Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.9 C
Reykjavik

Urðu vegan eftir að horfa á Cowspiracy

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir þremur árum horfðu þau Þórdís Ólöf og Aron Gauti á heimildarmyndina Cowspiracy en í henni er fjallað um hvernig dýralandbúnaðurinn sé helsta orsök mengunnar, vatnsnotkunnar og eyðingu regnskóga í heiminum. Næsta dag ákváðu þau að gerast vegan.

Þau hafa sankað að sér ýmsum fróðleik og komust að því að veganismi er ekki einungis umhverfisvænn lífsstíll heldur einstaklega heilsuvænn. Þau segjast vera vegan í dag fyrir dýrin, umhverfið og heilsuna. Við fengum þau til þess að deila með okkur þremur auðveldum uppskriftum að veganréttum sem ættu að hvetja fólk til heilbrigðari lífshátta á nýja árinu.

Hver var mesta áskorunin við að verða vegan til að byrja með? Ólíkt því sem margir halda þá var lítið mál að breyta sjálfu mataræðinu. Helsta áskorunin var hins vegar viðbrögð margra í kringum okkur en við mættum víða fordómum og jafnvel andstöðu. Besta svarið við slíkum fordómum er bara að halda sínu striki og láta skoðanir annarra ekki á sig fá, enda sýndu líka margir okkur stuðning, áhuga og skilning.

Hver er mesta mýtan í kringum veganisma? Helsta mýtan er sú að grænkerar fái ekki nóg prótín. Staðreyndin er hins vegar sú að það er feikinóg prótín að fá úr plönturíkinu. Fjöldi íþróttamanna hefur kosið að gerast vegan og það sýnir að mýtan um „veikburða grænmetisætuna/veganistann“ á ekki við nein rök að styðjast.

Helsta áskorunin var hins vegar viðbrögð margra í kringum okkur en við mættum víða fordómum og jafnvel andstöðu.

Hvað er ómissandi í eldhús veganista? Okkur finnst mikilvægast að halda opnum hug og vera til í að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Þar fyrir utan finnst okkur góð matvinnsluvél algjört lykilatriði.

Hver er uppáhaldsuppskriftin ykkar? Við þróuðum nýlega uppskrift að heimatilbúnum osti sem er gerður úr kasjúhnetum. Sú uppskrift er í algjöru uppáhaldi hjá okkur en osturinn er einfaldur, hollur og virkilega bragðgóður. Hægt er að finna uppskriftina á síðunni okkar.

Með hverju mælið þið við fólk sem hefur áhuga á að prófa sig áfram í veganfræðum? Þegar tekin eru skref inn í heim vegan-lífsstíls þá eru fæstir sem verða vegan „á einu kvöldi“ líkt og við gerðum. Það tekur tíma og vinnu að breyta um lífsstíl og mikilvægast er að gefast ekki upp. Við mælum einnig með því að fólk kynni sér staðreyndir og hugmyndafræði veganisma því enn er talsvert um fordóma og lífseigar mýtur sem erfitt er að útrýma, sama hversu oft þær eru afsannaðar.

- Auglýsing -

Almennt er talað um þrjár meginástæður fyrir því að fólk gerist vegan; dýravernd, umhverfisvernd og heilsa. Þegar við urðum vegan fannst okkur gott að átta okkur á því hvaða ástæður lægju að baki okkar ákvörðun og gátum þannig minnt sjálf okkur reglulega á það.

Morgungrautur

Grunnur:

1 dl hafrar
1 msk. chia-fræ
1 dl vegan-jógúrt
1-2 dl plöntumjólk
½ tsk. hlynsýróp eða 2-3 dropar stevía
salt

- Auglýsing -

Setjið öll hráefnin í hrærivél og hrærið saman í 10-20 mín. Setjið grautinn síðan í ílát og geymið í kæli yfir nótt. Það má sleppa því að nota hrærivél og setja hráefnin beint í ílát, hrista rétt svo saman og setja í kæli. Með því að nota hrærivél þá verður grauturinn hins vegar léttari og loftkenndari.

Tilbrigði:

fersk jarðarber
1 tsk. vanilla, eða vanilludropar
1 tsk. sítrónusafi
sítrónubörkur, af hálfri sítrónu

Setjið skorin jarðarber, rifinn sítrónubörk, sítrónusafa og vanillu út á grautinn áður en hann er settur í kæli og blandið létt saman. Morguninn eftir er gott að setja t.d. möndluflögur og skorinn banana út á grautinn.

Hummuspasta

200 g pasta
1 askja sveppir
200 g brokkólí
1 laukur
100 g spínat
3 dl hummus (heimagerður eða úr búð)
1 dl pastasoð
1 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
2 tsk. sítónusafi
salt og pipar

Skerið lauk, sveppi og brokkólí niður og steikið á pönnu þar til sveppirnir hafa mýkst. Sjóðið pastað nokkrum mínútum styttra en leiðbeiningar segja til um. Sigtið vökvann frá en haldið 1 dl eftir. Setjið 1 dl af vökvanum, hummus og kókosmjólk út á pastað og hrærið vel saman. Bætið lauk, sveppum og brokkólíi út í pastað, ásamt spínati. Sjóðið þar til pastað er orðið mjúkt. Bætið loks við sítrónusafa og kryddið með salti og pipar eftir smekk.

 Heimagerður hummus

1 dós kjúklingabaunir
1 msk. tahini
1 msk. sítrónusafi
1-2 hvítlauksrif
1 tsk. tamarind-sósa eða sojasósa
1/2 tsk. cumin salt og pipar
cayenne pipar

Setjið sítrónusafa, tahini og kjúklingabaunir í matvinnsluvél og blandið þar til silkimjúkt. Bætið því næst hinum hráefnunum út í og blandið saman í nokkrar sek. Ef erfitt er að ná mjúkri áferð getur hjálpað að bæta við örlitlu vatni.

Indverskt dal

1 laukur
2 hvítlauksrif
1 msk. ferskt engifer
2 tsk. garam masala
1 tsk. cumin
½ tsk. karrý
cayenne pipar eftir smekk
½ blómkálshaus
300 g gulrætur
3 dl rauðar linsubaunir
6 dl vatn
1 dós kókosmjólk, þykk
1 grænmetisteningur
1 msk. tómatpúrra
3 tsk. sítrónusafi
1 tsk. hlynsýróp
salt

Saxið lauk, hvítlauk og engifer smátt og mýkið í potti, upp úr olíu. Bætið garam masala, cumin, karrý og cayenne pipar út á og steikið áfram í nokkrar mínútur. Skerið gulrætur og blómkálið smátt niður og bætið út í pottinn. Steikið grænmetið í nokkrar mínútur og bætið þá linsubaunum, vatni, kókosmjólk, grænmetistening og tómatpúrru í pottinn. Látið blönduna malla í 30-40 mínútur eða þar til gulræturnar eru mjúkar í gegn. Bætið loks sítrónusafa, hlynsýrópi og salti út í og látið malla í smástund. Smakkið til og bætið við kryddum eftir smekk. Berið fram með hrísgrjónum eða quinoa, jógúrtsósu og naan brauði.

Jógúrtsósa

2 dl vegan-jógúrt
2 dl Oatly sýrður rjómi
½ gúrka
1 hvítlauksrif
2-3 tsk. sítrónusafi salt og pipar

Rífið gúrku smátt á rifjárni og reynið að kreista vökvann frá eins vel og hægt er. Pressið hvítlaukinn og blandið síðan saman öllum hráefnunum. Geymið sósuna í kæli þar til hún er borin fram.

Naan-brauð

3 dl spelt (gróft og fínt)
1 tsk. vínsteinslyftiduft
1 msk. ólífuolía
1 dl vegan-mjólk
salt

Blandið hráefnunum saman og hnoðið deig. Bætið við hveiti ef þarf. Fletjið litlar, þunnar kökur úr deiginu með kökukefli. Þurrsteikið hverja köku fyrir sig á pönnu, við nokkuð háan hita. Snúið kökunum við eftir 1-2 mín, en þá eiga kökurnar að hafa lyft sér og brúnast. Staflið kökunum á disk og berið fram með dalinu. Gott er að dýfa brauðinu í ólífuolíu eða bráðið vegan-smjör og sesamfræ.

Myndir / Aron Gauti Sigurðarson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -