Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Ég er „90’s baby“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngkonan Elísabet Ormslev sendi nýlega frá sér lagið Heart Beats sem er hennar fyrsta lag og eitt af fjórum nýjum lögum sem munu koma út á EP á næstu vikum. Lögin vann hún með tónlistarkonunni Zöe Ruth Erwin. Elísabet hefur látið að sér kveða í íslensku tónlistarlífi undanfarin misseri með sinni dýnamísku rödd í ýmsum verkefnum. Nú er komið að því að einbeita sér meira að sólóferlinum.

 „Lagið Heart Beats og EP-platan hefur verið í vinnslu í um það bil eitt og hálft ár og verið mjög skemmtilegt og „challenging“ ferli,“ segir Elísabet. Lögin eru í 90’s- og RnB-stíl með poppívafi og Heart Beats án efa poppaðasta lagið á plötunni. Spurð hvers konar tónlist veiti henni innblástur segist hún vera algjör alæta á tónlist. „Mest í uppáhaldi er 70’s-rokk og RnB en 90’s-tímabilið hafði mikil áhrif á mig. Ég er „90’s baby“ og ólst upp við að horfa á PoppTíví og hlusta á allar dívurnar frá þeim tíma,“ segir hún og bætir við að hún vilji meina að tónlist hennar sé endurspeglun af þessu öllu saman. „Ég elska að vinna með dýpt og stóran hljóðheim, blandaðan af live- og midi-hljóðfærum.“

The Voice stökkpallur

Elísabet byrjaði á unglingsárunum að grúska í tónlist og koma fram en hún ólst upp í miklu tónlistarumhverfi. „Ég hef alltaf samið tónlist í laumi en fór ekki að þora að koma henni á framfæri fyrr en síðastliðið eitt og hálfa árið. Hef heldur betur sigrast á þeirri hræðslu núna.“

Árið 2015 tók hún þátt í The Voice þar sem hún sló í gegn. „Það var hrikalega skemmtilegt ferli og svo sannarlega stökkpallur. Þá fór boltinn svolítið að rúlla meira og í kjölfarið tók annað ævintýri við þegar ég tók þátt í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2016. Eftir það fór að verða meira að gera en ég var samt alltaf á bremsunni af því að mig langaði að semja og gefa út mína eigin tónlist en var hreinlega hvorki með sjálfstraustið né drifkraftinn sem ég hef í dag,“ útskýrir hún, en segir svo að hún trúi því einlæglega að allt svona hafi sinn tíma og maður finni þegar maður er tilbúinn.

Þakkar fyrir meðbyrinn

Elísabet hefur unnið náið með tónlistarkonunni Zöe Ruth Erwin en þær kynntust árið 2017 í gegnum manninn hennar, Arnþór Örlygsson eða Adda 800, eins og hann er kallaður. Á þeim tíma bjó Zöe í Los Angeles og fór Elísabet þangað að heimsækja hana. „Við smullum saman eins og harðfiskur og smjör. Þar fæddist fyrsta lagið okkar sem er einmitt eitt af lögunum á plötunni. Síðan þá höfum við haldið áfram að vinna saman en við erum fullkominn kokteill í stúdíóinu. Við hugsum eins, og þegar við fáum hugmyndir þurfum oftast ekki að segja hvað við ætlum að gera fyrirfram því að hin veit nákvæmlega hvað er á leiðinni.“

- Auglýsing -

Spurð hvenær von er á plötunni og hvað sé fram undan segir hún að útgáfa plötunnar sé áætluð í lok sumars eða byrjun hausts. „Fram undan er mikil vinna og undirbúningur en ég stefni á að sleppa öðrum síngúl af plötunni í millitíðinni, seinna í sumar. Fyrir utan það er ég bókuð í mörg mjög skemmtileg verkefni í sumar og aðrir spennandi hlutir í vinnslu. Að lokum vil ég segja takk fyrir allan meðbyrinn og peppið. Hann er algjörlega ómetanlegur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -