Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Dvelur ekki í fortíðinni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Plata raftónlistarmannsins Yagya, a.k.a. Aðalsteins Guðmundssonar, Old dreams and memories, er væntanleg þann 13. mars næstkomandi. Síðasta plata kappans, Stormur, sem kom út á síðasta ári var mestmegnis kraftmikið laglínulaust teknó út í gegn, og því óhætt að segja að Yagya feti nýjar slóðir á þessari plötu sinni, því hún er melódískari en annað sem tónlistarmaðurinn hefur sent frá sér.

„Ég vissi ekki alveg hvernig tónlistin myndi þróast,“ viðurkennir Aðalsteinn hreinskilnislega fyrir blaðamanni. „Hún bara mótaðist smám saman. Ég ákvað að reyna að blanda saman strengjum og raftónlistinni minni þótt ég kynni það ekki beinlínis. Samdi strengina í tölvunni, sendi nóturnar út til Los Angeles, þar sem þeir voru teknir upp og fékk til baka upptökur sem ég mixaði svo inn í lögin,“ lýsir hann og segist vera ánægður með útkomuna.

Óhætt er að segja að Aðalsteinn fari ýmsar áhugaverðar leiðir á plötunni. Sem dæmi um það fékk hann japönsku söngkonuna Natsuko til að syngja á plötunni ljóð eftir Michizō Tachihara, ljóðskáld og arkitekt frá Tókýó, sem lést úr berklum árið 1939. „Hún söng ákveðna kafla og sendi mér svo upptökurnar frá Kyoto,“ útskýrir hann og getur þess að ljóð Tachihara séu mjög falleg í flutningi Natsuko. Hann bætir við að á lokastigum hafi honum fundist vanta eitthvað „oomph“ í miðkafla plötunnar þannig að hann hafi fengið Óskar Guðjónsson saxófónleikara til að spila spuna á lúðurinn sinn yfir eitt strengjalausa lagið og það hafi komið mjög vel út.

„Ég bara heillaðist af þessu öllu saman, hardcore“-tónlistinni sem Þórhallur og Aggi spiluðu á b-hliðinni, teknóinu í Partyzone og harða teknóinu sem DJ Frímann spilaði.“

Spurður út í tónlistarsköpunina almennt segir Aðalsteinn að eftir að hafa heillast af þýsku naumhyggjuteknói, einkum Basic Channel, Maurizio og GAS, hafi hans eigin hljómur verið tiltölulega sjálfsprottinn. „Hljóðheimur minn einkennist af miklum bassa og frekar mjúkum hljóðum, það er ekki mikið um „transients“. Ég er nánast viss um að það er af því að ég verð svo þreyttur að hlusta á hátíðni í langan tíma,“ játar hann og segist semja tónlistina sína með það í huga að geta hlustað á hana aftur og aftur. Auk þess reyni hann að gera tölvuhljóðin frekar „organic“ með því að bæta við sveiflum í hljóðin og jafnvel suði eða upptökum á lágstemmdum umhverfishljóðum.

Þú varst unglingur á tíunda áratug síðustu aldar, þegar raf- og danstónlist var hvað vinsælust. Hvernig fannst þér þessi tími og hvaða áhrif hefur hann haft á tónlistina þína? „Ég bara heillaðist af þessu öllu saman,“ svarar hann hreinskilinn, „hardcore“-tónlistinni sem Þórhallur og Aggi spiluðu á b-hliðinni, teknóinu í Partyzone og harða teknóinu sem DJ Frímann spilaði.“ Hann segir að þessi tónlist hafi haft mikil áhrif á sig enda hafi hann haldið áfram að gera teknó- og ambient-tónlist í marga áratugi eftir að hafa kynnst henni sem unglingur. Hann segist hins vegar ekki mikið gefinn fyrir nostalgíu, því haldi hann ekki upp á þessa tónlist í dag.

Aðalsteinn segist stundum vera tilraunakenndur í sinni tónlistarsköpun, fari út fyrir línurnar sem skilgreina teknó og ambient, og þar af leiðandi komið fyrir að honum gangi erfiðlega að finna útgáfufyrirtæki sem henti tónlist sinni. Upp á síðkastið hafi hann unnið mikið með hollenska útgáfufyrirtækinu Delsin Records. „Ég og Delsin Records ákváðum að stofna nýtt plötufyrirtæki sem nefnist Small Plastic Animals Þar get ég gefið út tónlist án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að passa inn í eitthvað fyrirfram ákveðið form.“

- Auglýsing -

Hvað er fram undan? „Ég er nú þegar byrjaður á næstu plötu en geri ekki ráð fyrir að klára hana fyrr en á næsta ári. Sú plata kemur einnig út hjá Small Plastic Animals, sem ég er mjög spenntur fyrir; mér er pínulítið létt að þurfa ekki að spá í að láta tónlistina mína passa í eitthvað ákveðið form innan raftónlistargeirans.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -