Upplifunarhönnuðurinn, mannræktarmógúllinn, markaðsspekúlantinn og sælkerinn Þóra Hrund Guðbrandsdóttir hefur ákveðið að selja glæsilegu útsýnisíbúðina sína í Kópavogi.
Íbúð Þóru Hrundar er í flottu fjölbýlishúsi á einum hæsta stað Kópavogs og sést frábærlega vel yfir höfuðborgarsvæðið úr íbúðinni.
Þóra Hrund er fræg fyrir góðan smekk og heimili hennar er afar fallegt. Það má segja að stíllinn sé klassískur og afar vandaður; í stofunni má sjá svarta leðurstóla sem hægt er að snúa, en þeir voru af Þóru Hrund sérvaldir inn í íbúðina í þeim tilgangi að hægt væri að njóta útsýnisins frábæra sem best og mest.
Íbúðin er engin smásmíð – tvö hundruð fermetrar að stærð; með fjórum svefnherbergjum og bílskúr sem segir sex. Þá er hjónaherbergið mjög rúmgott; með stórum fataskáp; einnig er útgengt á svalir í austurátt.
Íbúðin myndi seint flokkast sem ódýr, eiginlega frekar andstæða þess orðs: Hún fæst á litlar hundrað tuttugu og sjö milljónir króna.
Það má alltaf láta sig dreyma, en ef það er ekki málið þá er um að gera að njóta myndanna úr þessari glæsilegu íbúð Þóru Hrundar við Austurkór í Kópavogi.