Aðalheiður Sigurbjörnsdóttir, oftast kölluð Alla, lést á Spáni 9. júní síðastliðinn. Hún verður jarðsungin í dag frá Fáskrúðsfjarðarkirkju.
Aðalheiður fæddist í Reykjavík 28. apríl 1961 og var því sextug er hún lést eftir veikindi. Hún lætur eftir sig tvö börn.
Aðalheiðar er minnst fyrir dugnaðar og er sögð hafa verið vel liðin hvar sem hún kom. Uppeldissystir hennar minnist hennar með hlýju. „Við vorum eins og bestu systur og góðar vinkonur og oft var gaman hjá okkur í sveitinni. Já Alla mín, það er margt sem hægt er að tína til, þið fóruð í sólina sem þið dýrkuðuð. Þið Tóti fóruð til Spánar í maí sl. og áttuð pantað far heim aftur í byrjun júní en það breyttist. Þú veiktist og lentir á spítala þar sem þú lést sólarhring seinna. Þá eruð þið þrjú systkini mín farin til sumarlandsins, Gummi, Gaui og þú en lífið heldur áfram.“
Vinkona Aðalheiðar fer einnig hlýjum orðum um hana í minningargrein í Morgunblaðinu. „Þá er komið að kveðjustund elsku vinkona. Já, það haustaði snemma þetta árið. Þvílíkt högg. Þú varst einstök manneskja, svo ofurdugleg. Eins margt og þú ert búin að þurfa að ganga í gegnum og þola þá var uppgjöf ekki til í þinni orðabók, bara áfram gakk og hana nú. Minningin lifir um stórkostlega konu.“
Önnur vinkona Aðalheiðar minnist einnig góðrar vinkonu. „Elsku vinkona. Komið er að kveðjustund sem kom allt of fljótt. Margs er að minnast. Áttum við margar góðar stundir í sólinni sem ylja núna, Alla mín, þegar þú ert komin í sumarlandið. Það var erfitt að ganga í gegnum veikindin með þér í febrúar í fyrra, það var ótrúlegt að þú skyldir rísa úr rekkju. En seiglan í þér, þú varst ekki tilbúin að gefast upp. En svo núna í júní kom tími þinn, elskuleg. Gengin er er góð kona.“
Mannlíf vottar aðstandendum Aðalheiðar samúð.