Hjónakornin Edda Borg og Bjarni Sveinbjarnarson kynntust í gegnum blaðaauglýsingu þegar Edda var 16 ára og Bjarni 19 ára. Þau eru bæði tónlistafólk, hún er píanóleikari en hann bassaleikari og var það tónlistin sem í raun leiddi þau saman. Blaðaauglýsingin sem þau kynntust í gegnum var nefnilega nátengd tónlist. Viðtal við hjónin birtist á Lifðu núna
Bjarni rak augun í auglýsingu þar sem hljómsveit Axels Einarssonar var að auglýsa eftir bassaleikara. Edda sá sömu auglýsingu en verið var að auglýsa eftir píanóleikara, bassaleikara og söngkonu. „Ég var eiginlega búin að gleyma umsókninni því nokkrir mánuðir höfðu liðið og ég var skyndilega boðuð á æfingu,“ segir Edda. „Ég þurfti að fara í prufu af því þeir þekktu ekkert til mín en þeir komust að því að ég kunni að spila eins og ég hélt fram í umsókninni og var ráðin. Síðan var blásið til æfingar og þar hittumst við Bjarni. Það var ákveðið að renna í lag og þá kom fyrsti áreksturinn“.
Hugsanlega besta útkoma rifrildis
Fyrstu kynni þeirra Eddu og Bjarna voru í raun tengd rifrildi sem átti sér stað þeirra á milli um hljóma. Edda er klassískt menntuð en Bjarni er djassmenntaður svo þau voru alls ekki sammála um hvernig hljómurinn ætti í raun að hljóma. Þau enduðu þó saman eftir allt saman og hafa nú verið saman í 39 ár.
Lætur MS- sjúkdóminn ekki buga sig
Edda Borg er greind með MS – sjúkdóminn og hefur hún tekið þeirri greiningu af æðruleysi og kjark. Eiginmaður hennar er hennar stoð og stytta í baráttunni við sjúkdóminn og segir Edda að hún muni ekki láta hann buga sig. „Edda tók meðvitaða ákvörðun um að láta sjúkdóminn ekki buga sig og hefur haldið áfram að lifa lífinu eins lifandi og frekast er kostur. Hún segist vera búin að vera mjög góð af MS-sjúkdómnum þar til fyrir tveimur árum þegar hún fékk sjónhimnulos á öðru auganu. Það er óskyldur sjúkdómur MS og Edda segir að hægt hefði verið að bjarga sjóninni ef nauðsynleg aðgerð hefði verið framkvæmd strax. „En af því beðið var í fjóra daga eftir lækni til að framkvæma aðgerðina varð óafturkræf skemmd á auganu. Það var klúður og er hundfúlt af því það jók á skerðinguna sem ég verð að sætta mig við“.
Viðtalið má lesa í heild sinni hér.