Katrín Edda Þorsteinsdóttir, verkfræðingur, áhrifavaldur, kattaunnandi og crossfit iðkandi skrifaði á dögunum undir útgáfusamning við bókaforlagið Króníka, frá þessu greindi hún á samfélagsmiðlum sínum í gær.
Í október næstkomandi kemur út dagbók eftir hina fjölhæfu Katrínu Eddu, sem hefur seinustu mánuði unnið að gerð bókarinnar.
Segist hún elska allt sem við kemur skipulagi, venjum, markmiðum, þakklæti, árangri, heilsu og hugarfari. „Ég er því svo þakklát að hafa fengið tækifæri að vinna með Króníka og fá að skrifa og hanna mína eigin dagbók sem tengir öll þessi áhugamál mín saman með léttu „Katrínar-Eddu-yfirbragði“, skrifar hún.
Katrín Edda hefur um árabil verið einn vinsælasti áhrifavaldur Íslands. Á Instagram er hún dugleg að deila frá sínu daglega lífi í Þýskalandi, þar sem hún býr og starfar.
Katrín Edda iðkar Crossfit og aðrar æfingar af miklu kappi og hugar vel að mataræðinu, þó hún leyfi sér inn á milli að gæða sér á súkkulaði, enda þekkt fyrir að vera mikill súkkulaðigrís. Hún er iðin við að deila með fylgjendum sínum æfingum, uppskriftum að því sem hún borðar og fleiri fróðleik.
„Ég get ekki beðið eftir lokaútkomunni. Takk öll fyrir að hjálpa mér að velja litina. Hún mun koma út í október í þremur litum,“ skrifar Katrín Edda að lokum stolt.