Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Afrek að vera ekki laminn

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Daníel Hjálmtýsson, sem margir kannast við úr sveitinni HYOWLP sem náði vinsældum með laginu Afterglow árið 2018, var að senda frá nýtt lag, Treehouse. Lagið er hluti af plötu sem Daníel er með í smíðum og er væntanleg í kringum tónlistarhátíðina Airwaves, en í laginu þykir hann sýna á sér nýja hlið.

 

„Þetta lag kallast á við lagið Birds, sem ég sendi frá mér í janúar. Það lag snérist um baráttu í myrkinu og í því notaðist ég töluvert við strengi, hljóðgervla og keyrslu. Treehouse er léttara og ljúfara þjóðlegt popp með fókus á ást og þakklæti fyrir það liðna. Ég ákvað að gefa lagið út á vorjafndægrum af því að fyrir mér táknar það sólarupprás og yl eftir kalda og dimma nótt. Þetta er án efa bjartasta lagið sem hefur heyrst frá mér hingað til,“ segir Daníel um nýja lagið.

Hann segir að það hafi tekið á sig mynd síðasta sumar. „Ég og Bjarni í Mínus vorum að spila útlagakántrýtónlist hér og þar, eins og við höfum verið að gera af og til síðustu ár, oftar en ekki í slagtogi við Krumma. Strákarnir hvöttu mig til að klára það, en ég samdi lag og texta og syng inn allar raddir, spila á nokkra kassagítara, leik á píanó og slagverk en þar hjálpar Skúli mér líka. Hálfdán sér svo um að negla inn bassann eins og áður. Einar Vilberg sá um upptökur, hljóðblöndun og jöfnun í Hljóðverki og Bjarni skreytti lagið aðeins, eins og heyrist svo vel og fallega.“

Rekinn fyrir stjórnsemi

Daníel, sem er uppalinn í Fellahverfinu í Breiðholti, segist snemma hafa fengið áhuga á tónlist. „Ég söng og dansaði sem krakki fyrir fjölskyldu og vini og byrjaði að framkalla hljóð með badmintonspöðum, Machintosh-dollum og öðru dóti sem ég fann þar til ég fékk gefins leikfangahljóðfæri. Þá var ég sendur í Rokklingaskólann sáluga, tónlistarskóla og barnakóra,“ rifjar hann upp og segist svo hafa stofnað fyrsta bandið sitt, Einangrun, í bílskúr í Fellunum eftir að hafa fengið gítar að gjöf þegar hann var 10 ára. Á endanum hafi hann hins vegar verið rekinn úr sveitinni fyrir stjórnsemi.

„Það var mikil „tragedía“ á þeim tíma en í dag finnst okkur þetta vera stórkostlega fyndið. Ég ætlaði mér að sigra heiminn en menn voru ekki alveg að nenna svoleiðis stælum þar og þá,“ útskýrir hann og hlær. „Við spiluðum samt okkar fyrsta og eina gigg saman á busaballi 8. bekkjar í Fellaskóla og vorum ekki lamdir eftir á – sem var afrek í þá daga.“

„Það var mikil „tragedía“ á þeim tíma en í dag finnst okkur þetta vera stórkostlega fyndið.“

- Auglýsing -

Breiðskífa í bígerð

Talandi um það þá hefurðu komið víða við á ferlinum og t.d. staðið fyrir vinsælum ábreiðutónleikum til heiðurs ýmsum tónlistarmönnum, þ.á m. Leonard Cohen. Ertu mikill Cohen-aðdáandi? „Cohen kom til mín þegar ég var unglingur og átti bágt og hefur ekki farið frá mér síðan,“ segir hann, „þannig að ég neita því ekki að hann hefur haft mikil áhrif á mig sem skáld, tónsmiður og hugsandi maður. Ég og hljómsveitin mín settum upp tónleika til heiðurs honum fyrir þremur árum og þeir urðu að tónleikaseríu sem virðast engan endi ætla að taka. Það er alltaf uppselt á þá og alltaf jafngaman.“

En hvað með þína eigin tónlist, hvað er fram undan hjá þér? „Núna er ég bara að setja saman band fyrir lifandi flutning á efninu. Við ætlum að nýta vorið í æfingar og sumarið í tónleikahald og svo stendur til að gefa út eina smáskífu til viðbótar í júní og EP-plötu í kringum Iceland Airwaves. Síðan erum við að skoða einhver vídeóverk og fleira spennandi en það er það sem gerir þetta svona skemmtilegt, þetta frelsi sem ég upplifi í tónlistinni. Mér líður best þegar ég hef frelsi til að semja og spila það sem ég vil, en ekki það sem ég held að aðrir vilji. Alveg eins og tónlist á að vera.“

- Auglýsing -

Texti / Sigrún Guðjohnsen

Mynd / Karl Sigtryggson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -