Þjálfari Esbjerg í dönsku B-deildinni í fótbolta, Þjóðverjinn Peter Hyballa, sem tók nýverið við stjórnartaumunum af íslenska þjálfaranum Ólafi Kristjánssyni, sem var látinn taka hatt sinn og staf þann 10. maí síðastliðinn, er afar umdeildur svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Peter er mjög óvinsæll á meðal leikmanna félagsins, sem vilja láta reka hann. Hann er sagður beita óhefðbundnum, hörðum og mjög umdeildum aðferðum á leikmenn sína; sérstaklega andlegum.
Tveir íslenskir leikmenn, Andri Rúnar Bjarnason og Ísak Óli Ólafsson, eru samningsbundnir danska liðinu, en ekki hefur komið fram hvort þeir séu í þeim hópi leikmanna sem vilja þann þýska burt með hraði.
Margir leikmenn innan raða danska félagsins hafa kvartað við stjórn félagsins undan aðferðum Peters og segja að Þjóðverjinn refsi leikmönnum mjög mikið á andlegan hátt ef þeir geri einhver mistök. Komið hefur fram þjálfarinn hafi tekið í leikmenn sem hafa véfengt aðferðir hans og sagt við þá, svo allir viðstaddir hafi heyrt til, eitthvað á þessa leið:
„Hver í andskotanum heldurðu að þú sért? Þú sem ert með stærri brjóst en kærastan þín!“
Kvartanir leikmannanna yfir hegðun Peters eru komnar inn á borð leikmannasamtaka Danmerkur og verður fundað um málið hjá samtökunum í dag.
Heimild: Jydske Vestkysten