Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir, vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar, heldur úti síðunni gydadrofn.com en þar fjallar hún um lífsstíl, heilsu, ferðalög og tísku. Það var því ekki úr vegi að skyggnast inn í fataskáp Gyðu Drafnar enda margt fagurt þar að finna.
Gyða Dröfn er fædd og uppalin á Akureyri en hefur undafarin ár verið búsett í Garðabæ. Hún lærði sálfræði við Háskóla Íslands með áherslu á markaðsfræði sem hún segir að reynist sér vel í núverandi starfi.
„Ég myndi segja að stílinn minn væri frekar kvenlegur og fínlegur og undir sterkum asískum áhrifum. Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið. Ég er yfirleitt alltaf í einhverju ljósu að ofan og nota mikið léttar skyrtur og kimonoa. Ég er líka mjög hrifin af því að Buffalo-skór eru komnir aftur í tísku og mig dauðlangar að fjárfesta í pari. Þar sem ég er ekki mjög hávaxin er þetta trend einstaklega praktískt fyrir mig. Þessu fylgir ákveðin nostalgía þar sem ég átti Buffalo-skó þegar ég var yngri og tek því fagnandi á móti þeim aftur.“
Ég elska létt og flæðandi efni í ljósum litum, í bland við asísk munstur og snið.
Aðspurð hvaðan Gyða Dröfn sæki innblástur segist hún horfa mikið til Instagram.
„Ég fylgist bæði með einstaklingum og verslunum þar og fæ innblástur af myndum frá þeim. Annars versla ég mikið bæði erlendis og á Netinu en einnig hér heima. Erlendis eru verslanirnar & Other Stories og Urban Outfitters í miklu uppáhaldi. Ég skoða mikið vefverslanirnar Asos og Na-kd, og kíki svo oftast í Zara, Vero Moda, Springfield, Gallerí og Húrra hér heima. Ég á alltaf mjög erfitt með mig þegar kemur að kimonoum og ég held ég eigi í kringum fimmtán stykki. Það er bara eitthvað við sniðið og fallegu mynstrin á þeim sem ég stenst alls ekki.“
Myndir / Aldís Pálsdóttir