Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-6.2 C
Reykjavik

„Byrjaði snemma að syngja um sorg og drama“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elín Eyþórsdóttir, betur þekkt sem Elín Ey, hefur komið víða við á ferlinum en hún var að senda frá sér plötuna Gone. Platan er frábrugðin fyrri verkum en bróðir hennar Eyþór Ingi, eða Bleache eins og hann er kallaður í bransanum, pródúseraði plötuna.

 

„Hann er svo „brilliant“ tónlistarmaður. Ég er aldrei eins ánægð með tónlistina mína eins og þegar hann vinnur og pródúserar lögin mín. Hann skilur hvaða hljóðheimi ég leitast eftir og það heyrist vel á plötunni, held ég,“ segir Elín og getur þess að platan hafi verið lengi í vinnslu. „Ég samdi mörg laganna síðustu ár, en þessi fimm fannst mér vera góð heild, í raun eitt heildarverk.“

Elín segir plötuna vera frábrugðna öllu því sem hún hafi gert áður, að því leyti að hún sé nánast öll samin á píanó, en hingað til hafi hún oftast samið á gítar og spili fyrst og fremst á það hljóðfæri. „Fyrri verk hafa verið meira út í „country folk“ á meðan þessi plata er meira „R&B Soul“,“ útskýrir hún. „Nokkuð sem mig hefur alltaf langað til að gera, enda er þetta tónlist sem ég tengi mikið við. Þannig að ég er voða ánægð með þetta.“

Elín er sem kunnugt er dóttir tónlistarfólksins Ellenar Kristjánsdóttur söngkonu og Eyþórs Gunnarssonar, píanó- og hljómborðsleikara, og hefur allur systkinahópurinn verið viðloðandi tónlist. Fyrir utan að hafa unnið með Eyþóri Inga bróðir sínum að tónlist, hefur Elín líka starfað með systrum sínum, Sigríði og Elísabetu, en þær voru saman í hljómsveitinni Sísý Ey, sem gerði m.a. vinsæla ábreiðu af laginu Ain’t got nobody um árið. Í ljósi þess er ekki úr vegi að spyrja hvort Elín hafi fengið tónlistina með móðurmjólkinni eða hvort hún hafi valið að gera tónlistina að ævistarfi. „Ég fékk nú ekki skipulagt tónlistaruppeldi, en þegar foreldrar manns eru í tónlist þá fylgir því oft hangs á æfingum og sándtékkum og viðvera baksviðs á tónleikum, þannig að maður er stanslaust í kringum tónlist, sem er auðvitað geggjað,“ segir hún og bætir við að það að hafa fjölskylduna sína, þetta flotta tónlistarfólk, sér við hlið í dag, sé að sjálfsögðu ómetanlegt.

„Það var þá sem ég samdi fyrsta lagið mitt og tileinkaði það systur minni sem hafði flutt til útlanda. Það særði mig nefnilega svo að hún skyldi yfirgefa mig.“

Hvað var hún eiginlega gömul þegar tónlistaráhuginn kviknaði? „Þegar ég var ellefu ára og fékk klassískan gítar í jólagjöf. Það var þá sem ég samdi fyrsta lagið mitt og tileinkaði það systur minni sem hafði flutt til útlanda. Það særði mig nefnilega svo að hún skyldi yfirgefa mig. Já, ég byrjaði sem sagt mjög snemma að syngja um sorg og drama,“ segir hún og kímir.

Og hvað er það við tónlistina sem heillar? „Það er þegar hún fangar líðan manns og umvefur mann einhvers konar samkennd og maður fær á tilfinninguna að einhver skilji hvernig manni líður.“

- Auglýsing -

En hvar sérðu þig eftir 10 ár? „Mig langar til þess að vera með eigið stúdíó og vera búin að pródúsera einhverjar plötur fyrir aðra,“ svarar hún hiklaust. „Ég myndi áfram vilja gefa út tónlist og vera búin að þroskast og læra miklu meira um það að semja og spila músík.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -