Babies-ball á Hressingarskálanum
Annað kvöld, laugardaginn 30. nóvember verður haldið Babies-ball á Hressingarskálanum. Tilvalið tækifæri til að hrista úr sér vetrarhrollinn og hafa gaman. DJ KGB heldur mannskapnum við efnið strax á eftir. Ballið byrjar klukkan 22 og er enginn aðgangseyrir.
Sveimhugar í Stúdentakjallaranum
Hljómsveitin Sveimhugar stígur á stokk í Stúdentakjallaranum annað kvöld, laugardagskvöld og spilar ljúfa tóna. Vinur Sveimhuga, Stefán Þór Friðriksson, byrjar fjörið klukkan 21 og svo stíga Sveimhugar á svið klukkan 21.45. Ókeypis er inn á tónleikana.
Auður og hljómsveit í Gamla bíói
Tónlistarmaðurinn Auður gaf út sína aðra breiðskífu, Afsakanir, í nóvember í fyrra en hún hlaut góðar viðtökur og var valin plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019. Auður ætlar að enda árið með stæl á Græna Hattinum 28. og 29. desember og í Gamla bíói 27. desember klukkan 19.30 og klukkan 22, en hann hélt einmitt eftirminnilega og vel heppnaða útgáfutónleika í Gamla bíói. Nánari upplýsingar á Facebook-síðu tónlistarmannsins, albumm.is og á tix.is.
Útgáfutónleikar Une Misére
Hljómsveitin Une Misére, sem hefur vakið athygli fyrir góða tónlist og líflega sviðsframkomu, heldur tónleika í tengslum við útgáfu sinnar fyrstu plötu, Sermon, í Iðnó þann 14. desember. Tónleikarnir hefjast klukkan 21. Miða er hægt að nálgast á Tix.is.