Fyrirtækið N1 hefur nú hafið sölu á lausasölulyfjum í Staðarskála í Hrútafirði.
Fram að þessu hafa þeir sem eru á ferð um þjóðveg 1 þurft að fara marga tugi kílómetra fyrir þessa þjónustu.
Þetta nýjasta – og væntanlega mjög þakkláta – framtak hjá N1 varð að veruleika í byrjun mánaðarins. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið góðar eins og kemur meðal annars fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en þar segir Jón Viðar Stefánsson, forstöðumaður verslunarsviðs N1
„að við erum auðvitað mjög ánægð með að geta boðið viðskiptavinum okkar, íbúum í Hrútafirði og nágrenni upp á þessar mikilvægu vörur; en til þessa hafa lausasölulyf verið ófáanleg nema á Hvammstanga – sem er í 34 kílómetra fjarlægð eða í Borgarnesi sem er í 90 kílómetra fjarlægð.
Já, tímarnir breytast og oftast til góðs, og með þessu geta íbúar á áðurnefndu svæði sparað sér mikinn bensínpening en ekki síður tíma.
Nú er hægt að koma við í Staðarskála og fá sér kaffi og kleinur eða hamborgaratilboð og ná í um leið pakka af Panódíli og Íbúfeni ásamt fjöldanum öllum af lausasölulyfjum.