en vegna aukaverkana gat hann ekki nýtt sér þessi úrræði eða sagði það. Nú læðist að mér sá grunur að það hafi verið afsakanir til að þurfa ekki að vera í of mikilli nánd við mig.

Fyrstu árin okkar voru frábær hvað þetta varðar en víndrykkja hefur ekki góð áhrif á kynhvöt svo líklega hafa þessar undanfærslur verið hluti af feluleiknum. Hann átti auðveldara með að leyna drykkjunni fyrir mér þegar við sváfum ekki saman lengur. Við höfðum reynt að fara í hjónabandsráðgjöf en það skilaði auðvitað engu. Sannleikurinn var aldrei sagður og flaskan var þriðji aðilinn í hjónabandinu. Það er ekki hægt að lækna neitt ef fíllinn í stofunni er ekki ræddur. Mér varð allri lokið þegar ég komst að þessum skuldum sem hefðu getað gert mig eignalausa. Hann hefði getað verið tekinn gjaldþrotaskipta og misst kennitölu sína og fyrirtækisins. Og það sem meira er farið í fangelsi eða verið dæmdur til samfélagsþjónustu en ég átti góða að sem keyptu hann út og borguðu upp öll vanskilin hans hjá Ríkisskattstjóra.

Seldi húsið

Ég seldi svo húsið okkar til að borga mínu fólki til baka og keypi mér litla íbúð fyrir mig. Dæturnar voru sem betur fer allar fluttar að heiman og farnar að lifa sjálfstæðu lífi. Á fyrstu dögum skilnaðarferlisins fór fólk svo að hafa samband við mig, meðal annars ættingjar hans og segja mér frá hvernig hann hefði alltaf drukkið á bak við mig. Ég fékk líka að vita hvernig þetta lán kom til sem fylgdi honum inn í okkar búskap. Litlu mátti muna að systir hans missti húsið sitt út af honum á sínum tíma en þá fór hann í meðferð örugglega bara til að róa hana.

Nú er ég búin að átta mig á því að hann er fárveikur alkóhólisti. Eftir að ég skildi við hann hefur hann drukkið daglega. Hann fékk fljótt vel launaða vinnu hjá öðrum því hann er klár í sínu fagi. Hann lokaði samt ekki eigin fyrirtæki en enginn veit hvernig bókhaldinu þar er háttað. Ég frétti nýlega að bíllinn hafi verið tekinn af honum vegna nýrra skattaskulda en það segir mér að hann hefur sennilega ekki gert upp skatta síðastliðið ár. Hann leigir fína íbúð og laun hans hefðu auðveldlega átt að duga fyrir rekstri og afborgunum af bíl að auki ef hann hefði haft rænu á að kaupa bílinn persónulega af fyrirtækinu.

En veikindi hans sýna sig ekki eingöngu í óreiðu í fjármálum. Þau lýsa sér líka í framkomu hans við mig. Hálfu ári ári eftir að við skildum fór hann að hóta mér og beita mig andlegu ofbeldi með skilaboðum og tölvupósti. Ég varð að loka á samskipti við hann bæði gegnum samfélagsmiðla og skipta um síma. Við höfðum rætt saman um að við ætluðum að skilja í góðu og vera vinir dætranna vegna og þeirra barnabarna sem við kynnum að eignast í framtíðinni. Það er löngu búið að skipta öllu og skrifa undir fjárskiptasamning og hann hefur fengið að velja allt sem hann vildi úr búinu.

Eftir að hafa verið saman í tæp tuttugu og tvö ár og þar af gift í tuttugu fannst mér það sjálfsagt fyrir utan að ég lét hann fá fullt til viðbótar af gjöfum sem við höfðum fengið frá hans fólki í gegnum tíðina. Hann þurfti ekki einu sinni að hafa fyrir að pakka þessu. Það eina sem hann pakkaði niður voru fötin, allt leirtau, skrautmunir, veiðidót og fleira var frágengið og umbúið af mér. Sjálf fór ég ekki með mikið út úr búinu og til að fylla upp í litlu íbúðina sem ég keypti fékk ég gefins sófaborð, annað borð, hillu, stól og fleira enda fékk hann það stærsta og dýrasta. Þrátt fyrir það fór hann á hliðina þegar ég var ekki tibúin að láta hann hafa meira úr búinu og ætlaði að neita að skrifa undir lögskilnað.

Á síðustu stundu bjargaðist það, sennilega var hann kominn með kærustu þegar sýslumaður boðaði hann á sinn fund. En þetta hefur verið algjört helvíti fyrir yngstu dóttur mína. Hana eigum við saman og hún er meðvirk með honum án þess þó að gera sér grein fyrir því. Ég tala helst ekki um hann við hana og spyr hana aldrei um hann. Eldri stelpunum hefur hann lítið sinnt nema hann sjái að hann geti haft eitthvað gott af þeim. Núna sé ég í raun eftir að hafa bjargað honum úr snörunni. Ef niðurstaðan hefði orðið sú að hann hefði misst allt og kannski þurft að sitja inni gæti hann hugsanlega hafa lært eitthvað af þessu. Hann hefur hins vegar enga iðrun sýnt og aldrei beðist fyrirgefningar á neinu af því sem hann kallaði yfir okkur. Ég er líka fegin að vera laus úr þessum ömurlegu aðstæðum þótt ég þurfi að vinna tvöfalda vinnu til að komast af. Ég reyni að einbeita mér að því að sinna dætrum mínum og barnabörnum sem nú eru orðin tvö og veit að einhvern tíma mun ég sjá fram úr fjárhagsörðugleikunum sem hann kallaði yfir mig.

Lífsreynslusaga úr Vikunni. Í hverri viku birtast spennandi lífsreynslusögur. Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í áskrift.

Fylgstu með Lífsreynslusögur Vikunnar á Facebook. Lífsreynslusögur er hlaðvarp þar sem blaðakonan Guðrún Óla Jónsdóttir les áhugaverðar lífsreynslusögur úr Vikunni. Í hverjum þætti eru fimm sögur lesnar. Þættirnir koma inn á Spotify og Storytel.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -